Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 24

Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 24
24 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/20 Málsforræði og réttarfarskröfur Einkamálaréttarfarið eins og það birtist í lögunum gefur ekki alltaf rétta mynd af því hvernig málsmeðferð fyrir héraðsdómi er í raunveruleikanum eða hvað? Það er auðvitað mjög mikil virðing fyrir aðilaforræðinu hjá dómstólum. Kannski er það komið út í öfgar að einhverju leyti, t.d. þegar dómari fellst nánast sjálfkrafa á allar beiðnir um fresti eða lögmenn „taka frestinn“ eins og það er kallað. Milliþinghöld ætti að vera auðvelt að lagfæra en það virðist þó ekki takast. Þar eru vinnubrögð ómarkviss og mikil frestunarárátta í gangi. Þar er ekki eingöngu við lögmenn að sakast! Þegar lögmaður óskar eftir fresti til að afla gagna þá spyr ég yfirleitt að því hvaða gögn þetta eru. Síðan vil ég að fyrir næstu fyrirtöku sé búið að kynna viðbótargögnin fyrir gagnaðila og sá hafi að sama skapi tekið afstöðu til gagnanna og kynnt utan réttar hvað hann ætli leggja fram af þessu tilefni. Í sjálfu sér er engin ástæða til þess að dómari sé að hitta lögmenn til þess að þeir skiptist á gögnum og taki svo nýjan frest. Þá er það einfaldlega óboðlegt að lögmenn sendi fyrir sig fulltrúa í fyrirtöku sem afhendir eitt skjal yfir borðið og veit ekkert um málið. Það er ekki fullnægjandi svar við spurningum dómara, t.d. um stöðu gagnaöflunar eða fyrirhugaða aðalmeðferð, að segja „ég er bara að mæta fyrir einhvern annan“! Sumir telja að rafvæðingin muni leysa þetta „ping pong kerfi“ í milliþinghöldunum en ég sé ekki neina sérstaka framför í því að vera með rafrænar fyrirtökur þar sem nákvæmlega það sama gerist og í dag. Þátttaka dómara getur hér skipt miklu máli. Dómarinn á auðvitað að fullnægja þeirri skyldu sinni að fylgjast með gagnaöflun. Það er t.d. ekki óþekkt við fyrstu fyrirtöku eftir úthlutun máls að lögmaður stefnda óskar eftir fresti án sérstaks rökstuðnings þrátt fyrir að vera nýbúinn að leggja fram greinargerð og gögn. En menn virðast líta á það sem nánast heilagan rétt að fá frest. Það er ljóst af lögunum að þegar komið er að annarri eða þriðju fyrirtöku eftir úthlutun máls á dómarinn að vera með stækkunargler á allar beiðnir um fresti til frekari gagnaöflunar. Þetta geta ekki verið einhver óskilgreind gögn heldur verður að vera einhver sérstök ástæða, öflun matsgerðar eða eitthvað slíkt. Hér gildir ekki reglan „frestur er á illu bestur“! Svo má spyrja hvort stundum séu réttarfarsreglur túlkaðar of stíft. Ef mál er t.d. höfðað sem einfalt innheimtumál vegna félagsgjalda og fram kemur greinargerð upp á 35 bls. sem fjallar um neikvætt félagafrelsi, er þá óheimilt að gefa stefnanda kost á að skila viðbótargreinargerð? Strangt til tekið tel ég ekki svo vera en e.t.v. mætti þetta þó vera skýrara. Frávísanir Við verðum aðeins að ræða sístækkandi hluta af málsmeðferðinni, þ.e. réttarfarsatriðin sem leiða jafnvel til frávísunar mála. Sem hagnýtt atriði má nefna frávísunargreinargerðir sem eru nýlega til komnar og mér finnst ekki hafa gefist illa. Hugmyndin er að setja ekki of mikið púður í mál ef það eru miklar líkur á frávísun þess frá dómi. Eins má nefna að dómarar geta nú synjað um frávísun með munnlega rökstuddum úrskurði. Þetta er einnig hagræði sem mér finnst hafa gefist vel. Talandi um frávísunarkúltúrinn væri, á almennari nótum, vissulega áhugavert að sjá samanburð á hlutfalli frávísana íslenskra dómstóla miðað við önnur lönd. Í Ísrael er t.d. litið á dómstóla sem mikilvægan vettvang samræðu og úrlausnar hvers kyns ágreiningsmála samfélagsins. Sá andi sem manni finnst þar svífa yfir vötnunum er að dómstólar vilji leysa úr málum eins og kostur er. Þetta kemur t.d. fram í því að þú getur skrifað erindi til Hæstaréttar Ísraels á servíettu á veitingastað, sent réttinum og hann getur þá tekið málið upp að eigin frumkvæði ef talið er að efnið sé merkilegt. Spyrja má hvort hér á landi hafi viðhorfið frekar verið það í gegnum tíðina að menn eigi helst ekki að vera að ónáða hina virðulegu embættismenn að óþörfu með þrætumálum sínum. Ef reglur um lögvarða hagsmuni, aðild og aðrar réttarfarsreglur eru farnar að verða óeðlileg tálmun við því að borgararnir fái úrlausn um ákveðna mikilvæga hagsmuni sína, t.d. á sviði umhverfismála eða vegna stjórnskipulegs gildis laga og milliríkjasamninga, erum við náttúrulega komin inn í 70. gr. stjórnarskrárinnar sem við ætluðum ekki að ræða hér. Hverju mættu lögmenn gæta betur að? Að lokum, viltu nefna einhver atriði sem lögmenn mættu gera betur eða sleppa? Að frátöldu því sem við nefndum áðan í sambandi við milliþinghöldin get ég nefnt þann hvimleiða sið að spyrja vitni um álit eða skoðun á einhverjum atriðum við aðalmeðferð. Sumir gera þetta ítrekað í stað þess spyrja um atvik sem vitnið hefur upplifað að eigin raun. Það má svo bæta við þeim ósið dómara að láta þetta átölulaust og bæta jafnvel sjálfir við svona spurningum. Þetta gerir

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.