Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 23

Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 23
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/20 23 Virkari þátttaka dómara Ég held að flestir lögmenn vilji að dómarar séu virkir í málsmeðferðinni, meiri þátttakendur í að móta málsmeðferðina. Sumir héraðsdómarar taka eiginlega ekkert þátt í málinu fyrr en þeir skila dómi. Dómarar gætu í mörgum tilvikum notað undirbúningsþinghöld til þess að skerpa á raunverulegum ágreiningi aðila og um leið beint því til lögmanna sem dómari telur rétt að leggja áherslu á. Hér skiptir miklu hvers konar menning ríkir í kringum rekstur dómsmála. Segja má að gildandi reglur geri í reynd ráð fyrir virku hlutverki dómara þótt reyndin sé yfirleitt önnur. Í Þýskalandi eru reglurnar t.d. ekki ósvipaðar og hér á landi en þar hefur dómarinn frá fornu fari verið mun virkari. Þegar gagnaöflun er vel á veg komin í Þýskalandi er dómarinn farinn að setja sig vel inn í málið, taka það saman og kom með mjög ákveðin skilaboð til lögmanna um hvernig eigi að halda á spöðunum ef menn ætli á annað borð að komast til lands. Í því getur t.d. falist að hann telji staðhæfingar aðila tæplega nægjanlega sannaðar, eins og málið standi nú, eða hann vísar til dómafordæma og fræðiskrifa um hina lagalegu hlið málsins. Með þessu ýtir dómarinn málinu mjög ákveðið í farveg sáttar. Auðvitað eiga aðilar rétt á því að flytja málið og fá skriflegan dóm en það er e.t.v. fyrst og fremst gert ef til stendur að áfrýja málinu. Það er einnig umræða meðal dómara um það hvort við eigum að taka upp danska fyrirkomulagið (sem er þó í raun þýskt) þar sem dómari lætur uppi munnlegt álit að loknum munnlegum málflutningi í stað formlegs dóms ef um það er samkomulag. Aðilar óska þá yfirleitt ekki eftir skriflegum dómi nema þeir ætli að áfrýja niðurstöðunni líkt og í þýska kerfinu. Þetta er nokkuð óformlegt en dugar þó yfirleitt til þess að enda ágreininginn. Allar nauðsynlegar heimildir virðast vera fyrir hendi hér á landi en kúltúrinn skortir. Hér á landi virðumst við vilja að dómarinn sé með „pókerfeis“ fram að dómsuppsögu eða hvað? Skilvirkni munnlegs málflutnings Það sama á við í munnlegum málflutningi. Þar mættu dómarar oft vera meiri þátttakendur og spyrja eða gefa með öðrum hætti til kynna hvaða atriði lögmenn þurfa að útskýra betur Ég er sammála því en hér hefur þó hver dómari sinn persónulega stíl. Við verðum auðvitað að spyrja okkur, til hvers er munnlegur málflutningur? Ég er ekki viss um að öllum finnist að munnlegur málflutningur snúist um að reifa málið fyrir dómaranum og reyna að sannfæra hann. Sumir virðast telja að þetta sé vettvangur til þess að gera eitthvað annað. Til dæmis eru sumir lögmenn sem horfa ekki einu sinni á dómarann heldur virðast þeir aðallega vera að flytja málið fyrir lögmann gagnaðila. Til er að lögmenn gefi í skyn að dómarinn sé að trufla „flæðið“ í ræðunni með spurningum. Auðvitað getur þó eitthvað verið til í því í sumum tilvikum og vissulega á lögmaðurinn að fá að flytja málið óáreittur. Svo er fólk fyrir utan dómstólana sem telur rétt að sjónvarpa eða streyma málflutningi (jafnvel einnig skýrslutökum!), en þá skapast augljóslega sú hætta að menn hætti að flytja málið fyrir dómarann heldur einhverja aðra. Hér kann málið að horfa öðruvísi við í héraði en t.d. Hæstarétti þar sem málin hafa jafnan almenna þýðingu. Dómarar getað óskað eftir flutningi um tiltekin atriði áður en aðalmeðferð fer fram og það kemur fyrir, en þá verður dómarinn auðvitað að vera búinn að setja sig vel inn í málið. Við erum þó með dómaframkvæmd þar sem dómarar hafa gert sig vanhæfa með fyrir aðalmeðferð með því að gefa eitt og annað í skyn. Hér er vandrataður meðalvegurinn og spurningin um okkar réttarfarskúltur vaknar aftur.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.