Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 18

Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 18
18 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/20 „GÆI KÝLDI MIG MÁ ÉG EKKI ÖRUGGLEGA KÝLA HANN TIL BAKA?“ LÖGFRÆÐINÖRDAR VINSÆLIR Á FACEBOOK Á FACEBOOK ER SÍÐAN LÖGFRÆÐINÖRDAR MEÐ 3562 MEÐLIMUM. ÞAR SKIPTAST LÖGFRÆÐINGAR Á SKOÐUNUM UM HIN ÝMSU MÁL AUK ÞESS SEM ALMENNINGUR SENDIR FYRIRSPURNIR UM LÖGFRÆÐILEG MÁLEFNI. OFT ER LÍFLEGT Í ÞESSUM HÓPI OG Í NÓVEMBER MÁNUÐI EINUM KOMU ALLS 28 FYRIRSPURNIR EÐA UMFJALLANIR, EÐA AÐ JAFNAÐI EIN Á DAG. ALLTAF ER ÞAÐ EINHVER SEM SVARAR EN DÆMI ERU UM AÐ HÁTT Í 30 UMMÆLI VIÐ EINA FÆRSLU, BÆÐI FRÁ LÖGFRÆÐINGUM OG ALMENNINGI. LÖGMANNABLAÐIÐ RÆDDI VIÐ BÖRK I. JÓNSSON LÖGMANN, ANNAN AF STOFNENDUM SÍÐUNNAR. Það voru þeir Börkur I. Jónsson og Ragnar Tjörvi Baldursson sem að stofnuðu hópinn árið 2014 en að sögn Barkar fannst þá vanta vettvang þar sem lögfræðingar gætu spjallað sín á milli um lögfræðileg málefni og almenningur komið með fyrirspurnir. „Við settum fram reglur um að tilgangur hópsins væri að ræða lögfræðitengd álitaefni og að innlegg og ummæli yrðu ávallt að vera málefnaleg,“ sagði Börkur. Voruð þið með einhverja fyrirmynd, íslenska eða erlenda? Já, það er hópur á Facebook sem heitir Markaðsnördar sem er vettvangur fyrir alla þá sem hafa áhuga á markaðsmálum í víðum skilningi. Við höfðum áhuga á að búa til einhvern sambærilegan stað fyrir lögfræðinördana. Það er greinilegt að síðan er mjög vinsæl, finnst ykkur hún hafa gegnt hlutverki sínu vel? Já, þetta hefur verið af hinu góða. Síðan þjónar eiginlega tvennum tilgangi. Annars vegar er þetta vettvangur fyrir lögfræðinörda sem eru að spá í hinu og þessu tengt lögfræðinni og svo fyrir almenning til að spyrja einfaldra spurninga sem lögmenn/lögfræðingar úti í bæ svara. Þá hafa einhverjir aflað sér viðskipta í gegnum síðuna. Hvaða reglur gilda á síðunni? Öllum meðlimum er gert að gæta kurteisi í skrifum sínum og hatursorðræða er stanglega bönnuð. Ef reglur eru brotnar getur það leitt til þess að innlegg eru fjarlægð og viðkomandi er vikið úr hópnum. Það hefur þó ekki verið mikið um það og við reynum að halda í að fólk hafi málfrelsi svo framarlega að það er kurteist og málefnalegt. Er mikil vinna að stjórna síðu sem þessari? Það fylgir þessu auðvitað ákveðin vinna en við höfum fengið til liðs við okkur fimm aðra lögfræðinga sem eru stjórnendur síðunnar auk okkar Ragnars. Það eru þeir Pálmi Rögnvaldsson, Andri Axelsson, Pétur Fannar Gíslason, Hafliði Gunnar Guðlaugsson og Ingi Freyr Ágústsson. Samþykkið þið alla sem biðja um aðgang að Lögfræðinördum? Við höfum hópinn opinn fyrir alla en samþykkjum þó ekki erlend nöfn sem hafa ekki tengsl við Ísland. Að lokum, hafið þið fengið viðbrögð við síðunni hjá lögmönnum? Já, margir lögmenn eru í hópnum og þó nokkrir mjög virkir. Í gegnum tíðina hefur verið umræða um að lögmenn væru ragir við að vera með mjög djúpar pælingar þar sem í hópnum eru líka ólöglærðir. Því tókum við okkur til og stofnuðum annan hóp á Facebook sem heitir einfaldlega „Lögmenn“ og í hann er eingöngu hleypt lögmönnum með virk réttindi hjá LMFÍ. Þar eru um 280 lögmenn og er umræðan nokkuð virk bæði hvað varðar lögfræðileg álitaefni sem og praktísk atriði varðandi lögmannastarfið. EI

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.