Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 28

Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 28
28 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/20 ER MUNNLEGUR MÁLFLUTNINGUR ÓÞARFI? HEIÐAR ÁSBERG ATLASON, FYRRVERANDI HÆSTARÉTTARLÖGMAÐUR Vinnufundur réttlætisins Það er kennt í laganámi að málflutningur fyrir dómstólum sé að meginstefnu til munnlegur og á því byggir okkar réttarfar. Í einkamálum eru engu að síður lagðar fram skriflegar stefnur og greinargerðir sem eiga að vera gagnorðar þótt þær hafi verið að lengjast í seinni tíð. Við því hefur réttilega verið amast af hálfu dómstóla enda á málflutningur að vera munnlegur að meginstefnu. Þannig eru reglurnar allavega. Í skriflegum málflutningi eru efnisleg rök færð fram og við áfrýjun mála milli dómstiga bætast við fleiri greinargerðir og skjöl eftir atvikum. Síðan eru mál munnlega flutt fyrir dómstólum landsins. Töluvert hefur verið skrifað um tilgang munnlegs málflutnings. Dómarar og lögmenn virðast sammála að hann sé mikilvægur hluti málsmeðferðarinnar og kjarninn í starfi málflutningsmanna. Garðar Gíslason, þáverandi dómari í Hæstarétti, tók þátt í rökstólum í 51. árgangi af Úlfljóti árið 1998. Um málflutning fyrir dómi sagði Garðar m.a. „Þarna eru menn samankomnir á vinnufundi til þess að leita réttlætisins, á þann hátt sem við höfum fengið í arf frá forn- Grikkjum, að sannleikurinn komi fram ef menn setji fram bestu rök með og móti skoðunum, gagnrýni þær og finni niðurstöðuna.“ Vinnufundur til að leita réttlætisins? sagði dómarinn. Fleiri en Garðar hafa kallað munnlegan málflutning vinnu- fund dómara og lögmanna enda er það viðeigandi heiti. Það er enda verið að fara yfir málið af hálfu þjóna réttlætisins, lögmanna og dómara. Á þeim vinnufundi eiga lögmenn að draga fram fyrir dómara það helsta sem lögð er áhersla á í málinu; það sem skiptir máli fyrir úrlausn þess. Einstaka dómarar ákveða fyrirfram í samráði við lögmenn hvar áherslur málflutnings eigi að liggja og afmarka þannig álitamálin með skýrum hætti. Hefur mikilvægi munnlegs málflutnings aukist að mati lögmanna eftir því sem mál vaxa að gögnum og skriflegum málflutningi enda er þá hætta á að aðalatriðin týnist. Þess vegna er mikilvægt að munnlegur málflutningur sé skýr og hnitmiðaður. Fjalli um það sem máli skiptir að mati þess sem flytur málið til að sannleikurinn komi í ljós. Til að réttlætið komi fram. Á vinnufundinum eiga sér iðulega stað rökræður um einstök atriði sem reynir á við úrlausn málsins. Hverjar eru staðreyndir málsins, hvað er umdeilt og hvað ekki, hvaða málsástæður og lagarök skipta máli, hvaða þýðingu eldri dómafordæmi og fræðiskrif hafa, hvernig beri að túlka gildandi rétt og svo mætti lengi telja áfram. Þá reynir virkilega á lögmenn. Það þarf að flytja málið með skýrum hætti svo dómari leggi við hlustir og skilji mikilvægi þess sem um er fjallað og hvað það er sem skiptir mestu máli. Ég valdi það starf að vera lögmaður. Held að mikið áhorf á Matlock forðum hafi haft þar einhver áhrif enda var hann svakalega flottur í ljósgráu jakkafötunum sínum þótt þættirnir eldist illa. Ég varð hæstaréttarlögmaður árið 2010. Þá fannst mér ég hafa náð hæstu hæðum í lífinu. Síðan var titlinum breytt með tilkomu Landsréttar. Í dag er ég lögmaður og finnst frekar flott að vera fyrrverandi hæstaréttarlögmaður. Jafnvel bæði eldri og reyndari fyrir vikið. Er meira að segja orðinn gráhærður segja kunnugir. Mér finnst gaman í vinnunni og einkum að stunda málflutning fyrir dómi.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.