Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 26

Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 26
26 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/20 JÓLA-MÖRÐUR Íslands óhamingju verður allt að vopni, hugsaði Mörður þegar hann las um að bráðabirgðaheimild til þess að viðhafa rafræna málsmeðferð fyrir héraðsdómi yrði framlengd vegna þessarar kórónuveiru. Nú yrði hnignun réttarríkisins fyrst að veruleika þegar stafrænt réttarfar myndi tröllríða öllu og hvað þá þeirri réttarfarslegu snilld og þrætubók sem Mörður hafði allan starfsferil sinn verið að sérhæfa sig í og fínpússa. Synja um fresti, málskostnaðartryggingar, formskilyrði, fjöldi eintaka, ólæsileg skjöl og annmarkar á formi var eiginlega það eina sem Mörður var virkilega góður í. Nú myndi það væntanlega allt hverfa með þessari rafrænu þráhyggju. „Það er formið sem skiptir máli en ekki efnið“, þrumaði hann iðulega þegar hann flutti mál fyrir nýjum héraðsdómurum sem virtust alltaf verða yngri og yngri með hverri skipan og þar með fjarlægari þeirri lögfræði sem Mörður þekkti og elskaði. O, tempura o, móris, hugsaði hann og andvarpaði. Mörður hafði aldrei verið sleipur í dönsku eða ensku enda stefndi hugur hans snemma á guðfræði eða lögfræði þar sem lítil not yrði fyrir kjaftasnakk á erlendum tungum. Þegar hann kom hins vegar í lagadeildina var stór hluti af pensúminu í jússnum á dönsku. Merði fannst það alltaf klént og merki um niðurlægingu íslenskrar lögfræði að mikill hluti hennar væri kenndur á dönsku löngu eftir lýðveldisstofnun. Hvurn fjárann varðaði hann um það hvað þessir kallar allir Gomard, Ussing og Kruse létu frá sér í langhundum um réttarstöðuna í Danmörku? Mörður tók því af þjóðernisástæðum ekki þátt í þeirri iðju sem samnemendur hans viðhöfðu að sletta í tíma og ótíma meginreglum á dönsku eða latínu til þess að virðast vera gáfaðri og meiri fyrir vikið. Þetta var sérstaklega mikil plága í víxlainnheimtunni þegar nýbakaðir fulltrúar, blautir bak við eyrun, þvöðruðu endalaust um a vista, a viso, a dato og avalista. Þótt flestu hefði farið aftur eftir að víxlarnir hurfu í viðskiptum saknaði hann ekki þessara tilgerðarlegu latínugrána. Í þeirra stað var hins vegar komin önnur óværa í stéttina. Margir lögmenn geta ekki opnað munninn eða skrifað nokkurn skapaðan hluta nema að flækja mannréttindum og einhverjum Evrópurétti þar inn í og svo smitaðist öll þessi vitleysa í málaferli fyrir dómstólunum. Mörður hafði flutt mál fyrir frænku sína gegn ríkinu, sem var einfalt endurkröfumál í eðli sínu, en lögmaður ríkisins hafði hins vegar lagt fram þverhandarþykkan bunka af einhverjum díríktífum, dómum og fordómum einhvers af þessum óteljandi dómstólum í þessu bákni. Og dómarinn, sem líka var frekar ungur og sérmenntaður í öllum þessum fræðum og hjávísindum, hafði að sjálfsögðu étið allt þetta eins og nýja ýsu með kartöflum og sýknað með vísan í allt þetta fimbulfamb. Var það ekki skýrt í Gamla sáttmála að við fengjum að vera hér í friði fyrir afskiptum erlendra konunga og lénsmanna þeirra? Erum við ekki fullvalda þjóð og sjálfstæð? Nei, um það vissu þessi lögbörn ekki neitt og dómstólarnir ekki heldur. Bara einu sinni hafði Mörður verið beðinn um að taka að sér mál sem tengdist einhverri af þessari Evrópuvitleysu. Um miðjan níunda áratuginn kom maður til Marðar sem var afskaplega ósáttur við það að hafa verið tekinn og sektaður fyrir að brjóta gegn stöðvunarskyldu. Vildi hann fá Mörð til þess að verja sig í málinu enda hefði hann verið hafður fyrir rangri sök og vildi fara með málið alla leið til Mannréttindanefndarinnar í Strassborg ef það tapaðist í sakadóminum. Mörður hafði ekki tíma til þess að taka svona smámál að sér þar sem hann hafði nýverið fengið stóra innheimtu fyrir útibú Útvegsbankans. Þar fyrir utan væri það alveg ljóst að maðurinn hefði brotið stöðvunarskyldu og þá dygði ekkert að vitna í einhverja mannréttindasáttmála sem tæki fyrst og fremst til einhvers alvarlegs sem gerðist í útlöndum og hefðu, þar fyrir utan, ekkert gildi á Íslandi. Mörður fékk síðan ekki innheimtuna vegna misskilnings og misgánings, eins og þeir sögðu hjá bankanum, svo hann ákvað að heyra aftur í manninum um hvort hann vantaði aðstoð. „Nei takk ég er kominn með þennan ljómandi fína lögfræðing sem ætlar að fara með málið alla leið fyrir mig – þetta er hvorki meira né minna en mál sem snýst um grundvallarréttindi,“ sagði hann. Grundvallarréttindi? Hvaða vitleysa er þetta eiginlega? Maðurinn stoppaði ekki á stöðvunarskyldu! Væri þessum lögmanni ekki nær að reyna að ná sér í einhverja góða innheimtu? hugsaði Mörður og hélt áfram að skrifa fjárnámsbeiðni vegna víxils án afsagnar sem ekki hafði verið borgaður við sýningu.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.