Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 9

Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 9
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/20 9 sinni að hafa aðhald með löggjafar- og framkvæmdarvaldinu. Mannréttindadómstóllinn minnir því á að það er hlutverk dómsvaldsins að tempra vald annarra valdhafa og vera varðmaður laganna í réttarríki. Þessi áminning mun vonandi hafa víðtækari áhrif á það hvernig dómstólar líta á hlutverk sitt í framtíðinni. Tregða dómstóla við að leysa úr ágreiningmálum borgara gegn ríkisvaldinu sem birtist í Landsréttarmálinu er nefnilega ekki bundin við það mál. Dómstólarnir sjálfir hafa takmarkað aðhald sitt Á undanförnum 20 árum eða svo virðist sem íslenskir dómstólar hafi dregið verulega úr aðhaldi sínu gagnvart öðrum greinum ríkisvalds. Dómstólar hafa á þessum árum veitt bæði löggjafar- og framkvæmdarvaldi aukið svigrúm og veigrað sér við að grípa inn í athafnir þeirra. Sé þessi þróun skoðuð með hliðsjón af röksemdum Mannréttinda- dómstólsins má spyrja hvort íslenskir dómstólar hafi í auknum mæli vikist undan einu megin hlutverki sínu. Með öðrum orðum hvort íslenskir dómstólar hafi almennt verið of varfærnir þegar kemur að því að tempra vald og endur skoða athafnir annarra handhafa ríkisvalds gagnvart borgunum. Minna aðhald dómstólanna má greina af breyttum áherslum á mörgum réttarsviðum. Líklega munar mest um þær breytingar sem orðið hafa á túlkun réttarfarsreglna þegar borgarar leita til dómstóla vegna athafna opinberra aðila. Þetta eru skilyrði sem ganga þvert á réttarsvið enda eiga þau við um öll mál þar sem reynt er að fá dómstóla til að endurskoða athafnir valdhafa. Í kringum síðustu aldamót tóku dómstólar upp á því að herða verulega skilyrðin fyrir því að borgarar gætu borið mál undir dómstóla. Með þróun á réttarfari hafa dómstólar þannig gert borgurunum erfiðara fyrir að sækja rétt sinn. Síðan þessi vegferð dómstóla hófst hafa íslenskir lögfræðingar staðið frammi fyrir óljósum reglum um aðild, kröfugerð og lögvarða hagsmuni í málum sem varða opinbera aðila. Ekki hjálpar til að verulegt ósamræmi hefur verið í úrlausnum dómstóla um þessi atriði og oft ómögulegt að sjá fyrir niðurstöður um formsatriði mála. Eitt af fjölmörgum dæmum um ófyrirsjáanleikann var þegar Hæstiréttur sjálfur skiptist í þrennt í afstöðu sinni til formsatriða í dómsmáli borgara gegn stjórnvöldum (Hrd. 264/2008). Þegar dómurinn var kveðinn upp höfðu settar reglur um réttarfar ekki breyst í fjölda ára en eins og áður segir hafði gríðarmikil breyting engu að síður átt sér stað hjá dómstólunum sjálfum. Lengst hefur þessi réttarfarsþróun gengið í afstöðu dómstóla til skilyrðisins um lögvarða hagsmuni. Þetta réttarfars skilyrði hefur stökkbreyst frá því að vera sjaldgæf undan tekn- ingarregla í að verða stór hindrun í vegi borgara sem reynir að sækja rétt sinn gagnvart opinberum aðila. Þróunina má t.d. sjá með því að bera saman tvö mál. Annars vegar mál frá árinu 1999 sem snerist um það að Ríkisútvarpið hafði neitað að láta túlka á táknmáli framboðsumræður í sjónvarpi, kvöldið fyrir kosningar til Alþingis, um leið og þær færu fram (Hrd. 151/1999). Félag heyrnarlausra höfðaði mál og krafðist þess að Ríkisútvarpinu yrði gert skylt að láta túlka umræðurnar með þessum hætti. Í málinu var ekkert deilt um lögvarða hagsmuni og niðurstaða málsins varð að lokum sú að fallist var á kröfuna enda taldi Hæstiréttur um að ræða mikilvæg réttindi fyrir heyrnarlaust fólk. Til samanburðar má svo skoða mál frá árinu 2015 þar sem 10 ára heyrnarlaus drengur, nemandi í grunnskóla í Reykjanesbæ, óskaði eftir því að námsefni hans yrði tiltækt á táknmáli svo hann hefði sama aðgang að því og aðrir nemendur (Hrd. 394/2015). Málið fékk ekki efnislega umfjöllun þar sem dómstólar komust að þeirri niðurstöðu að heyrnarlausi drengurinn hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að námsefni hans í barnaskóla væri honum aðgengilegt. Aðgengi að dómstólum er hluti af réttlátri málsmeðferð Breyting dómstóla á réttarfarsskilyrðum hefur verið í þágu valdhafa, þ.e. löggjafans og framkvæmdarvaldsins. Strangari og þrengri skilyrði hafa leitt af sér verulegar takmarkanir á því hvaða athafnir opinberra aðila verða bornar undir dóm og einnig hverjir geta farið með slík mál fyrir dómstóla. Möguleikar borgaranna á því að fá endurskoðun á athöfnum valdhafa hafa minnkað verulega á undanförnum árum. Um leið hefur löggjafar- og framkvæmdarvaldið fengið mun meira svigrúm til athafna án þess að eiga á hættu að dómsvaldið grípi inn í og tempri vald þeirra. Með öðrum orðum hefur vald þeirra aukist með minni temprun dómstóla. Landsréttarmálið laut að rétti borgaranna til réttlátrar málsmeðferðar. Það felst í réttlátri málsmeðferð að borgarar hafi raunverulegan aðgang að dómstólum en séu ekki útilokaðir frá þeim með réttarfarsreglum. Þá ber dómstólum að leysa úr ágreiningsefnum sem borin eru undir þá í stað þess að víkja sér undan því að hrófla við athöfnum annarra þátta ríkisvaldsins. Í dómi Mannréttindadómstólsins er minnt á þetta hlutverk dómsvaldsins. Vonandi munu dómstólar túlka þær ábendingar með víðtækum hætti í stað þess að líta svo á að varfærnin í málinu hafi verið einangrað tilvik. Daníel Isebarn Ágústsson

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.