Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 22

Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 22
22 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/20 Ég þekki líka svona reglur frá Lúxemborg, EFTA- og Evrópudómstólnum. Að einhverju leyti eru líka fyrirmyndir hér á Íslandi frá öðrum dómstigum. Þetta eru nokkur atriði sem þarf að bæta en það augljósasta er að koma einhverjum böndum á magn pappírs og plasts. Upp að vissu marki er þetta spurning um einfaldar reglur sem við gætum sett fyrir lokun í dag en þetta verður þó ekki gert nema í samstarfi og sátt við lögmenn. Ég býst þó ekki við að lögmenn myndu mótmæla því ef skýrari viðmið yrðu mótuð um þessi atriði. Auk þess er þetta að einhverju leyti vandamál sem mun hverfa með aukinni rafvæðingu skjala í dómsmálum sem krefst ákveðinnar festu og umgjarðar eðli málsins samkvæmt. En svo vandast málið aftur á móti þegar kemur að málflutningsskjölunum, stefnu og greinargerð. Þar eru vandamál sem hverfa ekki með rafvæðingu heldur munu mögulega versna. Framsetning og lengd skjala Ég tel löngu tímabært að skoða hvernig stefnur og greinargerðir eru settar fram svo og hversu löng þessi skjöl eiga að vera. Hvaða grunnupplýsingar eiga að vera í þeim, eiga málsgreinar að vera númeraðar og fleira. Þessi skjöl eru orðin mjög löng í dag og ég hef áhyggjur af því að þau muni þróast enn frekar í óæskilega átt með rafvæðingu. Það má kannski rifja það upp að þegar ég var í lagadeild á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar þá var kenndur þar dómur í réttarfari þar sem lögmaður hafði skilað 22 blaðsíðna stefnu og var málinu vísað frá héraðsdómi sem skriflegum málflutningi. Þegar þessi dómur kom til umfjöllunar í tíma var hlegið að því að einhverjum skyldi hafa dottið svona vitleysa í hug. Nú þykir svona löng stefna alls ekki óvenjuleg. Lögmenn halda e.t.v. að þeir líti út fyrir að vera með vandaðri málatilbúnað ef málflutningsskjölin eru löng en hér er magn ekki alltaf sama og gæði. Getur verið að dómstólar beri einhverja ábyrgð á þessu, þ.e. hvernig réttarfarið hefur þróast á undanförnum árum? Vissulega voru stefnur einu sinni 1-2 blaðsíður en hvernig myndu dómstólar taka á þannig stefnu í dag? Væri málið ekki bara vanreifað? Já, ég get reyndar verið sammála því. Þessi þróun byrjar líklega fyrir alvöru á 10. áratug síðustu aldar þegar Hæstiréttur var að vinda ofan af miklum málahala og leitaðist við að gera málsmeðferðina skilvirkari. Eitt af því sem Hæstiréttur greip til var að skera niður málflutningstíma lögmanna. Þá brugðust lögmenn við með því að stækka skriflega hluta málflutningsins og það var að einhverju leyti umborið af Hæstarétti. Þróunin hefur því orðið sú að málflutningur hefur færst í meira mæli yfir í skriflega hlutann sem er kannski ekki í fyllilega í samræmi við meginregluna um munnlega málsmeðferð. Þessi þróun í Hæstarétti smitaðist síðan yfir á héraðsdóm og nú síðast Landsréttar. Í héraði hafa lögmenn þó ekki alveg eins góða afsökun þar sem málflutningstími í héraði er ekki takmarkaður með sama hætti og á æðri dómstigum. Jafnvægið milli skriflegs og munnlegs málflutnings En ef maður lítur ekki á meginregluna um munnlegan málflutning sem heilaga og óhagganlega en horfir á þetta praktískt – Er ekki í raun og veru gott fyrir dómara að hafa málatilbúnaðinn að mestu leyti skriflegan í stað þess að treysta á að allt komist til skila munnlega? Ég held að flestir dómarar myndu segja að það sé ekkert að því að hafa langar stefnur og greinargerðir svo lengi sem málatilbúnaðurinn er skýr og markviss. Vandamálið er hins vegar að þessi löngu skjöl eru iðulega þannig að það er verið að fara í hringi, skrifa sömu hlutina upp aftur og aftur með blæbrigðum. Dómarinn er því oft með mikinn texta fyrir framan sig en samt er ekki alltaf ljóst af textanum hvert er verið að fara. Svo kemur greinargerð og í stað þess að hún svari stefnunni með markvissum hætti er þar e.t.v. einnig farið í hringi út um víðan völl. Eitt af því sem dómari getur gert við þessar aðstæður er að nýta sér heimild í einkamálalögunum til þess að óska eftir skriflegri upptalningu á málsástæðum við aðalmeðferð. Auðvitað vill héraðsdómari ekki vera sakaður um það að hafa ekki tekið afstöðu til allra málsástæðna og hætta á ómerkingu. Af því hlýst svo aftur að „hérinn“ á það til að hafa útlistun á málsástæðum og lagarökum aðila í dóminum ótæpilega langa. E.t.v. má spyrja hvort munnleg málsmeðferð sé að einhverju leyti orðin meira í orði en á borði. Þetta á sérstaklega við í Landsrétti og Hæstarétti þar sem aðilar hafa skilað ítarlegum málflutningsskjölum á lægri dómstigum, síðan bætast við hliðsjónargögn og svo mæta menn og fá að flytja málið í kannski 30 til 45 mínútur. Eigum við kannski frekar að horfast í augu við orðinn hlut og taka í auknum mæli upp skriflega málsmeðferð á æðri dómstigum? Fyrirkomulagið yrði þá þannig að aðili fær kost á að svara skriflega stefnu/ greinargerð, eins við sjáum í skriflegu réttarfari víða erlendis, og svo yrði stuttur munnlegur málflutningur í lokin til þess að gefa dómara kost á spurningum og taka málið saman. Að mínu mati horfir þetta þó öðruvísi við í héraði því þar er málið á hreyfingu allt fram að málflutningi.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.