Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Page 67
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS66
rannsökuð. Góðar heimildir voru um þessi fjárhús og tóftin stæðileg, enda
höfðu húsin verið í notkun fram á 20. öld, en einnig lá fyrir að eldri útihús
frá 19. öld hefðu staðið á sömu slóðum.
Árið 2011 var enn farið á vettvang m.a. til að kanna nánar fjárhústóftina
og það sem undir henni kynni að leynast. Við þá rannsókn komu í ljós
þykk kolalög að hluta undir óhreyfðri Heklugjósku frá 1104 (H-1104) og
þegar grafið var í gróskumikinn hól sem fjárhúsin stóðu á var komið niður
á stæðilegan gjallhaug og lá gjóska frá Heklu sem féll um 1300 (H-1300)
óhreyfð yfir honum öllum.7 Í fyrstu var talið ólíklegt að heilleg mynd
fengist á þessar járnvinnsluminjar þar sem bæði fjárhúsin frá 19. og 20. öld
voru niðurgrafin. Annað kom þó á daginn og voru að endingu grafnar
upp leifar tveggja rauðasmiðja með greinilegum leifum a.m.k. fjögurra
ofnstæða ásamt f leiri verr varðveittum leifum ofna.
Skógar í Fnjóskadal - saga og fyrri rannsóknir
Bærinn Skógar er í vestanverðum Fnjóskadal, um 2 km sunnan við ármót
Fnjóskár og Þingmannalækjar, þar sem þjóðvegur eitt liggur í dag yfir
Fnjóská, annars vegar til austurs um Ljósavatnsskarð og hins vegar til
norðvesturs yfir Víkurskarð og niður í Eyjafjörð. Eldri þjóðvegur lá eftir
gamalli þjóðleið yfir Vaðlaheiði og fast norðan við gamla heimatúnið í
Skógum og yfir Fnjóská nokkru sunnar. Staðurinn hefur því um aldir verið
í þjóðleið á Norðurlandi milli Eyjafjarðarsýslu og Suður-Þingeyjarsýslu,
jafnframt því að vera miðsvæðis innan sveitar. Í Skógum var lengi barnaskóli
og þar er enn félagsheimili íbúa Hálshrepps.
Skógar koma fyrst fyrir í heimildum 1454.8 Lítið er vitað um landkosti
eða eignarhald fram að því. Um miðja 16. öld var jörðin metin á 20
hundruð og hefur það haldist óbreytt fram á miðja 19. öld.9 Hún telst því
til meðalstórra jarða, hvorki stórbýli né kot.10
Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var rituð við upphaf
18. aldar áttu Svalbarðskirkja og Stóra-Eyrarland í Eyjafirði skógarhögg
í landi jarðarinnar.11 Þá var skógur til raftviðar og kolagerðar sagður
7 Magnús Á. Sigurgeirsson rannsakaði gjóskulög í Skógum 2012 í tengslum við uppgröftinn og komu
niðurstöðurnar út í skýrslu sama ár. Sjá Magnús Á. Sigurgeirsson 2012.
8 Diplomatarium Islandicum/Íslenzkt fornbréfasafn [hér eftir D.I.] V, bls. 119.
9 Björn Lárusson 1967, bls. 291; D.I. XIII, bls. 521; Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalin [hér eftir
JÁM] 11. bindi, bls. 78; Jarðatal á Íslandi, bls. 318-319.
10 Gísli Gunnarsson 2002.
11 JÁM 11, bls. 79.