Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Síða 88
87RANNSÓKN RAUÐABLÁSTURSMINJA Í SKÓGUM Í FNJÓSKADAL
sama stað og nýttir oftar en einu sinni með meiri eða minni viðgerðum (sjá
nánar í umfjöllun um rauðablástur framar í grein).
Í báðum rauðasmiðjunum í Skógum voru til þess að gera heillegir
botnar tveggja ofna hlið við hlið fyrir miðju bygginganna. Í tilfelli yngri
rauðasmiðjunnar A5 virðast ofnarnir hafa verið samtíða og að hluta til einnig
í eldri smiðjunni A7, þar var austara ofnstæðið þó greinilega lengi í notkun
eftir að hætt var að nota ofninn að vestanverðu. Tveir og tveir ofnar saman
innan bygginga hafa fundist á allmörgum stöðum á Norðurlöndunum frá
sama tíma og víðar á Norður-Atlantshafssvæðinu.38
Eins og fram hefur komið voru þrjú ofnstæði með holum eftir spýtur
eða granna stafi sem stungið var niður meðfram innri brúnum þeirra. Í
ofnstæðinu að vestan í eldri rauðasmiðjunni var ein hola í hverju horni
en alls 16 í austara ofnstæðinu og var það túlkað sem endurbygging ofna
á sama stað. Fjórar holur voru líka í vesturofni yngri rauðasmiðjunnar en
þær voru allar við eina hlið, þá sem vissi niðurgreftrinum sunnan hans.
Sams konar holur fundust einnig á stangli umhverfis ofnana. Ekki er að
fullu ljóst í hvaða tilgangi þessum spýtum eða stöfum hefur verið stungið
niður í horn ofnanna. Svipuð ummerki hafa fundist víðar í Evrópu og
á Norðurlöndunum og hafa m.a. verið túlkaðar sem timburgrind til að
mynda einangrunarhólf undir ofninum, til að lágmarka kælingu og raka
frá jörðinni.39 Í öðrum tilfellum hefur verið álitið að um timburgrind sé
að ræða sem hefur verið byggð til stuðnings þegar ofnarnir voru hlaðnir.
Heillegustu ofnleifarnar fjórar í Skógum voru allt leifar niðurgrafinna
ofna. Annar ofninn í A5 og annar í A7 voru þannig að niðurgröfturinn var
opinn á eina hlið og líklegt að þar hafi gjallinu verið tappað af. Hinir tveir
ofnarnir voru hins vegar ekki með greinilegt frárennsli við botn og má vera
að einhvers konar einangrunarhólf hafi verið undir þeim en aftöppunargat
hafi verið ofar.
Það er þó rétt að taka fram að dýpri ofnarnir tveir, sá austari í yngri
rauðasmiðjunni [23] og vestari í eldri smiðjunni [22], voru ekki eins að
öllu leyti. Einn ofninn [23] skar sig frá hinum ofnunum að því leyti, hann
var næsta hringlaga auk þess að vera umtalsvert dýpri og ekki með þjappað
íhvolft sindurlag í botni. Hinir ofnarnir voru allir ferhyrndir með rúnnuð
horn, þjappaða íhvolfa sindurpönnu í botni sem var á bilinu 40-60 cm í
þvermál og lausan jarðveg eða holrúm umhverfis líkt og þar hefðu verið
38 Hjärtner-Holdar, E., Grandin, L. og Forenius, S. 2013; Ofnapar fannst m.a. í South Hook í
Pembroke-skíri í Wales, tveir ofnar innan ögn niðurgrafinnar byggingar frá 11.-12. öld. Sjá Crane og
Murphy 2010, bls. 123-128.
39 Rundberget 2013, bls. 106, 108-111.