Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Qupperneq 94
93RANNSÓKN RAUÐABLÁSTURSMINJA Í SKÓGUM Í FNJÓSKADAL
vinnsluna sjálfa.52 Rannsóknir Arne Espelund m.a. á gjalli, málmi og rauða frá
Fnjóskadal, benda til að þar megi gera ráð fyrir 1:1 til 1:1,5 í hina áttina, sem
sagt að til verði jafnmikið eða meira af járni en gjalli við rauðablásturinn.53 Ef
það er rétt hafa að lágmarki 7-9 tonn af járni verið framleidd í Skógum en sé
miðað við lægri tölurnar gætu það hafa verið á bilinu 2,4-3 tonn.
Af gjóskulögum og jarðvegsþykknun á milli þeirra má fá nokkra
hugmynd um hve lengi járn kann að hafa verið framleitt í Skógum. Milli
gjóskulaganna H-1300 og Vv-1477 var 5-7 cm þykkt lag, þ.e. á bilinu 0,03-
0,04 mm jarðvegsþykknun á ári, á milli Vv-1477 og Vv-1717 voru 10cm eða
rúmlega 0,04 mm á ári. Ef gert er ráð fyrir jarðvegsþykknun á þessu bili allt
tímabilið má gera ráð fyrir að 2 cm lagið milli gjallhaugsins og 1300 lagsins
hafi orðið til á 50-67 árum og að síðast hafi gjalli verið hent í hauginn á
tímabilinu 1233-1250. Afstaða H-1104 gjóskunnar (2 cm yfir og undir) þar
sem hún var greinanleg í og við gjallhauginn bendir með sömu viðmiðum
til þess að seinna notkunarskeiðið kunni að hafa hafist á tímabilinu 1154-
1171 og því staðið yfir í 21-79 ár. Minjar frá fyrra tímabilinu koma hins
vegar beint ofan á gjósku frá 940 (LNS) en H-1104 gjóskan féll á 2 cm
þykkt óhreyft lag yfir gjallhaugnum. Með sömu útreikningum má áætla
að fyrra tímabilið hafi staðið yfir í 97-114 ár. Samanlagt kann því að hafa
verið framleitt á bilinu 12,4-76 kg á ári í Skógum á þessum 118-193 árum.
Til samanburðar hefur heildar járnþörf Íslendinga á ársgrundvelli verið
áætluð um 40-45 tonn á þessu tímabili, eða sem svarar um 10 kg á hvern
þingfararkaupskyldan bónda á miðöldum.54 Hér er auðvitað um gróf viðmið
að ræða sem taka ber með fyrirvara, en þetta gefur nokkra hugmynd um
hvort framleiðsla líkt og sú sem stunduð var í Skógum kann að hafa verið
til sjálfsþurftar eða hvort um umfram framleiðslu hafi verið að ræða.
Á fyrra tímabilinu áður en eiginlegt býli virðist hafa byggst upp í
Skógum er áætlað að á bilinu 1,8-6,75 tonn af járni hafi verið framleidd
eða 15,8-71,8 kg á ári. Samsvarandi tölur fyrir seinna tímabilið eru 0,6-
2,25 tonn eða 7,6-107 kg á ári miðað við þessar forsendur.
Hvort járnvinnslan á seinna tímabilinu hefur eingöngu verið til
heimilisnota er óvíst en ekki óhugsandi. Á fyrra tímabilinu eru lægstu
tölur um áætlað framleiðslumagn hins vegar talsvert umfram það sem ætla
má einu venjulegu býli og það vekur upp spurningar hvort um framleiðslu
á vegum f leiri bæja eða jafnvel að um söluvöru hafi verið að ræða.
52 Jouttijärvi, munnleg heimild 5.9.2015.
53 Espelund 2004b, bls. 31.
54 Gunnar Karlsson 2009, bls. 209.