Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Page 105
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS104
Örnefni þar sem mannanöfn eru höfð ótengd geta verið til komin og
útskýrð með margvíslegu móti. Sérstakan f lokk skipa nöfn á haugum,
fjöllum eða fjallstindum þar sem fornmenn áttu að hafa verið heygðir eða
þeir ‘horfið’, ‘gengið’ eða ‘dáið’ í staðina sem svo var kallað. Þetta voru
bústaðir samnefndra manna í framhaldslífinu. Eins konar persónugervingar
koma og fyrir í ýmsum nöfnum á dröngum, vörðum og skerjum, einkum
þeim sem mannsmót þykir á líkt og í drangsheitinu Grímur við Grímsá á
Völlum. Sagnir herma að samnefndan tröllkarl hafi dagað uppi þar sem
drangaröð stendur nú við Tunghagaklif í gili Grímsár, en auk Gríms standa
þar kona hans Bera og synir þeirra tíu í drangslíki.8 Varðan Finna í nágrenni
Skriðuklausturs gat ef laust tekið á sig persónulega mynd í hugum manna
og sama gildir um Goðfinnu og Guðfinnu í Akrafjalli þótt kvennafnið
Guðfinna sé að vísu ekki kunnugt sem vættanafn.9
Einkennilegt má heita að tveir steindrangar sinn hvorum megin í sama
fjalli beri kvennafnið Guðfinna/*Goðfinna. Fljótt á litið liggur beint við
að ætla að fyrrgreind strýta eða ‘þúfa’ í landi Óss heiti eftir konu sem bar
nafnið Guðfinna og sú spurning kann að vakna hvort Goðfinna í Akrafjalli
sunnanverðu beri nafn sömu konu hvenær svo sem hún á að hafa verið uppi
og hennar fyrst verið minnst í þessum örnefnum. Einnig má spyrja hvort
annað örnefnið kunni að vera fyrirmynd hins eða sambandi þeirra sé á
annan hátt varið. Frá nafnfræðilegu sjónarmiði er allt að einu forvitnilegt
að nöfnin eru í báðum tilfellum höfð um stakar klettastrýtur – oddlaga eða
uppmjóa drangsteina – og í ljósi þess hve staðhættir eru um margt svipaðir
kunna að kvikna efasemdir um að kvennafnið Guðfinna eða *Goðfinna liggi
að baki þessum nafngiftum.
Við leit að frekari Guðfinnu- eða Goðfinnu-örnefnum á Íslandi hafa ekki
fundist önnur dæmi um nafnmyndina Goðfinna. Ekki verður heldur séð að
nafnið Guðfinna komi fyrir ósamsett í örnefnum annars staðar á landinu, en
alls hafa sjö önnur Guðfinnu-örnefni komið í leitirnar:
Í landi Kringlu í Torfalækjarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu er
Guðfinnuhóll skammt frá þjóðveginum. Skýringarsögn í örnefnaskrá
bæjarins segir að kona sem hét Guðfinna hafi orðið úti við hólinn.10
Stór strýtulöguð þúfa er efst á Guðfinnuhóli. Guðfinnufoss er í Langá í
Fífustaðadal við Arnarfjörð, en dalurinn er nú í eyði. Á brún fossins blasir
við stakur og sérkennilegur drangsteinn sem er á annan metra á hæð, en
8 Árni Björnsson 1990, bls. 50.
9 Um Finnu og nokkur önnur vörðuheiti á Íslandi sjá Helga Þorláksson 1978, bls. 155-156.
10 Örnefnaskrá Kringlu, Torfalækjarhreppi, Austur-Húnavatnssýslu.