Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Page 123
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS122
voru sveitarfélög í landinu hátt á þriðja hundrað, sem þýddi að í hverjum
hrepp voru að jafnaði aðeins 2-4 staðir friðaðir. Það var hins vegar ljóst
að á landinu öllu væru þúsundir fornleifa sem enginn vissi neitt um og
enginn fengi nokkurn tíma að vita af, ef ekki yrði eitthvað gert til að af la
upplýsinga um þær.
Augljóst var að Þjóðminjasafnið var engan veginn í stakk búið til að
mæta þessum óskum skipulagsaðila og mér þótti mjög varhugavert að svara
fyrirspurnum þeirra þannig að engar fornleifar væru þekktar á viðkomandi
svæði, og gefa þannig nánast grænt ljós á allar framkvæmdir. Þá blasti við
sú hætta að fjöldi minja yrði eyðileggingu að bráð. Ég taldi að forsenda
þess að minjavarslan gæti veitt umsögn sem byggðist á faglegu mati væri,
að hún hefði nauðsynlegar upplýsingar um fjölda, aldur, gerð og ástand
minja á hverju svæði. Það hlyti því að vera algert forgangsverkefni að hefja
skipulega skráningu minja um allt land til þess að svara þessu kalli tímans.
Í námi mínu í Svíþjóð hafði ég aðeins kynnst fornleifaskráningu þar í
landi og vakti máls á því við Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörð, að
nauðsynlegt væri að hefja skipulega minjaskráningu hér á landi. Honum
þótti þetta heldur glannaleg hugmynd og taldi að hún væri óframkvæmanleg
vegna gríðarlegs umfangs og kostnaðar. Hann gaf þó góðfúslega leyfi sitt til
að setja af stað tilraunaverkefni, sem fæli í sér skipulega skráningu minja á
einu tilteknu svæði, og sjá til hvernig það gengi.
Undirbúningur
Í kjölfarið hóf ég undirbúning skráningarverkefnisins. Eftir að hafa kynnt
mér betur skráningaraðferðir í Danmörku og Noregi fannst mér Svíþjóð
vera með best útfærðu aðferðina, sem byggði á mjög langri reynslu og
auðvelt væri að yfirfæra á íslenskar aðstæður. Ég hitti m.a. forsvarsmenn
fornleifaskráningar þar í landi og fékk hjá þeim leiðbeiningar og heimild
til að nýta okkur reynslu þeirra og skráningarkerfi.
Mosfellsbær, eða Mosfellshreppur eins og hann hét þá, varð fyrir valinu
sem tilraunasvæði fyrir þessa fyrstu skipulegu fornleifaskráningu á Íslandi,
ekki síst vegna nálægðar við Reykjavík. Önnur ástæða var sú að þar var
bæði að finna dreifbýli og þéttbýli sem gæti gefið vísbendingu um hvort
sama skráningaraðferð gæti nýst við mismunandi aðstæður. Sveitarfélagið
var líka í mjög örum vexti og því við búið að margar minjar gætu verið í
hættu vegna framkvæmda.
Keypt voru málbönd, áttavitar og axlartöskur til að hafa skráningar-