Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Síða 155
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS154
Phønix annað af tveimur skipsflökum við Ísland sem er á friðlýsingarskrá. Hitt
flakið er af rannsóknarskipinu Pourqoui Pas sem fórst við Mýrar árið 1936.1
Á árunum 2011-2013 stóð Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum
fyrir fornleifarannsókn á f lakinu. Meginmarkmið rannsóknarinnar voru;
að þróa og prófa fornleifafræðilega aðferðafræði neðansjávar sem hentar
íslenskum aðstæðum, auka þekkingu og skilning á varðveislu minjastaða
neðansjávar svo og að leggja grunninn að frekari rannsókn og varðveislu
póstskipsins Phønix.
Sögulegt yfirlit
Norður-Atlantshafið hefur um aldir verið mikilvæg verslunarleið fyrir ýmsar
Evrópuþjóðir. Á 13. öld jókst mikilvægi verslunar við Norður-Atlantshafs-
þjóðir vegna aukinnar eftirspurnar eftir skreið í Evrópu.2 Þar sem verslun ein
og sér gat ekki annað eftirspurn eftir skreið hófu flotar Evrópuþjóða einnig
fiskveiðar við Íslandsstrendur á síðari hluta 14. aldar.3 Á síðmiðöldum voru
Þjóðverjar og Englendingar ráðandi í verslun á Norður-Atlantshafinu4 en við
upphaf 17. aldar setti Danakonungur verslunareinokun sem bannaði verslun
við Ísland, Færeyjar og Noreg án leyfis konungs. Frá þessum tíma og þangað
til Ísland öðlaðist sjálfstæði var verslun stjórnað af dönsku krúnunni.5
Það er ekki vitað hve mörg verslunarskip lögðu leið sína til Íslands á
miðöldum en um miðja 13. öld lofuðu yfirvöld að senda að minnsta kosti sex
verslunarskip til landsins ár hvert.6 Ritaðar heimildir benda þó til að fjöldi
erlendra verslunarskipa á tímabilinu 1400 – 1650, og þá sérstaklega enskra,
þýskra og hollenskra, hafi verið talsvert meiri en þeirra skipa sem yfirvöld
lofuðu að senda til landsins.7 Eftir að verslunareinokun hafði verið komið
á má segja að verslunarskip önnur en dönsk hafi nær alveg horfið og um
1750 hafði opinberum verslunarskipum fækkað í tvö skip árlega.8 Ritaðar
heimildir og fornleifarannsóknir benda þó til að að ólögleg verslun hafi staðið
með blóma langt fram á 18. öld.9
1 Kahn 2006, bls. 164.
2 Björn Þorsteinsson 1970, bls. 23-30.
3 Heath 1968, bls. 53-60; Björn Þorsteinsson 1979, bls. 26-35; Jones 2000, bls. 105-110; Ragnar
Edvardsson 2010, bls. 111-112.
4 Baasch 1889, bls. 107-120.
5 Jón Aðils 1971, bls. 3-60; Gísli Gunnarsson 1983, bls. 73-85; Sigfús H. Andrésson 1988, bls. 47-65.
6 Diplomatarium Islandicum/Íslenskt fornbréfasafn I, bls. 625-646.
7 Annales Islandici Posteriorum Saeculorum/Íslenskir Annálar 1400-1800 I, bls. 22.
8 Sigfús H. Andrésson 1988, bls. 20-40.
9 Alþingisbækur Íslands VI.1, bls. 21; Ragnar Edvardsson og Magnús Rafnsson 2011, bls. 146.