Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Side 156
155PÓSTSKIPIÐ PHØNIX
Á síðari hluta 18. aldar hófust reglulegar skipaferðir milli Íslands og
Danmerkur með svokölluðum póstskipum. Í upphafi voru farnar tvær
ferðir árlega en á seinni hluta 19. aldar hafði þeim fjölgað í sex ferðir á
ári. Fyrsta gufuskipið til að sigla þessa leið var Arcturus sem hleypt var af
stokkunum árið 1858 og nokkrum árum síðar, eða 1861, hóf gufuskipið
Phønix að sigla milli Danmerkur og Íslands. Gufuskipið Laura fylgdi í
kjölfarið árið 1882 og á tímabilinu 1882-1900 sigldi fjöldi gufuskipa milli
Íslands, Færeyja, Bretlands og Danmerkur.10
Gufuskipið Phønix var smíðað í skipasmíðastöð J. Henderson & Sons
í borginni Renfrew við ána Clyde í Skotlandi.11 Skipið var skráð sem
barkskip með járnskrúfu, 628 tonn, 199,2 feta (60 m) langt og 25,4 feta (7,3
m) breitt. Smíði skipsins hófst í janúar 1861 og var því hleypt af stokkunum
í september sama ár. Að smíði lokinni var það afhent danska skipafélaginu;
A/S Det almindelige danske Dampskibs-selskap. Frá 1861-1867 sigldi
Phønix milli Danmerkur, Bretlands og Íslands en árið 1867 var það tekið
yfir af skipafélaginu Det forenede Dampskibs-selskap og á tímabilinu 1867
til 1878 sigldi það á milli Danmerkur, Bretlands, Færeyja og Íslands. Árið
1878 var skipið tekið úr þjónustu og endursmíðað í Kaupmannahöfn, þar
sem það var lengt í 201.1 fet (62 m) sem jók þyngd skipsins í 721 tonn, og
að auki var ný vél og gufuketill settur í skipið. Síðar sama ár hóf Phønix
aftur að sigla milli Kaupmannahafnar og Reykjavíkur og hélt því áfram
fram í ársbyrjun 1881.12
Í janúar árið 1881 lagði Phønix af stað í miðvetrarsiglingu sína til
Íslands með póst, kol og almennan varning fyrir kaupmenn í Reykjavík.
Skipið sigldi venjulega með farþega en í þessari ferð voru engir um borð,
aðeins 24 áhafnarmeðlimir. Ferðin var tíðindalaus þangað til skipið kom
undir Íslandsstrendur en síðla dags 30. janúar árið 1881, þegar skipið var að
sigla fyrir Reykjanesskaga, sigldi það inn í mikinn vetrarstorm. Í fyrstu var
stormurinn vestanstæður en snérist síðan og blés úr norðri. Í kjölfarið féll
hitastigið niður í -18°C, sem olli því að ísing tók að myndast á yfirbyggingu
skipsins og jók hættuna á að því hvolfdi. Næstu klukkustundirnar barðist
áhöfn skipsins við ísinn og storminn en eftir að skipinu hafði tvisvar
sinnum nærri hvolft, ákvað skipstjórinn að höggva niður stórsigluna og
sigla sem skjótast til lands. Skipstjórinn hélt skipinu upp í storminn og
skipaði áhöfninni að halda áfram að höggva ís af yfirbyggingunni. Um
10 Heimir Þorleifsson 2004, bls. 153-204.
11 Ritchie 1992, bls. 111.
12 Loyd´s Registry of Shipping 1861; Thorsøe et al. 1991, bls. 131.