Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Page 202
201RITDÓMUR: AF JÖRÐU
sögulegra heimilda um þau sem safnað hefur verið á löngum tíma, svo sem
úttektir, uppmælingar og f leira. Vera má að sumt af þessu efni sé nýtt, en
ekki er vísað til þeirra frekar en frumgagna fornleifafræðinga. Elstu húsin
hafa verið í umsjá Þjóðminjasafns síðan á fyrri hluta 20. aldar. Ýmislegt
áhugavert er dregið fram í tengslum við umfjöllun um sum húsin, t.d. um
upphitun og hvernig menn „settu skepnur í auð rúm að vetrarlagi“ (bls.
70). Eldri og yngri myndir styrkja mjög frásögnina af einstökum húsum,
og ekki síður uppmælingateikningar frá ýmsum tímum. Áhugavert er að
rýna í þessar teikningar með hliðsjón af teikningum fornleifafræðinga fyrir
torfhús fyrri alda.
Tengt er við þróunarsögu torfbæjarins í umfjöllun um sum húsanna
og vangaveltur eru settar fram um möguleg tengsl við nágrannalöndin.
Einnig er vikið að því efni í lokahluta bókarinnar. Fjallað er um notkun
torfs til húsbygginga í nágrannalöndum Íslands við Norður-Atlantshaf;
Noreg, Skotland, Færeyjar og Grænland og húsagerðirnar bornar saman
(bls. 272-286). Á það er bent að hvergi í þessum löndum hafi torf verið
eins almennt notað til húsagerðar og í eins langan samfelldan tíma og á
Íslandi. Torfhús hafi horfið fyrir mörgum öldum á sumum stöðum og
steinhleðslur og timburbyggingar komið í staðinn. Stundum hafi torfhús
einnig aðallega verið nýtt af ákveðnum hópi eða stéttum fólks. Tilgáta er
sett fram um samísk áhrif á íslenska húsagerð og bent á þann möguleika
að um gagnkvæm áhrif gæti hafa verið að ræða, þar sem Norðmenn og
Samar bjuggu saman á stærra svæði Noregs á fyrri öldum en síðar varð og
ákveðin líkindi megi sjá í ákveðnum húsategundum (bls. 278-280). Má
segja að höfundur velti upp mörgum steinum í tengslum við samanburð
torfhúsabygginga á Íslandi við nágrannalönd, frekar en veita svör við öllum
þeim tilgátum sem vakið er máls á. Þetta er efni sem tilefni væri til að
rannsaka meira.
Þjóðarvitund Íslendinga er skýrt tengd við torfbæinn. Á einhvern hátt
má segja að tenging torfbæjarins við þjóðarvitundina sé í senn nálgun
höfundar í skrifunum og niðurstaða hans eftir áratugastarf við viðhald
torfbæja. Sérstakur kaf li tekur á þessu efni, auk þess sem víða er vísað
til þeirrar merkingar sem torfbærinn hefur haft í hugum Íslendinga og
birtist með ýmsu móti í samtímanum. Þessi sýn er nátengd því markmiði
höfundar að vekja athygli á mikilvægi varðveislu torfbæjarins, mikilvægi
þess að handverksþekkingin glatist ekki og mikilvægi þess að torfbærinn
verði arkitektum innblástur í hönnun nútímabygginga sem nýti sér lífræna
eiginleika torfbæjarins og aðlögun að landslagi. Hjörleifur vekur athygli á