Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Qupperneq 9
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS8
Gengið á reka
Mörgum mun vera kunnugt um bók Kristjáns Eldjárn frá því um miðja
síðustu öld sem ber titilinn Gengið á reka: Tólf fornleifaþættir.2 Varla er hægt
að halda öðru fram en að titill greinarinnar sé fenginn að láni frá Kristjáni,
eða beri í það minnsta vísun til hans. Kristján fjallar raunar hvorki um reka
né rekafjörur í bókinni og lætur lesendum eftir að kryfja það hvers vegna
titillinn var valinn. Ekki er úr vegi að ætla að það sé vegna þess hvernig
Kristján byggir bókina úr stökum þáttum, sem ber að úr ólíkum áttum
og eiga í raun fátt sameiginlegt. Hann er hvorki upptekinn af ákveðnu
tímabili, ákveðinni tegund gripa eða staða, sérstökum landfræðilegum
þáttum eða öðru – en þannig er hlutum einmitt háttað á rekafjörum. Hann
veður fremur úr einu í annað (í jákvæðum skilningi), eða gengur á rekann,
og fjallar um það sem á vegi hans verður.
Þetta er raunar ekki eina dæmið um að skírskotað sé til myndmáls
rekafjörunnar í fornleifafræðilegu samhengi. Sænski fornleifafræðingurinn
Carl-Axel Moberg gerir hið sama í bók sinni Introduktion till arkeologi
frá 1969, þar sem segir að starf fornleifafræðingsins sé líkt og að standa
á fastlandi núsins við strönd hins liðna, og vinna úr sjóreknum brotum,
ölduróti og vindum, fróðleik um það sem gerst hefur á hafi úti: “Att stå på
nuets fasta land vid stranden av det förgångnas hav för att ur ilandf lutna
spillror, vetskap om hur vågor ser ut och hur vind känns söka ta reda på
vad som hänt ute till sjöss...”.3 Það er mikið til í þessu. Fjaran, og ekki
síst rekafjaran, fangar vel hvernig fortíðin birtist okkur oft á tíðum. Þótt
markmið okkar kunni að vera að greina hluti til aldurs og gerðar, uppruna
og hlutverks, er tilvera þeirra óreiðufull og margræð. Líkt og gerist um
annað vogrek rekur þá óf lokkaða á fjörur okkar, þeim ægir saman og oftar
en ekki er margt óljóst um uppruna þeirra og ferðalög. Vissulega bera þeir
með sér vísbendingar um þessa þætti og aðra, en sé það jafnfamt tekið
alvarlega hvernig þeir sniðganga f lokkanir okkar og greiningar má ef til
vill líka vinna annars konar – jafnvel annarlegan (e. uncanny) – fróðleik úr
sjóreknum brotum.
Hér kemur raunar að tengingunni við mannöldina. Segja má að volk
og ferðalög hluta í hafi, utan lögsögu okkar manna, og landnám þeirra á
sífellt nýjum ströndum myndgeri í grófum dráttum það ástand sem alið
hefur af sér hugtakið mannöld. Þrátt fyrir hina mannmiðuðu nafngift, og
eins og fjallað verður nánar um síðar, vísar hugmyndin að baki þessari nýju
2 Kristján Eldjárn 1948.
3 Moberg 1969, bls. 166.