Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Side 39
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS38
í Árbók fornleifafélags 1897. Það var grafið upp á Skriðuklaustri í Fljótsdal
og kallað kjallaragröf í Árbókinni. Hún var lík íslenskum jarðhýsum að
f latarmáli, um 10 x 11 fet (3 x 3,4 m). En hún var hlaðin úr grjóti og „límd
með mósteypu [sem Þór skýrir sem smiðjumó; blöndu úr leir og kalki] og
sljettuð innan með henni“, hálffull af gulhvítu, blautu, seigu og límkenndu
efni sem var giskað á að væri skyr. Þar voru líka fimm rauðaviðardrumbar,
ekki svo fúnir að orð væri haft á því.4 Mér finnst líklegra að þetta sé
eitthvað miklu yngra en Hvítárholtsjarðhýsin; þau voru ekki með hlöðnum
veggjum, og ekki veit ég til að hleðslusteinar hafi nokkurn tímann verið
límdir saman á Íslandi á víkingaöld eða miðöldum. Hins vegar finnst mér
sennilegt að það sé rétt hjá Þór að fornt jarðhýsi hafi fundist í Gjáskógum í
Þjórsárdal, þar sem var grafið á árunum 1949-60, án þess að því væri gefið
tegundarheiti.5
Jarðhýsin í Hvítárholti höfðu verið grafin 60-90 cm niður fyrir yfirborð
jarðar, eins og það var á byggingartíma, þar sem hægt var að mæla það.
Húsin voru svipuð að stærð og lögun, frá rúmlega sjö og upp í tæplega ellefu
fermetrar að gólff leti. Engir veggir sáust, heldur virtust húsin einfaldlega
hafa verið grafin ofan í jörðina og þakið reist á börmunum, að minnsta
kosti á dýpsta húsinu. – Jafnvel þótt þau kunni að hafa verið með bröttu
þaki hafa þau varla eða ekki verið manngeng. En það vandamál ræðir Þór
ekki. – Engin merki sáust um innganga, sem bendir til að gengið hafi verið
í húsin ofan frá um stiga. Í f lestum eða öllum húsanna hafa verið stoðir til
að halda uppi þaki. Í öllum hafði verið eldstæði í einu horninu, að minnsta
kosti í sumum það sem fornleifafræðingar kalla ofna, eldstæði lokað með
steinhellu að ofan.6
Þór Magnússon taldi að jarðhýsin í Hvítárholti hefðu verið notuð
sem baðhús. Þar studdist hann meðal annars við frásögn Eyrbyggja sögu
af tveimur berserkjum, Halla og Leikni. Annar þeirra, Halli, lagði hug
á Ásdísi, dóttur Styrs Þorgrímssonar. Að ráði Snorra goða ginnti Styr
berserkina til að vinna til konunnar með því að ryðja braut yfir úfið hraun.
„En meðan þeir váru at þessu verki, lét Styrr gera baðstofu heima undir
Hrauni ok var grafin í jǫrð niðr, ok var gluggr yfir ofninum, svá at útan
mátti á gefa, ok var þat hús ákaf liga heitt.“7
4 Jón Jónsson 1897, bls. 22-24.
5 Þór Magnússon 1973, bls. 59; Kristján Eldjárn 1961, bls. 8, 39-41.
6 Mikilvægustu einkenni húsanna eru birt í töflu 1 á bls. 62-63. Tilvísanir til heimilda, meðal annars um
vitneskju sem kemur ekki alltaf fram í töflunni, má finna eftir tilvísun í aftasta dálki hennar, að vísu
ekki nákvæmlega á þeim blaðsíðum sem vísað er á í töflunni, en einhvers staðar nálægt í sama riti.
7 Eyrbyggja saga 1935, bls. 72-73 (28. kap.).