Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Page 62
61UM JARÐHÝSI, DYNGJUR OG BAÐSTOFUR
gróf upp í Hvítárholti er ljóst „að höfundur hefur þekkt til þessara húsa og
kunnað glögg skil á þeim …“88 Frásögnin sýnir að til voru á 13. öld menn
sem kunnu að reisa jarðhýsi sem hýstu gufuböð og vissu að slík hús voru
kölluð baðstofur.
Hin röksemd mín fyrir því að jarðhýsin hafi verið baðstofur er sá
undarlegi siður Íslendinga á síðari öldum að kalla helsta íveru- og svefnhús
sitt baðstofu, herbergi þar sem varla var hægt að baða sig á nokkurn hátt.
Erfitt er að ímynda sér að þetta hús hafi getað hlotið nafnið baðstofa nema
að hús með því nafni hafi verið til á mörgum bæjum. Fram að þessu mun
almennt hafa verið haldið að baðstofan hafi breyst úr baðhúsi í íveruhús
á síðmiðöldum, líklega einkum 15. öld.89 Ekki skal það véfengt heldur
stungið upp á að breytingin hafi átt sér lengri rót en áður hefur verið talið.
Niðurstaða mín er sú að algengast hafi verið á Íslandi að jarðhýsi væru
byggð sem baðhús og nefnd baðstofur. Síðan, og kannski nokkurn veginn
samtímis, hefur sá siður komist á að konur nýttu sér hlýjuna í baðstofunum
til þess að spinna ull og vefa klæði þegar þær voru ekki óþægilega fullar
af gufu. Það merkir að jarðhýsin voru ekki eins eindregin kvennasvæði og
Karen Milek telur. Þau voru svæði sem fólk af báðum kynjum skipti með
sér.
______________________
Taf la 1. Jarðhýsi á Íslandi. Nokkur mikilvæg einkenni
Á opnunni hér á eftir má sjá töf lu 1. Heimildir eru tilfærðar í aftasta dálki töf lunnar.
Þegar gefin eru upp tvö eða þrjú ólík stærðarmál á sama húsinu stafar það ýmist
af því að húsunum hefur verið breytt, að áfangaskýrslum um uppgrefti ber ekki
nákvæmlega saman frá einu ári til annars eða vafi er um stærðir. Flatarmál er alltaf
gefið upp í heilum fermetrum til að komast hjá því að gefa í skyn að málin séu
nákvæmari en þau eru. En þau eru óhjákvæmilega ónákvæm vegna þess að veggir
eru bognir og skakkir og horn húsanna afslepp.
88 Þór Magnússon 1973, bls. 59.
89 Arnheiður Sigurðardóttir 1966, bls. 69-79; Hörður Ágústsson 1987, bls. 330-331; Hörður Ágústsson
1989, bls. 282-284.