Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Page 74
73BRAUTRYÐJENDUR Í LJÓSMYNDUN VIÐ FORNLEIFARANNSÓKNIR
Suðurlandi. Tilvist þeirra féll að hugmyndum Einars um búsetu á Íslandi fyrir
landnám og einkum gaf veggjakrot í hellunum byr undir þær kenningar4,
en Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi hafði sett þá tilgátu fram áður að
elstu hellarnir gætu verið frá tímum papa.5 Einar gaf út bókina Thules
beboere árið 1918 þar sem hann setti fram hugmyndir sínar um þessi efni. Í
aðdraganda bókarskrifanna fór Einar með f leirum í rannsóknarleiðangur
austur í Rangárvallasýslu árið 1915. Meðal leiðangursmanna var Ólafur
Magnússon ljósmyndari sem Einar hafði ráðið til að ljósmynda í ferðinni.
Ljósmyndir hafa verið teknar í hellum á tveimur bæjum. Annars vegar að
Ási í Ásahreppi en þar hefur verið myndað í tveimur hellum, sem nú eru
báðir horfnir vegna framkvæmda þrátt fyrir að vera friðlýstir, og hins vegar
í helli á Ægissíðu.6 Myndefnið er auk sjálfs ferðalagsins yfirlitsmyndir inni
í hellunum og nærmyndir af því veggjakroti, sem studdi kenningasmíð
Einars.
Matthías Þórðarson fornminjavörður vann að margþættum verkefnum
í minjavörslu eftir að hann tók til starfa við Forngripasafnið árið 1907.
Hann ferðaðist víða um land eftir að hann tók við embætti og vann að
friðlýsingum fornminja og yfirgripsmikilli skráningu á kirkjugripum í
kirkjum landsins. Allt frá árinu 1909 hefur Matthías notað myndavél til
skráningar á ferðum sínum. Hann hefur þó verið fremur sparsamur á filmur
eins og sést best á því hvernig hann stillir upp kirkjugripum á altari til að
ná myndum af sem f lestum gripum á eina og sömu myndina. Elstu myndir
frá fornleifauppgreftri í filmusafni Matthíasar eru frá rannsókn á haugi
austan við Öxará á Þingvöllum. Tvær myndir eru af haugnum áður en
ráðist var í að grafa en hinar myndirnar sýna fremur menn við mokstur en
þær rústir sem grafnar voru fram. Árið 1924 stóð Matthías fyrir rannsókn
í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum og eru nokkrar ljósmyndir varðveittar
frá þeirri rannsókn. Eitthvað hefur Matthías verið óánægður með eigin
myndatökur því að þegar kemur að rannsóknum hans á Bergþórshvoli árið
1927 fær hann Magnús Ólafsson ljósmyndara í Reykjavík til að koma í
sérstaka myndatökuferð til að mynda á vettvangi. Þær myndir voru allar
teknar á stórar ljósmyndaplötur. Matthías birti aldrei sjálfur yfirlitsgrein
4 Einar Benediktsson 1918. Einar gerði einnig gein fyrir kenningum sínum um búsetu fyrir landnám í
greinum eins og „Foraldir Íslandssögu“ í jólablaði Lesbókar Morgunblaðsins árið 1929. Um rannsóknir
Einars og myndamál þeim tengd, bæði svartkrítarteikningar Jóhannesar Kjarval frá 1919 og einnig
ljósmyndasyrpu Ólafs Magnússonar, hefur verið fjallað í bók og greinum. Sjá: Árni Hjartarson,
Guðmundur J. Guðmundsson og Hallgerður Gísladóttir 1991; Árni Hjartarson og Hallgerður
Gísladóttir 1985; Árni Hjartarson og Hallgerður Gísladóttir 1993.
5 Brynjúlfur Jónsson 1902, bls. 29.
6 Árni Hjartarson og Hallgerður Gísladóttir 1993, bls. 135-144.