Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Síða 97
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS96
dag er sjálf teikningin, þ.e. uppdrættir af túnunum sem sýna tún, bæi og
útihús. Túnakortin eru einstæð heimild þar sem þau eru e.k. svipmynd af
mikilvægum hluta íslensks menningarlandslags í upphafi 20. aldar.
Fljótlega eftir að túnakortagerðinni lauk virðast kortin hafa fallið í
gleymsku og lágu þau að stóru leyti ónýtt í skjalageymslu Þjóðskjalasafns
Íslands allt fram á síðustu áratugi. Kortin voru því í raun gleymd
heimild þegar fornleifafræðingar rákust á þau í leit að vísbendingum um
fornleifar í heimatúnum undir lok 20. aldar.2 Þeir hófu skipulega notkun
á þeim við skráningu fornleifa, enda túnakortin veigamesta heimildin um
menningarlandslag og minjar í túnum á Íslandi fyrir vélaöld.3 Til að koma
til móts við stækkandi notendahóp og bæta aðgengi að túnakortunum voru
kortin nýlega ljósmynduð og gerð aðgengileg á vef Þjóðskjalasafnsins og á
evrópsku gagnaveitunni Archives Portal Europe.4 Árið 2016 hlutu túnakortin
svo talsverða upphefð en þá voru þau valin á landsskrá Íslands um Minni
heimsins (Memory of the World Register) sem tekin er saman af UNESCO.
Ástæða þess að kortin rötuðu á listann var sú að þau voru talin einstæð
heimild um búsetulandslag, staðfræði og skipulagsmál hér á Íslandi í
upphafi 20. aldar.5
En hvað vitum við um þessa umfangsmiklu og metnaðarfullu kortagerð
og hversu áreiðanleg kortin eru sem heimildir um staðsetningu fornleifa?
Grein þessi byggir á rannsókn höfundar á þessu efni. Markmiðið var að varpa
ljósi á mælingar á túnum á Íslandi á árunum 1916-1925, skoða aðdraganda
kortagerðarinnar, forsendur hennar og þær aðferðir sem notaðar voru við
verkið, kanna menntun og bakgrunn mælingamanna, fjölbreytileika og
samræmi kortagagnanna og hvernig þau nýttust til þess hlutverks sem þeim
var í upphafi ætlað. Flest túnakortin sýna sömu grunnupplýsingar: útlínur
túna og staðsetningu bæja, útihúsa, kálgarða og gatna auk þess sem skráðar
2 Orri Vésteinsson 16.11.2016, munnleg heimild. Þess má geta að allar mannvistarleifar eldri en
hundrað ára teljast til fornleifa lögum samkvæmt.
3 Mjög grófa hugmynd má fá um stærð og legu túna af herforingjaráðskortunum frá 1900-1940, en
þau voru teiknuð í mælikvarðanum 1:50.000 og er því ekki líku saman að jafna um nákvæmni og
á lengra tímabili sem nær inn í vélaöld. Danskar bæjateikningar sem eru frá 1902-1920 eru einnig
góð heimild (í kvarðanum 1:10.000) en ná aðeins yfir lítinn hluta íslenskra túna (mest jarðir á
Suðurlandi). (Danskar bæjateikningar. Vefur Landmælinga Íslands. http://www.lmi.is/landupplysingar/
soguleggogn/). Einnig er rétt að geta þess að til er fasteignamat fyrir flesta bæi landsins og gefur það
víða mjög greinargóða hugmynd um stærðir og tegundir þeirra húsa sem stóðu í heimatúnum í
upphafi 20. aldar. Engar upplýsingar fást þó úr matinu um staðsetningu þeirra.
4 Kortin má bæði finna á vefslóðinni: http://manntal.is/myndir/Tunakort/ og www.archivesportal-
europe.net en á síðarnefndu síðunni er hægt að leita að túnakortum einstakra bæja.
5 Sjá „Minni heimsins“. Sótt 14.11.2017. Frétt um kortin á heimasíðu íslensku UNESCO
nefndarinnar: Landsskrá Íslands „Nýskráningar á landsskrá Íslands um Minni heimsins“. Sótt
14.11.2017.