Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Page 98
97SVIPMYND AF MENNINGARLANDSLAGI – ÍSLENSK TÚNAKORT
eru á þau upplýsingar um stærð túna og garða og hversu stórt hlutfall hvers
túns taldist sléttað. Þrátt fyrir þetta eru kortin mjög misjöfn að gerð. Sum
þeirra eru nánast eins og listaverk, nákvæm og ítarleg og máluð í litum,
en önnur eru grófgerð og einföld, næstum eins og riss, þótt öll byggi þau
á mælingum. Túnakortin voru gerð af heimamönnum í hverju héraði
og endurspeglar fjölbreytileiki kortanna misjafna þekkingu, metnað,
handbragð og nákvæmni einstakra kortagerðarmanna. En fjölbreytileikinn
veldur því einnig að heimildagildi kortanna er mismikið, nokkuð sem fram
að þessu hefur ekkert verið kannað. Í ljósi sívaxandi notkunar kortanna
þótti sýnt að rannsókn á kortunum gæti orðið bæði fróðleg og gagnleg.
Við rannsóknina voru öll tiltæk gögn um túnakortagerðina könnuð. Í
fyrsta lagi voru skoðuð túnakort úr öllum þeim 204 hreppum sem túnakort
eru til úr og mat lagt á það hvaða upplýsingar komu þar fram, á nákvæmni
o.s.frv. Í öðru lagi voru mælingabækur mælingamanna (sem unnu við
túnakortagerðina) varðveittar úr 75 hreppum og voru þær rannsakaðar til
að kanna hvaða aðferðum mælingamenn beittu, hvort mælingaaðferðir
væru alls staðar þær sömu og hvort einstakir mælingamenn hafi fylgt
fyrirmælum um aðferðir. Að auki hefur varðveist talsvert af skjölum
varðandi kortagerðina og voru þau skoðuð og leitað eftir upplýsingum um
aðdraganda, framkvæmd og aðferðafræði. Samhliða ofangreindri yfirferð
var safnað upplýsingum um mælingamennina, bakgrunn þeirra, menntun
og reynslu.6
Aðdragandi og undirbúningur kortagerðar
Upphafið
Hugmyndin að því að ráðast í heildstæða kortagerð af túnum íslenskra
bæja virðist fyrst hafa kviknað hjá félögum í Ræktunarfélagi Norðurlands.
Á Búnaðarþingi 1913 lagði félagið fram tillögu þess efnis að Búnaðarfélag
Íslands myndi hvetja til þess að tún og matjurtagarðar hér á landi yrðu
mæld upp til að auka yfirsýn og þekkingu.7 Tillögunni fylgdu hugmyndir
um hvernig mætti standa að slíkum mælingum og skipta kostnaði vegna
þeirra. Úr varð að Búnaðarþingið samþykkti tillögu þar sem lagt var til að
umræddu máli yrði beint til Alþingis og það beðið um að taka málið að
sér og koma því í framkvæmd. Frá upphafi lagði Búnaðarfélagið áherslu á
að mælingarnar yrðu vandaðar og kerfisbundnar en að mikilvægt væri að
6 Niðurstöður rannsóknarinnar komu út í skýrslu í upphafi árs 2017, sjá Elín Ósk Hreiðarsdóttir.2017.
7 Búnaðarrit 1913, bls. 312-313.