Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Page 100
99SVIPMYND AF MENNINGARLANDSLAGI – ÍSLENSK TÚNAKORT
þessa fjárhæð í samhengi má nefna að áætlaðar meðalárstekjur verkamanns
sama ár voru um 700 krónur.9 Það má því gera ráð fyrir að áætlaður
kostnaður við mælingarnar hafi verið svipaður og 74 árslaun verkamanna
á þessum tíma.10 Til samanburðar má nefna að um hundrað árum síðar
(2013) voru meðalárslaun verkafólks ríf lega 5 milljónir og 74 árslaun því
380 milljónir.11 Frá upphafi var því ljóst að allmikill kostnaður hlytist af
verkinu og Búnaðarfélagið gerði ekki ráð fyrir að ráðist yrði í það strax.
Það taldi þó gagnlegt að lagafrumvarp um mælingarnar yrði lagt fram
á komandi þingi en ekki afgreitt, svo að kostnaður vegna þess yrði ekki
óvæntur heldur gætu menn þess í stað rætt málið milli þinga og undirbúið
sig.12 Bréfi Búnaðarfélagsins fylgdu drög að lögum um mælingarnar. Inntak
laganna var að öll tún og matjurtagarðar á landinu (fyrir utan kaupstaði)
skyldu mæld á næstu sex árum frá lagasetningu og samhliða því gerðar
teikningar af túnunum. Þar kom einnig fram að sýslunefndir skyldu hafa
umsjón með framkvæmd mælinganna. Frumvarp til laga um mælingar á
túnum og matjurtagörðum var lagt fram á Alþingi sumarið 1915 og var
samþykkt þann 13. september 1915 með litlum breytingum.13
Að beiðni Stjórnarráðsins samdi Búnaðarfélag Íslands reglugerð með
lagafrumvarpinu í upphafi árs 1916.14 Í henni var kveðið á um margvísleg
praktísk atriði er vörðuðu túnamælingar. Þar kom fram að auk kaupstaða væru
undanskilin mælingu tún sem mæld hefðu verið á ábyggilegan hátt síðustu
5 ár á undan, ef til væri uppdráttur af túnunum eða hægt væri að gera hann
á grundvelli mælinga (1. gr.). Í reglugerðinni er ítrekað hvernig verkstjórn
og umsjón mælinga skuli háttað og þar kemur fram að Stjórnarráðið geti í
samvinnu við sýslunefndir falið búnaðarsamtökum umsjón mælinganna. Þar
er kveðið á um að stærð túna skuli tilgreind í teigum (hekturum) með einum
aukastaf og stærð matjurtagarða skuli koma fram í fermetrum á uppdrættinum.
Einnig kemur fram að kortin skuli vera í mælikvarðanum 1:2000 og skuli
gerð á þann pappír sem Stjórnarráðið muni tilgreina og útvega (gr. 3). Í
9 Hallur Örn Jónsson 2014, bls. 10-12.
10 Til samanburðar mætti einnig nefna að útgjöld ríkisins í fjárlögum fyrir árið 1914-1915 voru
samanlagt um 3,7 milljónir. Norðurland 1913, bls. 102.
11 Sjá fréttatilkynningu frá ASÍ í september 2014: „Forstjórar með tugföld árslaun á við venjulegt
launafólk“.
12 Bréf Búnaðarfélags Íslands til Stjórnarráðs Íslands, dagsett 4. maí 1914, undirritað af Guðmundi
Helgasyni. Fylgiskjal með 100. frumvarpi til laga um mælingar á túnum og matjurtagörðum.
13 52. mál, tún og matjurtagarðar. Lög nr. 58/1915 um mælingar á túnum og matjurtagörðum
14 Bréf Stjórnarráðs Íslands til stjórnar Búnaðarfélags Íslands dagsett 14. desember 1915; „Reglugjörð
um mælingar á túnum og matjurtagörðum samkvæmt lögum númer 58, 3. nóvember 1915“ 1916,
bls. 37-38.