Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Síða 106
105SVIPMYND AF MENNINGARLANDSLAGI – ÍSLENSK TÚNAKORT
Kaup og kjör
Í lögum um túnamælingar kemur fram hvernig ráðgert var að greiða fyrir
túnamælingarnar (greinar 3 og 4).26 Samkvæmt lögunum átti Landssjóður
að greiða fast gjald, þrjár krónur, fyrir tún þeirra jarða sem metnar væru til
dýrleika og skyldi sú greiðsla renna beint til mælingamanns. Annan kostnað
átti að greiða úr hreppssjóði þegar oddviti hefði tilkynnt hreppsnefnd á hvaða
jörðum hefði verið mælt það ár og hver kostnaður við það væri umfram
framlag Landssjóðs. Hreppsnefndin átti svo að deila og jafna kostnaðinum á
milli jarðanna sem mælt var á, að hálfu eftir fjölda býla (sem metin voru til
dýrleika) og að hálfu eftir hundraðatölu býlisins.27
Það var hins vegar í höndum hvers sýslumanns eða sýslunefndar manna
að ákvarða endanlegt kaup mælingamanna. Ýmsar vísbendingar um kjör
þeirra fengust við yfirferð yfir skjalasafn túnamælinganna en þau virðast
hafa verið nokkuð misjöfn eftir sýslum og hreppum. Í f lestum tilfellum
virðist hafa verið samið um kaupið áður en gengið var frá ráðningu en
nokkrar undantekningar finnast þó frá því.28 Misjafnt virðist hvort kaup
mælingamanna hafi verið dagkaup eða kaup fyrir hvert teiknað tún.
Oftast virðist þó hið síðarnefnda hafa verið raunin. Í Norður- og Suður-
Múlasýslu tók Búnaðarsamband Austurlands að sér mælingar fyrir fast
gjald á hvert tún sem var átta krónur auk þeirrar þriggja króna greiðslu
sem var að vænta úr Landssjóði. Í útskrift úr gjörðabók sýslunefndar
Barðastrandarsýslu kemur fram að nefndin hafi samþykkt tilnefningu
mælingamanns sýslunnar og hann hafi samþykkt að taka að sér starfið gegn
fimm krónu kaupi á dag fyrir sjálfan sig og hesta fyrir sig. Fram kemur að
hann áskilji sér rétt til aukaþóknunar ef hann þurfi að greiða fyrir aðstoð
við verkið.29 Í Gullbringu- og Kjósarsýslum varð rekistefna um ráðningu
26 Lög nr. 58/1915 um mælingar á túnum og matjurtagörðum.
27 Þó aldrei meira en 10 kr. á býli vegna hundraðatölu og 20 kr. í allt. Þetta gjald var ábúanda skylt að
greiða og mátti taka það lögtaki. Varðveittar eru heimildir um að vandræði hafi komið upp varðandi
framkvæmdina á nokkrum stöðum. Í Ytri-Akraneshreppi neitaði oddviti hreppsnefndar að greiða
umrætt gjald og krafðist þess að sýslunefndin jafnaði kostnaði niður á býli og innheimti (gegn þóknun)
og hreppssjóðurinn myndi að því loknu greiða þóknun og það sem væri „óinnkrefjanlegt“. Bréf
Kristjáns Linnets sýslumanns Mýra- og Borgarfjarðarsýslna til Stjórnarráðs, dagsett 9. nóvember 1917.
Bréf Búnaðarfélags Íslands til Stjórnarráðs Íslands. Umsögn um erindi í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu,
dagsett 20. desember 1917. (Stjórnarráð svaraði í samræmi við ráðleggingar BÍ.)
28 Í bréfaskiptum milli sýslumanns Rangárvallasýslu og Stjórnarráðs kemur fram að sýslumaður samdi
um kaup og kjör mælingamannsins eftir að Stjórnarráðið tilnefndi hann (eftir tillögu sýslunefndar)
og var niðurstaðan þar að miða fast gjald við hvert býli. Bréf Björgvins Vigfússonar, sýslumanns í
Rangárvallasýslu til Stjórnarráðs Íslands, dagsett 7. júlí 1916.
29 Útskrift af gjörðabók Sýslunefndar Barðastrandarsýslu, ódagsett, undirritað af G. Björnssyni, Snæ birni
Kristjánssyni og Guðjóni Jónssyni, Brynjólfi Björnssyni, Andrési Ólafssyni og Ingim. Magnússyni.