Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Síða 107
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS106
mælingamanns, sem snerist að stóru leyti um þá staðreynd að þar voru
smábýli og þurrabúðir mun f leiri en víða annars staðar og var bæði óvissa
um hvernig skyldi standa að mælingunum en þó sérstaklega um greiðslur
fyrir slík býli.30 Á endanum var ákveðið að miða við jafnaðargjald á býli
sem metin væru til dýrleika og varð úr að greiddar voru 9 kr. að jafnaði
fyrir hvert slíkt býli.31
Algengast virðist að allur kostnaður hafi átt að vera fólginn í kaupinu
þótt dæmi séu um að menn hafi samið sérstaklega um annan kostnað.
Sumir sömdu sérstaklega um ferðakostnað, hest eða annað tengt
mælingunum en aðrir hafa aðeins fengist um slíkt eftir á og þá oftast
orðið lítið framgengt. Kristján Eldjárn Kristjánsson sem m.a. mældi tún í
Grímsey og Hvanneyrarhreppi skrifaði Stjórnarráðinu eftir að mælingum
lauk og spurði hvort það gæti ekki greitt ferðakostnað vegna túnamælinga
í þessum hreppum þar sem ferðalögin hafi verið erfið og dýr. Hann taldi
það ósanngjarnt að sá kostnaður lenti alfarið á ábúendum og eðlilegra að
hið opinbera greiddi. Svo virðist sem Stjórnarráðið hafi ekki talið sig geta
orðið við þeirri beiðni frekar en ýmsum öðrum um aukaframlög vegna
mælinganna.32
Sem fyrr segir var sú krafa gerð að allir mælingamennirnir yrðu sér úti
um, greiddu fyrir og skiluðu mælingabókum. Ekki er vitað hvernig þetta
mæltist fyrir, sér í lagi vegna þess að ekki var send út tilskipun um þetta fyrr
en eftir að mælingar voru hafnar, síðsumars 1916. Bréfaskriftir hafa varð-
veist um að a.m.k. einn mælingamaður hafi gert athugasemd við þetta og
gert tilraun til að fá greitt fyrir bækurnar. Í erindi sínu til Stjórnarráðsins í
janúar 1920 fer Jóhannes Guðmundsson, mælingamaður í Dalasýslu, fram
á að Stjórnarráðið greiði sér 100 kr. fyrir innsendar mælingabækur eða um
50 aura á bók fyrir hvert mælt tún. Jóhannes færir þau rök fyrir máli sínu að
krafan um að bókunum væri skilað inn hafi komið eftir að verkið var hafið
og auk þess bendir hann á að hann hafi tekið sama gjald fyrir mælingarnar
í upphafi og síðasta árið (1919) þrátt fyrir vaxandi dýrtíð og segir hann því
að líta megi á umrædda greiðslu sem „dýrtíðaruppbót“ sem aðrir opinberir
starfsmenn hafi fengið.33 Ekki er vitað hvort honum varð ágengt.
30 Bréf Vigfúsar Guðmundssonar til Magnúsar Jónssonar sýslumanns, dagsett 21. ágúst 1916. Vigfús bauð
8 kr. fyrir hvert býli sem metið væri til dýrleika, 4 kr. fyrir hvert smábýli sem ekki er metið til dýrleika
en gera verður uppdrætti af í tvíriti og 50 aura fyrir þurrabúð hverja með kálgörðum.
31 Bréf Vigfúsar Guðmundssonar til Magnúsar Jónssonar sýslumanns, dagsett 12. október 1916; bréf
sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu til Stjórnarráðs Íslands, dagsett 4. nóvember 1916.
32 Bréf Kristjáns E. Kristjánssonar til Stjórnarráðs Íslands, dagsett 2. janúar 1921.
33 Bréf Jóhannesar Guðmundssonar til Stjórnarráðs Íslands, dagsett 2. janúar 1920.