Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Page 119
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS118
en annars staðar og sumir af mælingamönnunum leggja talsvert upp úr að
skrá upplýsingar um landslag og gróðurfar. Kálgarðar eru í öllum tilfellum
mældir inn og víða eru þrjár mælingar á bæði kálgörðum og bæjarhúsum.
Túnakortin úr Norður-Múlasýslu eru einnig öll vatnslituð og snyrtilega
gerð. Líklega hefur sú ákvörðun að mæla ekki inn hús önnur en bæjarhús
verið tekin af Búnaðarsambandi Austurlands.
Stundum eru skráðar upplýsingar í mælingabækur sem hafa ekki skilað
sér á túnakortin. Í Vorsabæ í Gaulverjabæjarhreppi vantar t.d. öll útihús
inn á endanlegt túnakort (sjá bls. 117) en þau hafa greinilega verið mæld á
vettvangi og frekara misræmi virðist víðar í hreppnum milli þess sem mælt var
og fært inn á túnakortin. Sömu menn mældu Sandvíkur-, Gaulverjabæjar-,
Stokkseyrar-, Ölfus-, Selvogs- og Eyrarbakkahrepp í Árnessýslu og þeir
virðast undantekningalítið hafa skrifað niður upplýsingar um hlutverk
þeirra útihúsa sem mæld voru inn en þær upplýsingar koma sjaldnast fram á
sjálfum túnakortunum.46 Í öðrum hreppum eru slíkar upplýsingar stundum
færðar inn í mælingabækur en ekki á túnakort en víðast er það þó langt
frá því að vera eins kerfisbundið og í hreppunum sex í Árnessýslu. Auk
upplýsinga um tegundir húsa sem stundum leynast í mælingabókum en ekki
á túnakortum er þar að finna ýmsar aðrar fróðlegar upplýsingar sem misjafnt
er hversu vel skila sér á túnakortin. Til dæmis er víða gefið upp hvernig
túnin voru afmörkuð, þ.e. hvort þau voru girt með torfgarði, vírgirðingum
eða mögulega hvoru tveggja, en misjafnt er hvernig slíkar upplýsingar hafa
skilað sér inn á túnakortin. Aðrar upplýsingar sem misjafnt er hversu mikið
var lagt í að skrá eru varðandi gróðurfar og landslag. Sumir mælingamenn
leggja mikið upp úr því að setja inn merkingar fyrir órækt, mela eða mýrar
sem eru í túnum, eða fast utan þeirra, eða teikna skilmerkilega inn ár og
læki, sjávarbakka og annað sem markar af túnin eða eru afgerandi þættir
í landslagi þeirra.47 Aðrir sýna aldrei neinar slíkar merkingar. Af sumum
mælingabókum má sjá að mælingamenn hafa verið duglegir að merkja
slíkt inn þar sem svo bar undir en færa þessar merkingar sjaldnast yfir á
túnakortin. Aðrir geta þess ávallt ef slíkt hefur verið skráð á vettvangi. Í
stöku tilfelli skráðu mælingamennirnir hjá sér örnefni og annað slíkt en það
er þó svo sjaldgæft að það verður að teljast til undantekninga.
Allgóð samsvörun er á milli mælingabóka og samsvarandi túnakorta
(eins og eðlilegt hlýtur að teljast) þótt ekki sé óalgengt að finna í
46 Mælingabækur fyrir Eyrarbakkahrepp og Selvogshrepp eru ekki í safninu þannig að ekki er hægt að
fullyrða að sami háttur hafi verið hafður á þar, þótt það virðist líklegt.
47 Slíkt hjálpar gríðarlega við notkun túnakortanna þar sem það auðveldar mikið að staðsetja kortin.
Dæmi um mælingamann sem gerir góða grein fyrir umhverfinu er t.d. Vigfús Guðmundsson.