Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Blaðsíða 121
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS120
mælingabókunum ítarlegri upplýsingar en þær sem enduðu á túnakortunum
og á stöku stað vanti beinlínis hús eða garða á kortin sem upplýsingar eru
um í bókunum. Stundum eru ítarlegri upplýsingar um örnefni eða útihús
á túnakortum í þeim sveitum sem mælingamaður var upprunninn í eða
bjó í. Oftast skiluðu slíkar upplýsingar sér fremur illa á sjálf túnakortin.
Ljóst er að mælingabækurnar geta verið fróðleg heimild, ekki einungis
um mælingarnar og framkvæmd þeirra, heldur eru þær einnig sjálfstæð
heimild þar sem í þeim leynast upplýsingar sem ekki fóru inn á túnakortin.
Í einstaka bókum eru dýrmætar upplýsingar sem ekki er að finna annars
staðar. Dæmi um þetta eru mælingabækur Jóns Ólafssonar úr Vestur-
Skaftafellssýslu (sér í lagi úr Skaftártungu- og Álftavershreppi) en Jón mældi
í kringum Kötlugosið 1918 og hefur sums staðar skráð upplýsingar um
breytingar og skemmdir á túnum sökum gossins, sjá mynd á bls. 119. Fæst
af því hefur hins vegar ratað inn á endanleg túnakort.48 Mælingabækur
hans eru því merkileg heimild um eyðileggingu og áhrif Kötlugossins 1918.
Skil á kortum og eftirlit með gæðum
Mælingar á túnum hófust sumarið 1916 og fyrstu kortunum var skilað 1917.
Þrátt fyrir að reglugerð um túnamælingar væri að mörgu leyti skýr hvað
varðar mælingatækni, hvað skyldi mælt og útlit korta þá eru túnakortin
talsvert misjöfn og kemur þar ýmislegt til. Inn í það spilar án efa áhugasvið,
metnaður og þekking mælingamanna sem og skilgreining þeirra á því
hvað væri mikilvægt að skrá. Umgjörð kortanna var þó svipuð; f lest voru
gerð á þann pappír sem kveðið var á um og voru þau undantekningalaust
blekuð, enda neitaði Stjórnarráðið að taka við óblekuðum kortum sem
gerð var tilraun til að skila inn úr Hrunamannahreppi.49 Langf lest voru
kortin líka í mælikvarðanum 1:2000 eins og reglugerð um túnamælingar
kvað á um en Stjórnarráðið veitti Búnaðarsambandi Austurlands leyfi
til að víkja frá þessum kvarða í mælingum sínum og mæla í 1:1500 eða
1:1000 ef það hentaði betur.50 Greinilegt er að þar hafa menn talið svo
48 Um þetta hafa varðveist talsverðar bréfaskriftir, mestmegnis þar sem úr varð að Jón færi aftur í
Álftavershrepp þar sem hann var búinn að mæla og kannaði skemmdir á túnum. Bréf sýslumannsins
í Skaftafellssýslum til Stjórnarráðs Íslands, dagsett 7. janúar 1919; bréf Stjórnarráðs Íslands til
Búnaðarfélags Íslands [um álit á bréfinu], dagsett 17. janúar 1919; bréf Búnaðarfélags Íslands til
Stjórnarráðs Íslands (undirritað af Eggerti Briem), dagsett 1. febrúar 1919 og bréf Stjórnarráðs
Íslands til sýslumanns Skaftafellssýslna, dagsett 6. febrúar 1919.
49 Bréf Búnaðarfélags Íslands til Stjórnarráðs Íslands (undirritað af S. Sigmundssyni), dagsett 25.
nóvember 1922. Atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið.
50 Sjá bréf Búnaðarfélags Íslands til Stjórnarráðs Íslands, dagsett 11. desember 1918 og bréf Stjórnarráðs
Íslands, dagsett 17. desember 1918 þar sem fram kemur að símskeyti með jákvæðu svari hafi verið
sent Búnaðarsambandi Austurlands.