Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Page 175
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS174
Það að höfundur bókarinnar sé yfirmaður þeirrar stofnunar sem fjallað
er um er bæði kostur og galli við verkið. Varla hefur nokkur jafngóða
yfirsýn og innsýn í málefni Þjóðminjasafnsins og þjóðminjavörslu í landinu
og þjóðminjavörður með fulltingi annarra starfsmanna safnsins sem að
bókinni koma. Á hinn bóginn setur það verkinu ákveðnar skorður að
höfundurinn er á ýmsa lund að fjalla um eigin störf, eða þá starfsemi sem
hún hefur leitt og haft sem slík mótandi áhrif á. Það er vissulega góðra gjalda
vert að gera upp við eigin störf en um leið takmarkandi sem birtist ekki
síst í því hve sjónarhorn bókarinnar er lítt gagnrýnið. Lítið fer þannig fyrir
þeirri gagnrýnu athugun á starfseminni sem lykilsamfélagsstofnun eins og
Þjóðminjasafn Íslands þarf jafnan á að halda, ekki síst í nútímasamfélagi.
Hér verður maður einfaldlega að sætta sig við að þetta er ekki bók af því
tagi heldur fremur rit sem hefur hið merka starf safnsins í gegnum tíðina í
hávegum, heldur á lofti afrekum, fagmennsku og útsjónarsemi þeirra sem
þar hafa lagt hönd á plóg og leggur áherslu á gifturíkt starf þess í samvinnu
við aðrar menningarstofnanir í þágu samfélags. Og það skal ekki dregið úr
því að vissulega beri að fagna því sem vel er gert.
Ef til vill má segja að eðli málsins samkvæmt sé hér um að ræða
framfarasögu. Sagan sem sögð er hefst á umfjöllun um vanbúna en
framsýna hugsjónamenn og lýsir stofnun sem nær fullum faglegum þrótti
í nútímanum þar sem menn eru tilbúnir til að takast á við nýjar áskoranir
sem fylgja breyttu samfélagi. Áhersla höfundar er á það hvernig safnið
hefur vaxið og dafnað, hvernig fagmennska hefur ef lst og hvernig safnið
hefur orðið að þeirri voldugu stofnun sem hún er í dag. Mikið er gert úr
því að lýsa þeim þáttum í starfsemi og umgjörð safnsins sem horft hafa til
framfara, hvernig unnið hafi verið að því að tryggja sem bestan árangur,
hvernig Þjóðminjasafnið hafi verið faglega leiðandi o.s.frv. Þannig lýkur
bókinni á lista yfir þau mörgu verðlaun sem safninu og starfsmönnum
þess hafa hlotnast á síðustu fimmtán árum líkt og til að taka af allan vafa
um árangur stofnunarinnar. Kannski er það form stofnanasögunnar sem
gerir það að verkum að örðugt er að fjalla um þróun stofnana eins og
Þjóðminjasafnsins án þess að setja hana upp sem samfellda sögu merkra
áfanga og uppbyggingar.
Þótt bókin sé viðamikið verk er þó eitt og annað sem maður hefði
kosið að fjallað væri ítarlegar um. Meðal þess er skipulegri umfjöllun
um framtíðarstefnu safnsins, hlutverk þess og menningarpólitíska stöðu í
samtímanum. Vissulega er allvíða vikið að slíkum málum samanber það sem
vísað var til hér að framan um þá áherslu sem sagt er að sé „lögð á félagslegt