Morgunblaðið - 21.01.2021, Side 64
64 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 21. JANÚAR 2021
Eins og fjallað hefur verið um ítrekað, í Morgun-
blaðinu og víðar, var bíófrumsýningum margra
kvikmynda frestað í fyrra og fram á þetta ár
vegna Covid-19 farsóttarinnar. Með bóluefnum
fer vonandi brátt að rofa til og eru margar
áhugaverðar kvikmyndir væntanlegar þegar líða
tekur á árið. Vonandi. Hér verða nokkrar spenn-
andi nefndar sem nauðsynlegt er að sjá á stóru
tjaldi og með dúndrandi hljóðkerfi.
Dansað með Spielberg
Einn af meisturum kvikmyndasögunnar, Stev-
en Spielberg, frumsýnir kvikmynd á árinu, að
vísu ekki fyrr en 9. desember. Er það dans- og
söngvamynd, West Side Story, byggð á hinum
dáða söngleik Bernstein og Sondheim. Spenn-
andi verður að sjá hvaða tökum Spielberg tekur
þá klassík en Ansel Elgort, sá sem steig fimlega
dans í Baby Driver, verður meðal aðalleikara.
Þetta er fyrsta dans- og söngvamynd Spielbergs.
Ekki dauður enn
James Bond hefur látið bíða eftir sér lengi og
er loksins væntanlegur 2. apríl. Upphaflega átti
að sýna 25. Bond-myndina, No Time To Die, í
kringum páska í fyrra og Bond því heilu ári of
seinn. Bond-unnendur munu varla erfa það við
hann enda allt saman Covid-19 að kenna. Daniel
Craig leikur Bond í síðasta sinn og leikstjóri er
Cary Joji Fukunaga en hann á m.a. að baki
Beasts of No Nation og þættina True Detective.
Þetta er því langdýrasta verkefni hans til þessa
og vonandi klikkar Bond ekki eftir alla þessa bið.
Rami Malek leikur illmenni myndarinnar og
Christoph Waltz snýr aftur sem Blofeld. Gæti
orðið hasarmynd ársins. Nú eða ekki.
Hanks og vélmenni
Bios nefnist kvikmynd sem frumsýna á 15.
apríl og er með Tom Hanks í aðalhlutverki.
Hanks leikur verkfræðing sem hannar vél-
menni og hefur búið í tíu ár í neðanjarðarbyrgi
eftir að mestallt mannkyn hefur verið þurrkað
út í ónefndum hamförum. Hanks býr til vél-
menni sem á að hugsa um hundinn hans að hon-
um látnum og heldur þríeykið af stað í leiðang-
ur um vesturhluta Bandaríkjanna. Hanks hefur
oftar en ekki brillerað í sínum hlutverkum og
allt stefnir í að hann geri það enn eina ferðina.
Luca og Cruise-tvenna
Teiknimyndafyrirtækið Pixar hefur gert
marga klassíkina og heldur nú til Ítalíu með
Luca. Segir af drengnum Luca sem skemmtir
sér í sumarfríi með sæskrímsli í dulargervi.
Stórskrítið vissulega, líkt og stjarna Top Gun:
Maverick, Tom gamli Cruise. En þó Cruise sé
skrítinn utan vinnunnar gæti myndin orðið fín-
asta skemmtun enda hefur brellum fleygt fram
frá því Cruise þaut um loftin blá í hinni heldur
hallærislegu Top Gun. Framhaldið skal frum-
sýnt 2. júlí. Og Cruise snýr svo aftur í enn einni
Mission: Impossible-myndinni í nóvember,
þeirri sjöundu. Það verður góður hasar.
Enski leikstjórinn Edgar Wright hefur gert
bráðskemmtilegar grínhasar- og hryllings-
myndir, þ.e. Shaun of the Dead, Hot Fuzz og
Baby Driver og má ætla að sú næsta, Last
Night in Soho, verði það líka. Er henni lýst sem
sálfræðihryllingsdrama, í úttekt BBC á mynd-
um ársins 2021. Anya Taylor-Joy úr þáttunum
Queen’s Gambit fer með eitt af aðalhlutverk-
unum en lítið er vitað um myndina enn sem
komið er. Frumsýning 23. júlí ef veiran lofar.
Hrollur og vísindaskáldskapur
Bandaríski leikstjórinn Jordan Peele er einn
sá allra heitasti í heimalandi sínu og víðar eftir
að hafa gert Get Out og Us, hvor tveggja hroll-
vekjandi og bráðfínar myndir. Búast má við
gæsahúð á árinu því nú tekur hann fyrir hinn
hryllilega Candyman, Sælgætiskarlinn. Sá sem
segir nafn Candyman fimm sinnum kallar hann
fram og þá er ekki von á góðu. Þetta verður nú
eitthvað, eins og sagt er.
Mexíkóski leikstjórinn Guillermo del Toro
frumsýnir 3. desember rökkurmynd sem nefn-
ist Nightmare Alley og er með Bradley Cooper
og Cate Blanchett í aðalhlutverkum. Segir í
henni af svikahrappi sem fær sálfræðing til liðs
við sig. Spennandi mjög og góðir leikarar.
Enn einn frábær leikstjóri, Denis Villeneuve,
frumsýnir kvikmynd á árinu, Dune, sem beðið
hefur verið með mikilli eftirvæntingu. Líkt og
kvikmynd Davids Lynch frá árinu 1984 er mynd
Villeneuve byggð á vísindaskáldsögu Franks
Herbert um ungan mann sem treyst er fyrir
mikilvægasta efni alheimsins, hvorki meira né
minna, sem er aðeins að finna á plánetu sem
kölluð er Dune, Sandauðnin. Villeneuve hefur
ekki klikkað hingað til og talið að hans útgáfa
verði langtum betri en útgáfa Lynch.
Anderson og ofurhetjur
Og veislan heldur áfram því Wes Anderson
frumsýnir einhvern tíma á árinu (vonandi)
gamanmyndina The French Dispatch með Bill
Murray í einu aðalhlutverkanna. Myndina átti
að frumsýna á Cannes í fyrra en ekkert varð af
því. Af öðrum leikurum má nefna Owen Wilson,
Tildu Swinton, Adrien Brody, Benicio del Toro
og Frances McDormand. Mikil leikaraveisla og
Anderson bregst varla bogalistin frekar en fyrri
daginn.
Unnendur ofurhetjumynda eiga líka von á
glaðningi á árinu því Black Widow verður frum-
sýnd í maí og The Suicide Squad í ágúst. Þá er
óþokkinn Morbius væntanlegur í október og
sitthvað fleira á hinu vonandi ágæta bíóári 2021.
helgisnaer@mbl.is
Vesturbæjarsaga Úr West Side Story eftir leikstjórann Steven Spielberg.
Hetja Scarlett Johansson í hlutverki Svörtu ekkjunnar. Njósnari Daniel Craig í hlutverki Bond í No Time To Die. Flugmaður Tom Cruise í háloftunum í Top Gun: Maverick.
Litið yfir kvikmyndaárið 2021 og það sem væntanlegt er í bíó ef Covid-19 lofar Hasar, grín,
hrollur og vísindaskáldskapur og þungavigtarleikstjórar sem beðið hafa lengi eftir frumsýningum
Bíóið snýr aftur … vonandi
Á dagskrá tónleika Sinfóníu-
hljómsveitar Íslands í Hörpu í
kvöld, fimmtudag, kl. 20 eru Kon-
sert fyrir kontrabassa nr. 2 eftir
Giovanni Bottesini – einleikari er
Jacek Karwan, einn af bassaleik-
urum hljómsveitarinnar, og Sin-
fónía nr. 3 eftir Johannes Brahms.
Stjórnandi er Bjarni Frímann
Bjarnason, staðarhljómsveitarstjóri
Sínfóníuhljómsveitarinnar.
Tónleikarnir eru um klukku-
stundarlangir án hlés og í
samræmi við sóttvarnalög er
sætaframboð á tónleikana tak-
markað við 100 tónleikagesti í fjór-
um sóttvarnarhólfum. Í það
minnsta tvö auð sæti eru á milli
allra pantana til að tryggja
nálægðarmörk milli gesta. Gestum
ber einnig skylda til að vera með
grímu á tónleikunum. Þeim er út-
varpað beint á Rás 1.
Kontrabassakonsert og Brahms í kvöld
Einleikarinn Jacek Karwan með bassann.
Samsýningin Jarðsögur verður opn-
uð í dag kl. 14 í Galleríi Gróttu á
Eiðistorgi, Seltjarnarnesi. Koma þar
saman verk Auðar Vésteinsdóttur,
Elísabetar Haraldsdóttur og Sigríðar
Ágústsdóttur sem eiga sameiginlegt
að nýta sér miðla handverks og nytja-
listar við sköpun einstakra listaverka
með aðferðum leirlistar og listvefn-
aðar, eins og segir í tilkynningu.
„Listakonurnar segja sögur með nátt-
úrulegum efnivið eins og ull, hör,
jarðleir og postulíni, sem hefur vísun í
jörð, náttúru og landslag. Líkt og í
náttúrunni geta óvæntir hlutir gerst í
vinnuferlinu og útkoman er ekki allt-
af fyrirséð. Fyrirbæri náttúrunnar
samlagast efninu í myndvefnaði Auð-
ar og leirverkum Elísabetar og Sig-
ríðar þar til fullkomið samband næst
milli hugar og handar,“ segir þar en
sýningarstjóri er Aðalheiður Val-
geirsdóttir.
Jarðsögur opnaðar í Galleríi Gróttu
Steinleir Verk eftir Elísabetu Haralds-
dóttur, glerungur með Hekluvikri.