Morgunblaðið - 01.07.2021, Page 58

Morgunblaðið - 01.07.2021, Page 58
✝ Þórgunnur Þórarinsdóttir fæddist á Hval- fjarðarströnd 4. júlí 1941. Hún lést á Líknardeild LSH í Kópavogi 24. júní 2021. Foreldrar henn- ar voru Þórarinn Elís Jónsson kenn- ari, f. 1901, d. 1993, og Þuríður Svan- hildur Jóhannesdóttir kennari, f. 1908, d. 1991. Systkin Þór- gunnar eru Þórný, Jóhanna Þórdís og Þórmundur. Eiginmaður Þórgunnar er Róbert Árnason múrara- meistari. Eignuðust þau fjögur börn, fyrsta barnið, drengur, lést dagsgamall, Gerður Eygló, f. 1961, Þóra Björk, f. 1964, og Róbert, f. 1966. Eiginmaður Gerðar er Óðinn Jónsson, dætur þeirra eru Bryn- dís og Hrefna, langömmubörn Þórgunnar eru Elv- ar Snær, Hjörtur Ingi og Haukur Er- ik. Þórgunnur bjó víða um land með foreldrum sínum, meðal annars í Flatey á Skjálfanda og í Innri- Akraneshreppi. Hún flutti ung til Akureyrar og lauk þar gagnfræðaprófi. Þar kynnt- ist hún eftirlifandi eiginmanni sínum og gengu þau í hjónaband 24. júlí 1960. Þórgunnur sinnti börnum og búi, gerðist dag- mamma en fór síðan að vinna hjá Félagsmálastofnun Akur- eyrar. Þau hjónin fluttu til Reykjavíkur árið 1987 og þar vann Þórgunnur hjá Vinnu- málastofnun til 2008. Útförin fer fram frá Grafar- vogskirkju í dag, 1. júlí 2021, klukkan 15. Við eigum að láta gott af okkur leiða, bæta heiminn dálítið með verkum okkar, styðja þá sem veikburða eru og hjálparþurfi. Þetta kemur fyrst í hugann þegar ég minnist Þórgunnar, tengda- móður minnar. Þessi vilji til að liðsinna og koma að gagni er áberandi þráður í lífsvef hennar. Hún ólst upp hjá foreldrum sem brotist höfðu til mennta, voru uppfræðarar og ræktunarfólk. Heimili þeirra stóð ævinlega opið þeim sem þurftu skjól eða stuðn- ing. Þetta var gamla fátæka Ís- land. Síðan þegar hún svo sjálf stofnaði heimili á Akureyri með sínum hjartfólgna Róbert voru þessi gildi haldin í heiðri. Þessa naut ég þegar þau opna faðminn fyrir mér, menntaskólapiltinum sem Gerður dóttir þeirra kynnti til sögunnar. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir þann rausnar- skap sem þau sýndu mér, vináttu og traust, og alla þá ást og um- hyggju sem við, dætur okkar og barnabörn, höfum notið. Gleði- stundirnar hafa verið margar, skemmtilegar sögur verið sagðar inn í nóttina af söguslóðum í Flat- ey á Skjálfanda, Innri-Akranes- hreppi og á Akureyri forðum. Skjólstæðingar tengdamömmu hjá Félagsmálastofnun Akureyr- arbæjar og síðar atvinnumiðlun fatlaðra hjá Vinnumálastofnun í Reykjavík nutu lífsafstöðu henn- ar. Allir áttu rétt á tækifæri og skjóli til að þroskast og dafna. Henni sveið ranglæti, frekja og yfirgangur, kaus mildi, skilning og hófsemi. Stundum sagði hún frá smávöxnu ljóshærðu stúlk- unni sem kölluð var Minnsta og þráði fínleika og fegurð en undi sér ekki við sveitarstörf. Góðar sögur eru gjarnan sætbeiskar eins og þegar hún tók utan af stóru jólagjöfinni í Flatey, von- góð um að þar leyndist falleg brúða, en dró upp grjótpraktísk svört gúmmístígvél. Þvílík von- brigði. En sagan var góð. Nei, Þórgunnur var ekki sveitastúlka í eðli sínu þótt hún gleymdi aldrei rótunum. Og hún var þakklát þeim sem studdu hana, ungling- inn á leið út í lífið, eins og Þór- nýju stóru systur. Þau Róbert bjuggu fyrstu árin í litlum leigu- íbúðum á Akureyri en áttu eftir að reisa tvö falleg einbýlishús á suðurbrekkunni, skapa sér, Gerði Eygló, Þóru Björk og Róbert yngri falleg heimili. Ég kynntist þeim á árunum í Espilundi. Margir nutu gestrisni Þórgunnar og Róberts á þessum árum. Stundum var farið í Sjallann þar sem dansinn dunaði og þau múr- arameistarahjónin veittu af rausn. Svo þegar dansleik lauk var gengið upp á Brekkuna í bjartri sumarnóttinni, heim í smurt brauð og te fyrir svefninn. Svona minnist ég tengdaforeldr- anna á fyrstu árum okkar löngu samfylgdar. Það hefur verið gott að kafa í djúpan minningasjóð á erfiðum tímum, þegar veikindi mörkuðu lífsgöngu Þórgunnar, þessarar fallegu, lífsglöðu og gjafmildu konu. Hún barðist fyrir því að lifa og missti aldrei vonina um enn eitt sumarið í Litla-Dal, bústaðnum þeirra góða, og fá að gleðjast með sínu fólki, en varð að játa sig sigraða fáeinum dögum fyrir áttræðisafmælið. Ég þakka allt sem Þórgunnur gaf mér og mínum, fyrir löng og dásamleg kynni. Óska henni góðrar ferðar. Megi fallegar minningar, ást og friður, umlykja og hugga elsku tengdapabba og ástvini alla. Óðinn Jónsson. Elsku amma. Við systurnar sitjum nú saman og rifjum upp allar góðu minn- ingarnar sem tengjast þér, elsku amma okkar. Konan sem var ein af okkar helstu fyrirmyndum í líf- inu, fallega, duglega og bros- milda amma. Við systur höfum alla tíð verið miklar ömmustelp- ur, eitt það skemmtilegasta sem við gerðum var að vera hjá ömmu og afa, spila lottó og púsla, dansa og syngja, borða kjöt í karrý og fara í búningaleik. Þú varst líka svo stolt af okkur og við af þér. Ekki minnkaði gleðin þegar við gerðum þig að langömmu og strákarnir þínir, sem þér þótti svo vænt um, þeir sem sáu ekki sólina fyrir þér og gáfu þér tit- ilinn „pönnukökulangamma“, það var flottasti titill sem þú hafðir heyrt. Það er kannski barnalegt að hugsa til þess, en við héldum að við myndum alltaf hafa þig hjá okkur, að við gætum dansað sam- an við Elvis Presley og spilað lottó þangað til við yrðum gamlar konur. Við vitum að það voru draumar þótt við ríghéldum í það þangað til kaldur raunveruleik- inn helltist yfir okkur eins og blaut tuska þegar þú greindist með krabbamein. Þú barðist eins og hetja elsku amma en það var gott að fá þennan tíma til að faðma þig aðeins meira og segja þér allt sem okkur langaði að segja þér og þurfa síðan að kveðja þig. Það eru þung tárin sem renna niður kinnarnar á litlu ömmustelpunum sem eru þó ekki litlar lengur en verða ávallt stelp- urnar þínar. Við vonum að ömmulyktin fari ekki alveg strax úr bústaðnum þínum og að pönnukökubaksturinn haldi þar áfram, þótt okkar pönnukökur verði aldrei nærri eins góðar og þínar. Takk fyrir allt elsku amma, Bryndís og Hrefna. Þín náðin, Drottinn, nóg mér er, því nýja veröld gafstu mér. Þótt jarðnesk gæfa glatist öll, ég glaður horfi’ á lífsins fjöll. (Einar H. Kvaran) Litla systir er horfin inn í nýja veröld. Eflaust þykir furðulegt að kalla nær áttræða konu litlu syst- ur en hún var það alltaf í mínum huga. Foreldrar okkar voru í kaupavinnu á Hvalfjarðarströnd sumarið 1941 með mig og Jó- hönnu á 4. ári. Þegar fæðing þriðja barnsins brast á fór ráðs- kona ríðandi að sækja ljósmóður í næstu sveit. Ég sat á hestasteini á hlaðinu að fylgjast með Jó- hönnu en pabbi varð að taka á móti þriðju dótturinni því ljós- móðirin kom seint og um síðir. Þriggja mánaða flutti litla stúlk- an með fjölskyldunni norður í Flatey á Skjálfanda. Fiskibátur sem fór á milli Húsavíkur og Flateyjar var okkar farkostur. Veður var svo slæmt þennan hrollkalda haustdag að ekki þótti fært að báturinn legðist að bryggju. Farþegar voru selfluttir á árabát í land. Foreldrarnir fóru með ungbarnið í fyrstu ferð en við Jóhanna í þeirri næstu. Okk- ur var fylgt til gistingar á annað heimili en hin þrjú voru á. Ég sofnaði áhyggjufull um líðan litlu systur en næsta morgun var blæjalogn og sólskin. Mikil var gleðin er fjölskyldan sameinaðist. Þórgunnur var skírð í kirkjunni á Brettingsstöðum í Flateyjardal 10. júní 1945 þegar ég var fermd. Bróðir okkar Þórmundur tæp- lega eins árs var líka skírður. Prestar komu í þá daga aðeins til þess að ferma og jarða á útkjálk- um landsins. Litla hnátan óx úr grasi, litfríð og ljóshærð, sannur sólargeisli. Hún gekk í gagnfræðaskóla á Akureyri og bjó hjá mér. Þar naut hún sín vel ekki síst í handa- vinnu því allt lék í höndum henn- ar þá og síðar. Á Akureyri fann hún sinn prins, Róbert Árnason múrarameistara, sem byggði þar oftar en einu sinni yfir þau, síðast einbýlishús við Espilund. Þar naut ég gestrisni þeirra á sumrin með barnahóp minn. Þórgunnur vann þar m.a. við eftirlit dag- gæslu barna. Eftir að þau fluttu til Reykjavíkur vann hún hjá Vinnumálastofnun. Þórgunnur var vel ritfær en fór dult með það þar til hún komst í kynni við les- hóp og ritsmiðjuna á Bókasafni í Árbæ. Þar kynntist hún frábær- um konum. Þetta var henni mik- ils virði þegar hið illvíga krabba- mein réðst öðru sinni inn í líf hennar. Viðhorf hennar sést vel í eftirfarandi ljóði hennar sem birtist í Húsfreyjunni eftir ljóða- samkeppni. Hefði ég vængi mundi ég fljúga til landsins þar sem gleðin býr en sorgin flýr fylla lungun af fersku lofti hjartað hamingju og hugann af andagift yrkja síðan ódauðleg ljóð sem lífga við blóðkornin dauðu bæði hvítu og rauðu. Róbert sem ekki vandist hús- verkum framan af ævi reyndist frábær íþeim þegar á þurfti að halda. Samstarf þeirra hjóna og samband í erfiðum veikindum hennar er aðdáunarvert. Þau vildu vera sjálfbær og njóta sam- veru án utanaðkomandi aðstoðar en urðu um síðir að fá sjúkra- þjónustu heim og sjúkrahúsvist sem lauk með 10 daga dvöl á líkn- ardeild LSH. Já margir eru horn- steinar hversdagslífsins. Hún var einn þeirra. Innilegar samúðar- kveðjur til fjölskyldunnar frá mér og mínum. Þórný Þórarinsdóttir. Móðursystir mín, Þórgunnur Þórarinsdóttir, er látin. Minning hennar lifir í huga og hjörtum hennar nánustu og mínar minn- ingar um hana eru margar og góðar! Við höfðum lítil samskipti eftir að ég byrjaði að fullorðnast (það ferli er enn í gangi!), en þó heyrðumst við vikulega um skeið, fyrir nokkrum árum, þar sem við hjálpuðumst að við að ráða sunnudagskrossgátu Moggans. Það var ótrúlega algengt að við gátum klárað hana saman. Þegar ég var barn var Akureyrarferð nánast hápunktur sumarsins, því það var alltaf sól á Akureyri! Man eftir ferðum hingað og þangað, aðallega í Vaglaskóg, í Opelnum hennar og Róberts. Man eftir nestisboxinu, sem hún hafði alltaf með í þær ferðir. Man sérstak- lega vel eftir mysuostinum, sem ekki fékkst hér í Reykjavík. Man að Þórgunnur skammaði okkur þegar við börnin höguðum okkur illa! En svo var það líka búið og enn betur man ég bros hennar og hlátur. Man þegar hún saumaði, á ljóshraða (!), á mig grænu sund- skýluna með svörtu röndunum. Þegar ég hugsa til baka um móð- ursystur mína, hlýnar mér um hjartarætur. Róbert, Gerður og fjölskylda, Róbert yngri og Þóra Björk. Innilegar samúðarkveðjur frá mér og mínum og megi minn- ingar um Þórgunni lifa áfram um ókomna tíð. Haukur Hauksson og fjölskylda. Elskuleg móðursystir mín hef- ur nú orðið að játa sig sigraða af illvígu meini eftir hetjulega bar- áttu. Elsku frænka mín, þú ert laus við þrautirnar sem hafa fylgt þér undanfarna mánuði, en ljúfar minningar streyma fram! Ég held mikið upp á myndina sem ég sendi þér þar sem þú heldur á mér síðhærð og falleg, sennilega 11 ára, sem barnapían mín á Ak- ureyri. Mörgum árum síðar er við kona mín fluttum til Akureyrar og eignuðumst okkar elstu dóttur gerðist þú barnapía hennar er við fórum í frí og fékkst að upplifa hennar fyrstu spor. Þú varst einn mesti „Akureyr- ingur“ sem ég hef hitt og heimilið fallega í Espilundinum var at- hvarf okkar systkina og fjöl- skyldu í ferðum okkar til Akur- eyrar í æsku. Ég er viss um að þetta hefur haft sterk mótandi áhrif á mig varðandi segulkraft Akureyrar, sem ég fann einnig síðar er ég kom til Akureyrar til starfa á námsárum. Þá varð ég ástfanginn og ákvað að setjast þar að með konu minni, sönnum Eyfirðingi, og fjölskyldunni eftir margra ára búsetu erlendis. Þú fluttist þó á endanum til Reykjavíkur með yndislegum eiginmanni þínum, Róberti Árna- syni, þar sem þið eignuðust einn- ig fallegt heimili og byggðuð ykk- ur svo sumarbústaðinn Litla-Dal í Grímsnesinu, sem bar sama yf- irbragð fegurðar og hlýju þegar maður kom í heimsókn. Við heim- sóknir til þín í veikindunum á Kristnibrautina var ótrúlegt að sjá hve heimilið var fallegt og sama hlýjan og gestrisni ykkar hjóna ríkti þar. Í veikindunum kom styrkur Róberts eiginmanns þíns berlega í ljós og hvað hann var þér mikilvæg stoð og stytta. Heimsóknir hefðu mátt vera fleiri, en fjarlægð og vinna komu í veg fyrir það. Þú náðir ekki eins og þig lang- aði að komast í Litla-Dal í veik- indunum síðustu mánuði, en laus úr viðjum veikindanna færðu vonandi að njóta þess sem kallað hefur verið „Sumarlandið“, laus við verki og þjáningar! Við Sigrún sendum innilegar samúðarkveðjur til Róberts eig- inmanns þíns, Gerðar og Óðins, Þóru Bjarkar og Róberts ásamt kveðjum til barnabarna og fjöl- skyldna. Haraldur Hauksson. Nú er Þórgunnur mín farin til æðri starfa í öðrum heimi. Ég sé hana fyrir mér þar með penna í hönd að skrifa einhverja spennandi skáldsögu eða ljóð sem hún gerði svo vel. Ég kynntist henni í ritsmiðj- unni í Bókasafninu í Árbæ þegar ég kom inn í hóp flottra kvenna sem voru allar með það markmið að bæta sig í og læra að skrifa. Við vorum með leiðsögn, lásum upp það sem við skrifuðum heima á milli tíma og fengum til um- hugsunar jákvæða gagnrýni frá hinum í hópnum. Ýmist voru skrifaðar skáldsög- ur, ljóð, ferðasögur eða æviminn- ingar. Það var eitthvað sérstakt í fari hennar sem varð til þess að við smullum strax saman og urðum góðar vinkonur. Þórgunnur var skemmtileg, jákvæð og bjartsýn og æðruleys- ið sem hún sýndi eftir að hún veiktist var aðdáunarvert. Við töluðum gjarnan saman í síma þegar samkomutakmarkan- ir voru á. Það var gaman að fylgjast með hvað þau hjónin voru samrýnd og ekki fór á milli mála hvað þeim þótti vænt hvoru um annað. Margar góðar minningar leita á hugann en sterkust er kannski sú þegar Þórgunnur bauð okkur í ritsmiðjunni í bústaðinn sinn í Grímsnesinu 20. júní 2018 en það má segja að þann dag hafi sum- arið verið það árið. Sólin skein úti og inni, í sál og í sinni. Við lásum hvor fyrir aðra, borðuðum úti á palli þessar líka fínu kræsingar sem hún hristi fram úr erminni og áttum saman frábæran dag. Ég á eftir að sakna þess að eiga samtal við þessa yndislegu konu. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég til Róberts, barna þeirra og fjölskyldna. Megi góður Guð vaka yfir elsku Þórgunni. Minning þín er mér ei gleymd; mína sál þú gladdir; innst í hjarta hún er geymd, þú heilsaðir mér og kvaddir. (Káinn) Valgerður Tómasdóttir. Við höfum verið svo heppnar að njóta samvista við Þórgunni í mörg ár í leshringnum okkar á Borgarbókasafninu í Árbæ. Við hittumst yfirleitt fyrsta miðviku- dag hvers mánaðar eftir að hafa lesið eina fyrirfram ákveðna skáldsögu og ljóðabók. Þá förum við alltaf hringinn, þar sem hver og ein segir frá sinni upplifun af bókunum. Nú förum við eins að og í hringnum okkar góða þar sem hver og ein færir henni Þór- gunni okkar sína kveðju: Fríða: Við Þórgunnur höfum gantast með það gegnum árin að ég hafi húkkað hana í leshring- inn. Þarna stóð hún við hilluna með uppstilltu bókunum í bóka- safninu og tók hverja bókina af annarri og skilaði til baka. Ég benti henni á eina og sagði: „Þessi er yndislestur“ við höfð- um lesið hana í leshringnum hérna á safninu. Við þekktumst ekki þarna en spjölluðum um bækur og ég sagði henni frá les- hringnum og hvatti hana til að koma og vera með. Það væri svo gaman hjá okkur. Þórgunnur var efins fyrst en mætti í næsta leshring og við tókum henni fagnandi. Það var fengur að fá þessa dásamlegu konu með okk- ur og ljóðalesturinn hennar var svo notalegur. Katrín: Það er mikill missir að Þórgunni úr hópnum okkar. Hún átti svo auðvelt með að greina verkin og koma auga á fallegustu textana. En, ef mikil mannvonska var í bókunum lagði hún þær frá sér. Hún mátti ekkert aumt sjá. Elínborg: Þórgunnur hafði svo skemmtilega frásagnarlist þegar við vorum að fjalla um bækurnar og hafði svo góða nærveru. Hennar verður sárt saknað. Gréta Björg: Hún var stolt kona, róleg, með hlýtt bros og skemmtilegan smitandi hlátur. Hún hlustaði með athygli á aðra og sagði skipulega og skemmti- lega frá. Ljóðin hennar voru fal- leg og full af heimspeki og lýs- ingu á lífinu. Hún var kona sem við getum lært margt af. Friður sé með henni Þórgunni. Auður: Þórgunnar verður sárt saknað. Hún var svo frjó, skemmtileg og ung í anda. Ingibjörg Kristín: Mér fannst hún hógvær kona og fáguð með auga fyrir hinu spaugilega. Matthildur: Ég minnist Þór- gunnar með væntumþykju og hlýhug. Torfhildur: Þórgunnar verður sárt saknað í leshringnum okkar. Hún hafði alltaf mikið til málanna að leggja varðandi bækurnar sem við lásum, skrifaði oft niður álit sitt og það var gaman og fróðlegt að hlusta. Arndís: Hún var svo hlý og hafði einstaklega góða nærveru. Einnig svo „djúp“ og vel að sér í því sem við vorum að lesa um. Það var líka svo gaman að hlæja með henni. JÓ: Nú sé ég Þórgunni fyrir mér brosa sínu sposka brosi til okkar að ofan og hafa gaman af. Ef hún væri hér kæmi hún örugglega með eitthvert alveg óvænt sjónarhorn eins og hennar var von og vísa. Hana langaði svo til að geta komið þó ekki væri nema að sitja með okkur, sagði hún einhvern tíma núna snemma í vor. Það hefur verið svo góður andi í hópnum og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að vera sam- ferða þessari einstöku konu. Blessuð sé minning hennar Þórgunnar. Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar. Jónína Óskarsdóttir og leshringurinn á Borgar- bókasafninu í Árbæ. Þórgunnur Þórarinsdóttir HINSTA KVEÐJA Til Þórgunnar okkar. Fljúgðu inn í morgunroðann - fljúgðu burt með ljóð þín og sögur sýndu þau í annarri vídd fyrir almætti alheimsins - þá hellast yfir þig þakklætis bylgjur frá okkur á þessari jörð ég höfuð hneigi við minningu þína svo hógvær og blíð listræn og ljúf - fljúgðu burt fljúgðu (Erna Reynisdóttir) Innilegar samúðarkveðj- ur til fjölskyldunnar. Fyrir hönd Ritsmiðju- vinkvenna úr Borgarbóka- safninu í Árbæ, Kristín Arngrímsdóttir. Af eilífðarljósi bjarma ber, sem brautina þungu greiðir. Vort líf, sem svo stutt og stopult er, það stefnir á æðri leiðir. Og upphiminn fegri en auga sér mót öllum oss faðminn breiðir. (Einar Benediktsson) Í dag kveð ég mína kæru vinkonu og þakka af alhug áratuga vináttu. Söknuður- inn er mikill. Ég votta fjöl- skyldu hennar mína dýpstu samúð. Guðbjörg. 58 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 1. JÚLÍ 2021 Minningarkort fæst á nyra.is eða í síma 561 9244

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.