Þjóðmál - 01.06.2019, Blaðsíða 25
ÞJÓÐMÁL Sumar 2019 23
einnig mjög vel þá árstíðasveiflu sem var
í íslenskri flugþjónustu. Fjárhagsleg staða
að hausti varð að vera mjög sterk til að
félagið lifði af veturinn. Hann vissi að ef ekki
væri nægjanlegt fé fyrir hendi til mögru
mánaðanna lenti félagið í erfiðri stöðu.
Lausnin var m.a. að lengja ferðamanna-
tímann – verkefni sem er langhlaup og enn í
gangi.
Samstarf Harðar og Sigurðar Helgasonar,
yngri forstjóra Flugleiða, var gott og unnu
þeir eins og einn maður að framgangi
félagsins, svo sem um stórar ákvarðanir um
flugflota félagsins.
Hörður sat sem formaður Flugleiða í krafti
stórs eignarhluta Eimskips í Flugleiðum. Sú
vegferð sem félögin fóru saman á þessum
árum var báðum til góðs. Eimskip var góður
kjölfestufjárfestir í Flugleiðum.
Lokaorð
Hörður Sigurgestsson var ekki skoðanalaus
maður. Hann stóð ekki á torgum og sagði
sína skoðun, heldur gerði hann það í smærri
hópum. Þar var hlustað á það sem hann hafði
fram að færa, hvort heldur var á vettvangi
atvinnulífs, stjórnmála eða menningarmála.
Eftir því var tekið hvað Hörður sagði. Menn
tóku tillit til þess. Hann var maður framfara
og árangurs sem eftir var tekið.
Hann gat verið gagnrýninn, jafnt á samherja
sem andstæðinga. Sú gagnrýni var byggð
á mati hans á stöðunni í stóru sem smáu.
Margir sóttu í smiðju hans utan formlegra
funda. Hann hitti marga og ræddi hin ýmsu
viðfangsefni og var vel inni í mörgum málum.
Hörður var fjölskyldumaður. Hann og Áslaug
stóðu saman í lífinu sem og börn þeirra.
Barnabörnin færðu þeim mikla gleði og það
var gott að sjá á síðustu árum hve duglegur
stjórnandinn fyrrverandi var að sinna þeim.
Þegar farið er yfir feril Harðar Sigurgests sonar
má draga þá ályktun að hann hefði náð
árangri í hvaða rekstri sem er. Hann beitti
aðferðum í rekstri sem nýttust vel og hægt
er að heimfæra á nánast hvers kyns rekstur,
því með góðum undirbúningi, öguðum
vinnubrögðum og skýrri sýn á hvert skal
farið eru meiri líkur á að árangur náist. Enda
þótt starfið hafi verið fastskipulagt var
alltaf gefandi að vinna í slíku umhverfi með
framgang Eimskips að leiðarljósi.
Það var mér mikilvægt að kynnast Herði
Sigurgestssyni og vinna með honum. Hann
var kröfuharður yfirmaður og góður félagi.
Með okkur þróaðist vinátta sem entist til
síðasta dags.
Höfundur er er rekstrarhagfræðingur sem
starfaði hjá Eimskipafélagi Íslands í 18 ár,
þar af síðustu tvö árin sem framkvæmda
stjóri Eimskips.
Í Hamborg 1994. Frá vinstri; Erlendur Hjaltason, Hörður
Sigurgestsson og Indriði Pálsson.