Þjóðmál - 01.06.2019, Page 91
ÞJÓÐMÁL Sumar 2019 89
Það er einkum þrennt sem mig langar til að
staldra við: Í fyrsta lagi áhugaverðar persónur
sem koma fram í bókinni og eru hluti af
atburðarásinni. Í annan stað nefni ég atriði
sem bókin fjallar ekki um og hefði hugsanlega
mátt gefa betri gaum. Og að lokum nokkur
orð um framtíðarsýn í flugrekstri í ljósi þeirra
miklu breytinga sem orðnar eru í þeim heimi.
Persónur og leikendur
Tíminn líður hratt og í bókinni er haldið til
haga tímatali allt frá því að tilkynnt var um
stofnun WOW air 2011 og opnað fyrir bókanir
hjá félaginu. Gott er að rifja upp að WOW
keypti Iceland Express út af markaðnum
2012 og fékk nýtt flugrekstrarleyfi 2013. Farið
er yfir miklar skylmingar í kringum stofnun
WOW og viðskilnað Matthíasar Imsland við
Iceland Express, þar sem hann gegndi stöðu
forstjóra á meðan Pálmi Haraldsson var þar
aðaleigandi. Matthías hætti snögglega sem
forstjóri Iceland Express og gekk til liðs við
Skúla Mogensen um það leyti sem hann
var að undirbúa stofnun flugfélags. Birgir
Jónsson, nýskipaður forstjóri Íslandspósts,
kemur tvívegis við sögu Iceland Express.
Fyrst starfaði hann sem forstjóri félagsins
á árunum 2004 til 2006 og til hans var svo
leitað aftur þegar Matthías hætti snögglega
í september 2011. En í þetta sinn varð dvölin
stutt því Birgir hætti 10 dögum síðar og bar
við ágreiningi við eigendur. Þá steig fram
annar maður, Skarphéðinn Berg Steinarsson,
núverandi ferðamálastjóri. Hann sat í stjórn
Iceland Express og tók við forstjórakeflinu
þegar Birgir hrökk úr skaftinu. Baldur Oddur
Baldursson, Davíð Másson og Páll Borg eru
tilgreindir sem lykilmenn í upphafi hjá Skúla,
nöfn sem ekki heyrast oft. Af öðrum má
nefna Þórólf Árnason, fráfarandi forstjóra
Samgöngustofu, sem fer með umsjón
flugmála, þ.m.t. flugrekstrarleyfin.
Þá kemur að þætti Steve Házy, stofnanda
flugvélaleigunnar Air Lease Corporation,
en hann er sannarlega örlagavaldur í sögu
WOW air. Frá fyrsta fundi þeirra Skúla er sagt
á skemmtilegan máta í bókinni þegar Házy
flýgur til Íslands 2015 og nánast tilkynnir að
hann vilji standa að uppbyggingu WOW air
með því að leigja félaginu flugvélar. Sam-
band þeirra Skúla er mikið á næstu árum en
svo kárnar gamanið í lokin því það er einmitt
hin kyrrsetta flugvél WOW á Keflavíkurflugvelli
sem var í eigu Air Lease Corporation.
Nefndur er til sögu Ben Baldanza, sem áður
var forstjóri lággjaldaflugfélagins Spirit
Airlines. Baldanza hefur afskipti af WOW
air í ársbyrjun 2016 og eitthvað er málum
blandið að frumkvæði hvers. Bókin segir að
Airbus hafi haft milligöngu um innkomu
hans í stjórn félagsins en því hefur Skúli
mótmælt. Ben hefur tjáð sig opinberlega um
reynsluna af því að sitja í stjórn félagsins frá
því snemma árs 2016 og þar til hann sagði
sig úr stjórninni í ágúst 2018. Hann birti
grein undir fyrirsögninni: Five reasons WOW
Airlines failed and two reasons it didn‘t.
Tvennt stendur upp úr sem meginástæður að
mati Baldanza; skortur á kostnaðaraðhaldi og
ákvörðunin um að ráðast í rekstur á breið-
þotum. Sú ákvörðun sérstaklega hafi jarðað
félagið.
Undir það síðasta kemur síðan Bill Franke,
eigandi Indigo Partners, mikið við sögu. Sá
kann sannarlega að reka lágfargjaldafélög,
á hlut í þeim mörgum, m.a. Wizz Air sem
flýgur til Íslands. Þrátt fyrir miklar vonir og
langan aðdraganda hrökk Indigo frá borði í
árs byrjun 2019 þegar dauðastríðinu var að
ljúka. Áhugaverðar upplýsingar koma fram
um aðkomu Icelandair og þá erindisleysu
þrátt fyrir nokkrar tilraunir við að koma WOW
til bjargar.