Strandapósturinn - 01.06.1990, Síða 115
dóttur, sem verið hafði í vist í Hafnarfirði um tíma. Hafði stúlkan
látið vel yfir verunni þar. Þetta voru meðmæli í augum móður
minnar.
Eftir 15 daga siglingu frá Kaupmannahöfn vorum við komnir á
móts við Langanes. Þá skall á okkur stórviðri af norðri, og rak
hafísbreiðu undan veðrinu. Innan um ísinn voru stórir borgar-
ísjakar, sem gnæfðu yflr breiðuna. Var það mikilfengleg sjón að
sjá hina háu jaka þeysast áfram fyrir vindi og straum. Stormgnýr-
inn gerði þá sjón ennþá áhrifameiri. Ekki sáum við til lands, en
skipverjar vissu hvar við vorum. Var nú snúið við undan ísnum.
Fengum við hraðbyri suður fyrir landið. Sigldum við síðan svo
djúpt af Suðurlandi, að aldrei sá til lands, og vestur fyrir Reykja-
nes. Skútuskipstjórarnir gömlu vildu ekki hætta sér nær landi en
þörf var á. Þeir hikuðu aldrei við að leggja nokkrar mílur til
viðbótar undir kjöl, til þess að vera vissir um, að þeir væru ekki of
nærri landi.
Héldum við nú til norðurs fyrir vestan land og sigldum svo
djúpt af Snæfellsnesi, að jökultindurinn sást aðeins sem lítil þúfa
yfir haffletinum, en Hvítserk á Grænlandi sáum við samtímis.
Er við vorum komnir út af Vestfjörðum, dró matsveinninn einn
daginn svo stóran þorsk, að ég hafði aldrei getað ímyndað mér
aðra eins stærð á þeirri skepnu. Svo kjaftmikill var hann og
ófrýnn, þar sem hann lá á þilfarinu, að ég hafði beinlínis beyg af
þessum fyrsta golþorski, er ég sá á ævinni. Þetta voru mín fyrstu
kynni af íslenzkum sjávarafla.
Skipstjórinn áleit óráðlegt að halda norður fyrir Horn, til þess
að reyna að komast inn á Húnaflóa, án þess að grennslast eftir því,
hvort þar væri hafís eða hvernig honum væri þá háttað. Við
sigldum því inn í Haukadalsbót í Dýrafirði. Innsigling þangað er
hæg, og mátti þar búast við skipaferðum og fréttum. Svo hvasst
var, er við sigldum inn fjörðinn, að við misstum stagfokkuna. Hún
fauk út í veður og vind, og sáum við ekkert af henni framar.
Er inn á Bótina kom fréttum við, að Húnaflói væri fullur af
hafís. í Haukadalsbót var talsvert útræði á þessum árum, margar
113
L