Morgunblaðið - 11.11.2021, Page 24
24 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 11. NÓVEMBER 2021
VIÐTAL
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
„Ég fékk að vita í mars að Eyþór son-
ur minn væri með krabbamein. Þá
hringir hann í mig og segir mér að
þetta sé ekki tannkýli heldur eitthvað
verra,“ segir María Anna Þorsteins-
dóttir, íslenskukennari við Tækni-
skólann, í samtali við Morgunblaðið,
þar sem við sitjum í vistlegri íbúð
hennar á fjórðu hæð við Stigahlíðina í
Reykjavík. „Hér er engin lyfta svo þú
mátt ekki vera fótfúinn eða í hjóla-
stól,“ fékk blaðamaður sem varn-
aðarorð fyrir heimsóknina og komst
stórslysalaust upp á fjórðu hæð.
Sonur Maríu var Eyþór Már Hilm-
arsson, sem búsettur var í Svíþjóð
um 20 ára skeið og féll frá í haust,
tæplega fimmtugur að aldri. Hann
lætur eftir sig sænska eiginkonu og
þrjár dætur, eina úr fyrra sambandi.
„Það hvarflaði ekki að mér að hann
færi að deyja svona ungur,“ rifjar
María Anna upp, en barnsfaðir henn-
ar, Hilmar Sigurbjartsson, faðir Ey-
þórs, lést í Ósló í Noregi í júlí í kjölfar
hjartaáfalls svo þar er skammt stórra
högga á milli.
„Mamma mín, fyrirgefðu að ég
skuli leggja þetta á þig. Bólgan í
kjálkanum er ekki tannkýli eins og
ég hélt, heldur æxli, erfitt æxli, sjald-
gæft æxli,“ skrifaði María Anna í
minningargrein um son sinn, sem
birtist í Morgunblaðinu á útfarardegi
hans, 1. október. Hún eignaðist Ey-
þór ung, aðeins 17 ára gömul, og rifj-
ar í greininni upp basl námsáranna
svo ljóslifandi verður:
„Besti tími okkar mæðgina var
þegar við bjuggum tvö á Hjónagörð-
um stúdenta og ég var í bókmennta-
námi. Ég var sparsöm einstæð móðir
á þessum árum og þá var hollur mat-
ur ódýrastur. Eyþór fékk því alltaf
hafragraut í hádeginu og að sjálf-
sögðu fylgdi með sagan af Stúfi sem
tók ýmsum breytingum hjá mér í
munnlegri geymd. Hann fór með mér
í Háskólabíó á mánudagsmyndirnar
kl. 5 en var þá frítt í bíó fyrir stúd-
enta eða í Alþýðuleikhúsið á mennta-
ndi leiksýningar fyrir börn.“
Eðlilega voru tíðindin af veik-
indum sonarins sláandi, þótt Eyþór
sjálfur tæki þeim með miklu jafn-
aðargeði. „En mamma, hví skyldi ég
ekki veikjast eins og hver annar?“
spurði hann móður sína. „Ég hef átt
gott líf, heilbrigð börn, yndislega
konu, góða fjölskyldu og vini.“ Við
þessu átti móðir hans engin svör, eins
og hún tíundaði í minningargreininni.
Ekki hægt að skera
„Ég gerði samning við Maríu mey
og Jesú um að ég skyldi hætta að
reykja ef þau hjálpuðu Eyþóri til
heilsu, en það var náttúrulega svik-
ið,“ segir María Anna og hlær við, en
hún steig skrefið engu að síður, drap
í tóbakinu og tók til við nikótín-
tyggjóið, sem margir hafa gert að
haldreipi sínu í baráttunni við rett-
una.
Hún rifjar upp erfiða krabba-
meinsmeðferð sonarins mánuðina
eftir áfallið, sem fylgdi fréttunum af
veikindum hans. „Hann segir mér
strax í mars að þetta sé líklega ekki
læknanlegt, að það sé ekki hægt að
skera þetta í burtu og ég bara neitaði
að horfast í augu við það. En hann og
konan hans vissu alveg að þetta yrði
ekki læknað, enginn bjóst hins vegar
við að þetta gerðist svona hratt, mað-
ur hélt að hann ætti kannski tvö ár,
eða fimm ár eftir eða eitthvað, en svo
gerðist þetta svona brátt. Hann er á
fótum daginn áður en hann deyr,“
segir María Anna frá.
Til að bæta gráu ofan á svart lést
svo faðir Eyþórs í Noregi um mitt
sumar, hafði þá verið á leiðinni að
heimsækja son sinn til Svíþjóðar, en
þar voru öll sund lokuð vegna heims-
faraldursins og landamæri ná-
grannaríkjanna skandinavísku lokuð
mánuðum saman. Eyþóri auðnaðist
hins vegar að komast til Noregs á ell-
eftu stundu og vera við dánarbeð föð-
ur síns.
„Já, þau ná að kveðja hann, þau
komast til Noregs og á sjúkrahúsið,
hann var reyndar meðvitundarlaus
en það skiptir engu að síður rosalega
miklu máli að vera hjá þeim sem deyr
þegar hann deyr,“ segir María Anna.
Mikið umstang hafi svo fylgt því að
ganga frá eigum Hilmars, sem bjó
einn, auk þess að skipuleggja athöfn
á Íslandi þar sem duftker hans var
sett niður í september. Krabbamein
Eyþórs hafði hins vegar yfirhöndina í
baráttunni áður en að athöfninni
kom, en áður hafði bróðir hans flutt
kerið með sér frá Noregi til Svíþjóð-
ar svo Eyþóri auðnaðist að eiga stund
með því.
Segir María Anna frá því að fjöl-
skyldan hafi verið á leið til Svíþjóðar
að heimsækja Eyþór þegar honum
hafi þyngt mjög skyndilega. Kona
hans, Louise Helena Granström, hafi
hringt og látið vita af þróun mála.
„Þið verðið bara að koma núna,“ rifj-
ar María Anna upp að hún hafi sagt
við fjölskylduna, sem átti sér einskis
ills von og hafði ráðgert að dveljast
um nokkurra daga skeið í Svíþjóð.
Versta upplifun ævinnar
„Við ætluðum að bíða eftir Katr-
ínu, hún var að koma frá Þýska-
landi,“ segir María Anna, en dóttir
hennar er Katrín Edda Þorsteins-
dóttir, vélaverkfræðingur, áhrifa-
valdur og krossfittkempa. Önnur
systkini Eyþórs eru þeir Jón Unnar
Hilmarsson, húðflúrlistamaður á
Spáni, og Atli Viðar Þorsteinsson,
sem starfar við tölvuleikjagerð hjá
CCP auk þess að vera í hjáverkum
plötusnúðurinn Atli Kanill.
„Við urðum bara að taka leigubíl
strax og við komum til Svíþjóðar,
ætluðum að taka bílaleigubíl en eng-
inn tími var til þess og þetta er bara
það versta sem ég hef upplifað á æv-
inni,“ segir María Anna með áherslu-
þunga, „leigubílstjórinn keyrði eins
hratt og hann gat, þetta var einhver
einn og hálfur tími og ég bað bara til
guðs um að Eyþór yrði á lífi þegar við
kæmum,“ rifjar hún upp af örvænt-
ingarfullri för frá flugvellinum á
sjúkrahúsið.
Kveðjustundin náðist
Eyþór var á lífi þegar þau komu á
staðinn, en ekki með meðvitund. „Ég
held að hann hafi samt heyrt í okk-
ur,“ segir móðir hans vongóð, „hann
var bara með svo mikið morfín í sér.
Ég rifjaði upp sögurnar sem ég las
fyrir hann lítinn, sérstaklega um
bræðurna Ljónshjarta og Nangiala.
Ég minnti hann líka á pabba hans og
ömmu og alla þá sem eru farnir og
tækju á móti honum hinum megin.
Hann var, sem barn, mikið eftirlæti
gamla fólksins í fjölskyldunni. Svo
skyndilega breyttist andardrátturinn
og hann gaf frá sér síðasta andvarp-
ið,“ heldur hún áfram um seinustu
augnablik sonar síns, sem til allra
heilla náðist þó að kveðja þótt tæpt
stæði.
Í Svíþjóð starfaði Eyþór lengst af
sem stuðningsfulltrúi með ungu fólki,
sem ratað hafði á refilstigu í lífinu, en
var auk þess mikill áhugamaður um
félagsvísindi, einkum stjórn-
málafræði, og skrifaði gjarnan grein-
ar af þeim vettvangi í sænsk dagblöð
þar sem hann naut aðstoðar Ölvu
dóttur sinnar við sænsku stafsetn-
inguna.
Við tökum upp léttara hjal þegar
hér er komið sögu, enda margt annað
en sorg, sem knúið hefur dyra hjá
Maríu Önnu um hennar daga. Hún
býr til dæmis yfir umfangsmikilli
reynslu af fjölmiðlastörfum svo eitt-
hvað sé nefnt, en byrjum á stúdents-
prófi frá Menntaskólanum við
Hamrahlíð árið 1974. „Það var svo
gaman í íslensku í Hamrahlíðinni að
ég ákvað að fara í íslensku í háskól-
anum,“ rifjar María Anna upp af átt-
unda áratugnum.
„Við erum bara úr Hlíðunum“
Kolbeinn Sæmundsson kenndi á
þessum tíma latínu í háskólanum, þá
skyldufag í íslenskunni, og ein-
hverjum tökum virðist tungan forna
hafa náð á Maríu Önnu, sem síðar
lagði stund á latínu og grísku í endur-
menntun, „en það var án málfræði,“
segir hún og blaðamaður hváir, minn-
ugur eigin latínutíma hjá Þorbjörgu
Kristinsdóttur í Menntaskólanum í
Reykjavík fyrir margt löngu þar sem
málfræðin kom fyrst og orðaforði á
eftir. „Já, þá þurftum við ekki að læra
allar beygingarnar heldur bara hvað
orðin þýddu. Kennarinn var ægilega
skemmtilegur, ég er búin að gleyma
hvað hann heitir, en hann tengdi lat-
ínuna og grískuna við önnur tungu-
mál, sjötíu prósent af orðaforða ensk-
unnar eru til dæmis úr latínu og
grísku,“ segir María Anna og lumar á
skemmtilegri sögu úr íslenskunám-
inu.
„Já, maður upplifði nú dálitla
stéttaskiptingu,“ segir hún með að-
kenningu að brosi. „Þannig var að all-
ir voru úr sveit nema ég og einn
bekkjarbróðir minn og þetta fólk
kom allt frá einhverjum sögustöðum,
annaðhvort landnámsbæjum eða áttu
ættir að rekja á einhvern bæ þar sem
Grettir Ásmundarson hafði verið og
ég veit ekki hvað. Svo vorum við
bekkjarbróðirinn að kynna okkur og
sögðum „ja, við erum nú bara hérna
úr Hlíðunum,“ og það þótti nú ekki
merkilegt,“ segir María Anna og
hlær.
„En þetta var mjög skemmtilegt,
við héldum hópinn, þetta var eins
konar bekkur og mikið partýstand og
á þessum tíma mættu kennararnir
alltaf í partýin og það voru þessar
rannsóknaræfingar líka og svo var
stofnuð hljómsveit í bekknum, Wulfi-
las Orkestra [eftir Wulfila biskupi
sem þýddi biblíuna á gotnesku], í
henni voru til dæmis blindu bræð-
urnir úr Vestmannaeyjum, Gísli og
Arnþór [Helgasynir], og Sigurður
Valgeirsson, síðar bókaútgefandi,
spilaði á trommur,“ rifjar hún upp af
félagslífinu í Háskóla Íslands á átt-
unda áratug síðustu aldar.
Nafn hljómsveitarinnar tengdist
íslenskunáminu órofa böndum þar
sem gotneska var þar einnig skyldu-
fag. „Hún var aðalsían á hópinn, þeir
sem náðu ekki gotneskunni komust
ekkert áfram svo við urðum býsna
glúrin í gotnesku og samanburð-
armálfræði, en á þessum tíma var
ekkert kennt um íslenska málnotkun.
Ég man svo vel eftir því að Ásgeir
Tómasson, síðar fréttamaður á RÚV,
hann byrjaði í íslenskunni ’75 og
hætti fljótlega. „Ég er kominn hérna
til að læra rétt íslenskt mál,“ sagði
hann og þá vorum við þarna að berj-
ast í gotnesku og fornnorrænu með
kennslubækur á þýsku og norsku og
aldrei minnst einu orði á rétt eða
rangt íslenskt mál eða eitthvað svo-
leiðis,“ segir María Anna og hlær
dátt, „menn áttu bara að kunna það.“
Ekki leið á löngu uns íslenskuneminn
rataði í fjölmiðlana.
„Mig vantaði sumarvinnu og sá
auglýsingu í Tímanum um að þar
vantaði prófarkalesara. Ég fer og
sæki um og þarna var Jón Sigurðs-
son ritstjóri, sem fór svo á Bifröst.
„Já, ertu í íslensku?“ spurði hann og
ég svaraði því játandi. „Fínt, þá
máttu bara byrja á morgun,“ og ég
var svo óframfærin að ég spurði ekki
um laun eða vinnutíma eða neitt.
„Talaðu bara við hann Flosa, sem þú
átt að leysa af,“ sagði Jón og það var
Flosi Kristjánsson, sem var að fara í
hvalskurð þá um sumarið, hann var
prófarkalesari þarna og kenndi líka
við Hagaskóla,“ segir María Anna af
upphafi starfa sinna á blaðinu. Sumar
reglurnar hafi þó ekki verið ýkja-
flóknar.
„Þjóðviljinn skrifar milljón með
einu elli, mundu það, en Tíminn og
Vísir skrifa með tveimur ellum.
Verslunarskólinn er með zetu,
mundu það líka, annars segja þeir
upp blaðinu, og svo er það BifreiðIR
og landbúnaðarvélar, ekki bifreiðar,
annars borga þeir ekki auglýs-
inguna,“ rifjar hún upp af lífsregl-
unum í prófarkalestrinum, sem ekki
tengdust endilega hinum fínþráðótt-
ari vefjum málfræðinnar.
Kynntist skítadreifurum
„Mér fannst þetta nú bara dálítið
gaman, að lesa þarna um alls konar
haugsugur, hvernig sláturtíðin gengi,
grasspretta og sláttur, allar auglýs-
ingarnar í blaðinu voru auðvitað frá
Sambandinu og maður kynntist þar
skítadreifurum og fleiri tækjum sem
ég vissi engin deili á,“ rifjar María
Anna upp og bætir því við að fram-
angreint hafi verið mun umfangs-
meira í blaðinu en stjórnmála-
viðhorfin. „Það var eiginlega engin
pólitík, hún var bara í leiðaranum,
fréttamennirnir voru allt ungir strák-
ar, svona 20 til 30 ára, sem voru alltaf
að skúbba, en maður fann samt voða-
lega lítið fyrir einhverri samkeppni,
aðalsamkeppnin var milli Vísis og
Dagblaðsins, sem svo sameinuðust,
það var til dæmis ekkert svoleiðis
milli Þjóðviljans og Tímans. Þetta
var svo einfalt í þá daga, maður vissi
alveg hvaða flokkur átti hvaða blað
og þar með hver efnistökin væru.
Núna veit maður ekkert hver á þessi
blöð,“ segir María Anna og hlær enn.
„En mér fannst þetta alveg ofboðs-
lega gaman, þetta er skemmtilegasti
vinnustaður sem ég hef verið á,“
heldur hún áfram og kveður sam-
starfsfólkið auðvitað hafa átt þar
stærstan hlut að máli, einkum vin-
kvennahóp, sem enn í dag hittist
nokkrum sinnum á ári og kallar sig
Tímaskvísurnar.
Tímabært er að slá botninn í spjall,
sem sannarlega hefur náð endanna á
milli í margslungnu litrófi gleði og
sorgar, blaðamaður stríðalinn á ljúf-
fengu bakkelsi húsráðanda og hefði
ef til vill þótt meiri áskorun að kom-
ast upp á fjórðu hæðina til Maríu
Önnu eftir viðtalið en fyrir það. Við
kveðjumst með virktum, enda ný-
komið í ljós að við erum náskyld.
Hvar annars staðar en á Íslandi hittir
maður viðmælendur sem svo reynast
frænkur manns?
„Neitaði að horfast í augu við það“
- Sonur og barnsfaðir Maríu Önnu létust með örstuttu millibili - „Hann og konan hans vissu að
þetta yrði ekki læknað“ - Eftirminnileg ár í íslensku í HÍ - Tíminn skemmtilegasti vinnustaðurinn
Morgunblaðið/Atli Steinn Guðmundsson
Með feðgunum María Anna á mynd ásamt feðgunum Hilmari Sigurbjartssyni og Eyþóri Má Hilmarssyni heitnum.
Frændrækni María Anna prýðir heimilið myndum af skyldmennum sínum
nær og fjær og reyndist þegar upp var staðið náskyld þeim er hér skrifar.
Lengri útgáfa af viðtalinu
verður birt á mbl.is.
mbl.is