Náttúrufræðingurinn - 2021, Blaðsíða 81
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
173
Við Svanhildur skiptumst á fáeinum bréfum vorið 2008 í
tengslum við samningu Sveppabókar minnar. Þar segir hún m.a.:
Sjálf hef ég unnið fyrir mér við að kenna grunnatriðin
um sveppi, og í því skyni lesið um eðli og sérkenni sveppa,
ásamt greiningum þeirra. Strax í lok náms kenndi ég við
polytekniska háskólann í Kaupmannahöfn ræktun og grein-
ingar á myglusveppum og lærði þar að rækta þá. Í Árósum
kenndi ég grunnatriði og sérkenni sveppa, en út yfir það
sem nauðsynlegt var að kunna til að kenna þessi grunn-
atriði, hef ég eingöngu unnið við skófir.7
Í bókinni birtist mynd af henni að leiðbeina við sveppa-
greiningu í Árósum, og tók hana Jens H. Petersen, samstarfs-
maður hennar, haustið 2003. Í eftirmælum Mehlsen segir
ennfremur:
Í byrjun sjötta áratugarins tók Svanhildur virkan þátt í
að byggja upp tengslanet áhugamanna um sveppafræði
á Árósasvæðinu, og var ómissandi lykilpersóna á mánu-
dagsfundum Sveppafræðifélagsins í húsakynnum háskól-
ans. Hún samdi snemma nokkur drög að greiningarlyklum
fyrir þessa fundi, og kom þannig af stað því mikla verki við
sveppalykla sem enduðu í bókinni Danske Storsvampe.
(Kaupmannahöfn 1990).6
Fléttusöfnun og rannsóknir
Eins og fyrr segir voru fléttur eða skófir (Lichenes) valgrein
Svanhildar við meistarapróf í Höfn og ávallt síðan var fléttu-
söfnun og -rannsóknir helsta áhugamál hennar. Þá hafði
enginn Íslendingur lagt fyrir sig flétturannsóknir, en Daninn
Christian Grønlund o.fl. höfðu kannað fléttuflóru landsins allt
frá 1870 og ritað ýmislegt um hana. Lá því beint við að helga
sig þessu vanrækta sérsviði. Áður var getið ritgerðar hennar
um mosaþembur á Íslandi (1964), þar sem fléttur eru tals-
verður þáttur í gróðrinum.
Á Íslandi safnaði Svanhildur fléttum hvenær sem færi
gafst á árunum 1949 til 1997, og munu íslensk fléttusýni í safni
hennar vera um 2000 talsins. Auk þess safnaði hún fléttum
í Færeyjum og Danmörku, svo og á ferðum þeirra Gunnars
um Balkanskaga þegar hann var að rannsaka slavneskar mál-
lýskur, og meira að segja á Grikklandi og Krít.5
Engin skrá hefur fundist um ritgerðir Svanhildar. Hörður
Kristinsson hefur grennslast fyrir um þær hjá kollega sínum,
Steen N. Christensen, við Botanisk Museum í Kaupmanna-
höfn. Fram kom að Steen og Svanhildur eru samhöfundar
tveggja vísindagreina um fléttur á Krít (2007), og á megin-
landi Grikklands (2009) í þýska tímaritinu Willdenowia.
Byggjast þær að miklu leyti á söfnun hennar, en Steen mun
hafa annast endanlegar nafngreiningar (sjá ritaskrá).
Á meginlandi Grikklands safnaði Svanhildur árin 1976,
1983 og 1991, og á Krít 1987 og 1993. Á Grikklandi voru skráðar
55 nýjar tegundir fyrir landið og 34 nýjar fyrir Krít. Auk þess
er Svanhildur höfundur einnar smágreinar og meðhöfundur
fimm stuttra greina um fléttuflóru Danmerkur í tímaritinu
Graphis Scripta, með Vagni Alstrup, Ulrik Søchting, Steen N.
Christensen o.fl., og byggjast þær að líkindum mest á söfnun
hennar. Ekki hefur fundist grein með hennar nafni um fléttur
í Færeyjum.
Árið 1997 hélt Félag norrænna fléttufræðinga (Nordic
Lichen Society) tólftu samkomu sína á Eiðum, dagana 7.–13.
ágúst. Þátttakendur voru 21, frá Norðurlöndum og Rússlandi,
og þar á meðal var Svanhildur, þá orðin 72 ára. Fyrir fundinn
endurbætti Hörður Kristinsson fléttuskrá sína. Svanhildur
sendi nokkrar athugasemdir við hana í bréfi 19. apríl 1997, og
segir þar meðal annars:
Gunnar og Svanhildur Svane, líklega um 2010. Mynd frá Jóni Olaf Svane.