Iðjuþjálfinn - 2021, Síða 9

Iðjuþjálfinn - 2021, Síða 9
1. tölublað 20219 Einnig þurfti að vinna með eðli hundsins. „Af því að hún er veiðihundur, þá fór maður að ýta undir veiðieðlið af því hún er ofboðslega mikið að sækja í vinnunni, þá tókum við þátt í veiðinámskeiðum og veiðiæfingum. Svo í hlýðninámskeiðum og prófum. Hún er fyrsti hundurinn okkar sem fær að vera upp í sófum og rúmum, hinir hundarnir höfðu ekki fengið það, en ég ætlaðist til af henni að vera í mikilli nálægð við fólk þannig það var eins gott að henni myndi líða vel í því.“ Mikil vinna liggur að baki þjálfuninni en sjálfstæður vilji Skottu er enn til staðar. „Hún er ekkert eins og vélmenni, hún er alveg sinn karakter. Hún gerir þetta af gleði og við erum búin að venja hana við að heimurinn er æðislegur og þetta er æðislegt að vera með okkur fólkinu,“ ítrekar Gunnhildur. Formlegt mat til að verða þjónustuhundur Til að Skotta gæti starfað sem þjónustuhundur fór Gunnhildur með hana í sérstakt skapgerðarmat. „Skotta var fjögurra ára þegar hún fór í matið. Það var mitt mat að hafa hana ekki yngri. Skapgerðarmat er staðlað mat sem atferlisfræðingur framkvæmir ásamt dómara, þjálfara og leikurum. Þá er metið hvort dýrið hafi eiginleika sem taldir eru henta í svona vinnu en þessar aðstæður sem við setjum dýrið í í vinnu geta verið mjög streituvaldandi og það er mjög mismunandi hvernig dýr upplifa aðstæður og bregðast við t.d. ógn eða öðru. Ef það hentar, er talið að hundarnir beri þessa eiginleika sem eru öryggi, félagslyndi og ákveðin ró innra með þeim og geti tekist á við áskoranir án þess að það verði þeim vont eða öðrum. Ef viðbrögð þeirra eru góð, getur þú farið í verklegt próf,“ útskýrir Gunnhildur. Allt tók þetta sinn tíma, allt frá því að Gunnhildur var á ráðstefnunni 2005 þar til Skotta fór í matið árið 2019. „Góðir hlutir gerast hægt, og við vönduðum okkur alveg rosalega vel. Ég var alveg farin að halda á tímabili að þetta yrði ekki. Þessi draumur lá í dvala á meðan ég var að eignast börn og byrja sem iðjuþjálfi en þetta var alltaf á bakvið eyrað og allt sem ég gerði var í áttina að þessu, ég sé það núna. Við vorum svo heppin að Line Sandsted sem heldur utan um námið úti, hún kemur reglulega til landsins og hún getur framkvæmt þetta skapgerðarmat. Ég kláraði námið mitt og svo í kjölfarið kemur hún til landsins, nýtir ferðina og tekur skapgerðarmat á Skottu og á okkur verklegt próf. Þetta gekk allt upp!“. Fundu farveg fyrir vinnuna í Hafnarfirði Nokkur tími leið þar til Gunnhildur fór að hafa Skottu með sér í vinnuna. Þar þurfti að huga að ýmsu, eins og húsnæðinu. „Ég hefði í rauninni getað verið byrjuð fyrr enda hefur viðmótið hjá stjórnendum Æfingastöðvarinnar verið mjög jákvætt gagnvart þessari nálgun en það sem stoppaði mig aðeins af var að mig vantaði hentugt húsnæði. Ég sá þetta ekki alveg gerast á Háaleitisbraut, fleiri þjálfarar með börn í sömu aðstöðunni svo það getur truflað flæðið að annar þjálfari mæti þarna með hund. Hafnarfjarðarbær útvegar Æfingastöðinni húsnæði í gamla íþróttahúsinu við Strandgötu og þar getum við tekið á móti börnum á þessu svæði, þar hafa alltaf verið þjálfarar og svo allt í einu voru engir þjálfarar þar, þannig húsnæðið var tómt. Ég nýtti mína þekkingu úr náminu, fyllti út og vann umsögn um leyfi frá Heilbrigðiseftirlitinu og Hafnarfjarðarbæ og þetta rann í gegn. Enda held ég að Hafnarfjarðarbær sé mjög hundvænn bær, og mannvænn.“ „Ég gat nýtt mikið úr náminu við að sækja um öll leyfin sem þurfti. Ég t.d. skipti húsnæðinu upp í grænt svæði þar sem hundurinn hefur fullt aðgengi, gult svæði þar sem hundurinn er með takmarkað leyfi, fer stystu leið inn og út um sameiginlega innganga, og svo eru rauðu svæðin, það eru klósettin, aðrir íþróttasalir og kaffistofan. Hún er svo böðuð vikulega til að minnka ónæmisvakana í henni, ég uppfylli allar heilsufarskröfur sem eru gerðar og hún er með hundaleyfi,“ segir hún.

x

Iðjuþjálfinn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.