Iðjuþjálfinn - 2021, Page 28
1. tölublað 202128
er þó að nefna að samkomubannið og þær takmarkanir sem því
fylgdu höfðu áhrif á alla nemendur en á ólíkan hátt. Það að mega
ekki stunda sín áhugamál, mæta í skólann eða hitta stóran hluta
af sínum nánustu vinum og fjölskyldu gerði nemendur þreytta,
hluti af þeim fann fyrir námsleiða og erfitt var fyrir einhverja að
halda virkni. Sama má segja um aðra nemendur skólans.
15. mars 2020 var svo fyrsti dagurinn þar sem öll okkar samskipti
við nemendur fluttust yfir á rafræna miðla. Ég færði mína vinnu
líka sama dag yfir á Google Meet. Nemendur og foreldrar stóðu
sig mjög vel í þessum nýju aðstæðum en ég sem iðjuþjálfi þurfti
að hafa mig alla við að mæta þörfum nemenda þar sem veruleiki
þeirra og aðstæður í námi voru nú allt aðrar en áður. Áherslurnar
urðu á andlega líðan, tímastjórnun, virkni og félagsleg samskipti.
Samkomutakmarkanir, grímuskylda og fjarlægðarmörk hafa kennt
okkur ýmislegt og meðal annars það að allir nemendur þurfa á
góðri stoðþjónustu að halda. Þeir þurfa að hafa net sem grípur þá
þegar þeir finna ekki lausnina við sínum námsvanda. Stoðþjónusta
framhaldsskólanna er mikilvægur hluti af framhaldsskólakerfinu
og gerð til þess að styðja við nemendur, bæði í námi og við að
takast á við allar aðrar mögulegar hindranir sem upp geta komið.
Ég og Sigríður Ásta náms- og starfsráðgjafi hittumst grímuklæddar
í byrjun vorannar 2021 og mótuðum sameiginlega sýn á teymis-
vinnu okkar með velferð, virkni og valdeflingu nemenda í forgrunni.
Við fórum yfir okkar fagbakgrunn og hvaða verkfæri við gætum
nýtt í vinnu okkar með nemendum. Í Menntaskólanum á Tröllaskaga
er vendikennsla og því fá allir nemendur kennsluefni og verkefni
vikunnar frá kennurum á mánudagsmorgni, sem getur verið lesefni
og margmiðlunarefni af ýmsu tagi ásamt kennslumyndböndum.
Öllum verkefnum vikunnar ber nemendum að skila fyrir sunnu-
dagskvöld og fá þeir ekki frest á verkefnaskilum. Kennarar fara
síðan yfir þessi verkefni í vikunni á eftir og skila nemendum leið-
sagnarmati á þriggja vikna fresti. Því er auðvelt fyrir nemendur og
forráðamenn að fylgjast með stöðu í hverjum áfanga fyrir sig.
Af þessu leiðir að við ákváðum að fá fyrsta tímann með
staðnemendum á mánudagsmorgnum í byrjun hverrar viku.
Þar fengu þeir leiðbeiningar og hvatningu eftir þörfum, stutt
verkefni og kynningu á ýmsum verkfærum sem þeir gætu nýtt
sér til að bæta námsárangur sinn, s.s. námstækni, líðan og
daglega virkni. Verkefni nemenda fólu einnig í sér markmiða-
setningu og endurmat á námsframmistöðu en auðvelt var að
tengja þau við leiðsagnarmat kennara.
Vinna okkar var í stöðugri þróun alla önnina og þannig
þéttum við netið til að grípa nemendur sem áttu í basli. Við
buðum þeim upp á persónulega aðstoð vikulega, greindum
stöðu þeirra og veittum þeim aukinn stuðning og eftirfylgni.
Í upphafi fannst einhverjum nemendum ekki tilgangur með
mánudagstímanum þar sem þeir upplifðu að þeir fengju
ekki einingar fyrir þá. Hins vegar er það svo að vinnuframlag
þeirra í þessum tímum er hluti af vinnuframlagi þeirra í öðrum
áföngum, og reiknast þannig inn í heildarfjölda eininga sem
hvert og eitt þeirra tekur.
Óformleg mæling okkar á árangri þessa tilraunaverkefnis er
mjög góð og upplifun nemenda almennt jákvæð. Það er einnig
mat skólans að nemendur sem hafa átt stirt um nám, eru í
brottfallshættu og einnig nemendur með tilfinningavanda, hafi
bæði valdeflst og uppskorið betur námslega en annars hefði
mögulega orðið.
Næsta vetur höldum við áfram að þróa þessa þjónustu, við
verðum áfram með fyrsta tíma í byrjun hverrar viku fyrir alla
staðnemendur þar sem áhersla er lögð á að þau skipuleggi
nám sitt, kynnist ýmsum námsverkfærum og námstækni sem
gagnast við nám og öðlist aukna trú á eigin áhrifamátt, ábyrgð
og sjálfstæði. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það alltaf
nemendurnir sjálfir sem vinna vinnuna, sinna sínu námi og
standa vonandi eftir námið betur tilbúnir að takast á við það
sem þeir ákveða að leggja fyrir sig í framtíðinni.
Það er okkar reynsla að iðjuþjálfar og náms- og starfsráðgjafar
líkt og kennarar hafa breiðan þekkingarfræðilegan grunn til að
leiða verkstjórn náms. Nálgun iðjuþjálfa og náms- og starfsráð-
gjafa er á menntunarfræði og iðju þar sem kastljósinu er varpað
á samspil virkni, valdeflingar og námstækni. Þar kemur saman
dýrmæt og breið þekking og nálgun á hvern og einn nemenda
út frá styrkleikum hans. Þannig gefst líka tækifæri til að tengja
enn frekar iðju við áhugasvið þegar kemur að þrautseigju í námi,
og nálgast hvern og einn nemanda út frá hans stöðu. Stefnan er
þannig sett á að halda áfram að þróa samstarf þessara tveggja
fagstétta innan framhaldsskólans og skapa þannig breiðari fag-
lega nálgun á nemendur og nám þeirra.