Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.06.2021, Blaðsíða 25

Læknablaðið - 01.06.2021, Blaðsíða 25
L ÆK N A BL AÐIÐ 2021/107 293 Y F I R L I T heilbrigðisstéttum eftir þörfum. Í verkjateymum er unnið eftir lífsálfélagsfræðilega módelinu. Þar er jöfnum höndum unnið með líkamlega, tilfinningalega og félagslega þætti sjúkdómsins. Eitt það mikilvægasta er fræðsla fyrir sjúklinginn og aðstand- endur um orsakir verkjanna, hvaða meðferð er raunhæf og hverjar horfur eru. Sjúkraþjálfun skiptir miklu máli í endurhæfingu sjúklinga með CRPS. Markmiðið er að endurheimta hreyfigetu og almenna færni. Nálgunin í upphafi er með öðrum áherslum en eftir beinbrot eða aðra áverka. Það þarf að fara hægt af stað með þjálfun, taka mið af stöðu einkenna og hugsanlega byrja þjálfun á heilbrigðum út- lim. Þannig er mælt er með jafnlengdarsamdráttar (isometric) álagi í byrjun. Lögð er áhersla á burð eða tog á útliminn og að nota útliminn með lágmarks hreyfingu um liðamót til að byrja með, en síðar tekur við stigvaxandi álag og styrking hreyfiferla.6,48 Um leið og það er mögulegt er hafin almenn þrek- og úthaldsþjálfun.49 Iðjuþjálfun er mikilvægur hluti meðferðar, með áherslum á endurheimt athafnagetu. Sársaukinn sem fylgir heilkenninu er oft það mikill að fólk hlífir viðkomandi útlim. Mikilvægt er samt að hefja þjálfun þrátt fyrir sársauka, oft með æfingum sem eru endurteknar, gjarnan oft á dag. Vegna snerti- viðkvæmninnar er beitt aðlögunarmeðferð (desensitization). Í byrj- un beinist meðhöndlun að heilbrigðum útlim og húð, aðlægt hinu sjúka svæði og síðar er húð á hinu viðkvæma svæði örvuð. Þarna er æfð snerting á mjúku, grófu og hörðu yfirborði, sem og örvun með kulda og hita.48 Oft þarf að hvetja fólk til að nota viðkomandi útlim. Ef einkenn- in eru einkum í ganglim gæti þurft gönguþjálfun og aðlögun með sérsniðnum skóm. Stundum er þörf á að draga úr bjúg á útlim, sem er gert með þrýstingsmeðferð og haldið við með teygjusokkum eða teygju- umbúðum. Þá þarf að huga að endurheimt starfsgetu og aðkomu að vinnumarkaði. Sjúklingar eru hvattir til að sinna áhugamálum sem fyrr.48 Hluti vanda verkjasjúklinga með CRPS er breytt líkamsskynj- un eða gaumstol. Þannig skynjar fólk ekki hina veiku hlið á sama hátt og þá frísku. Í þessu ástandi er talið að breytingar hafi orðið í miðtaugakerfi, á svæðum sem hafa að gera með sársaukaskynjun og hreyfingar viðkomandi útlims.32 Þegar kemur að meðferð við gaumstoli er ein nálgun að fá sjúklinginn til að hugsa sér að hann sé að nota viðkomandi útlim. Hann horfir til dæmis á röð mynda af handarhreyfingu á sama útlim og er með heilkennið, og hugsar sér að hann noti höndina eins og myndirnar sýna. Síðar er farið að hreyfa hendina á sama hátt. Þannig virðast opnast á ný brautir hreyfinga og sjónrænnar skynjunar í heilaberki, sem er ein af forsendum bata í langt gengnu verkjaheilkenni.32,48,50,51 Þá er möguleiki að nota svokallaða speglameðferð, en þar er veiki útlimurinn falinn á bak við spegil og horft er á heilbrigða útliminn hreyfa sig í speglinum. Sjúklingurinn horfir á spegil- myndina og hugsar sér að hann sé að hreyfa veika útliminn eins og þann heilbrigða. Síðar er sjúklingur látinn hreyfa veika útlim- inn samtímis hinum fríska. Meðferðin dregur úr verkjum með því að auka hreyfigetu og þá minnkar snertiviðkvæmni og bjúgur (mynd 3).8,51,52 Tilfinningalegur vandi er oft til staðar hjá verkjasjúklingum. Á stundum var vandinn til staðar áður en verkirnir komu til. En verkir valda einnig tilfinningalegum viðbrögðum, svo sem depurð og kvíða. Verkir eru raunar oft það óþægilegir að stutt verður í hamfarahyggju og mikinn ótta. Aðkoma sálfræðinga skiptir miklu máli fyrir meðferð sjúklinga með CRPS. Meðferðin byggir á gagnreyndum aðferðum sálfræðinnar, svo sem hugrænni atferlismeðferð við þunglyndi og kvíða.53 Margir verkjasjúklingar eru einnig að takast á við áfallastreitu sem þarf að meðhöndla.54 Læknir verkjateymis metur hvort þessir sjúkdómar eru af þeim þunga að hefja beri lyfjameðferð, til dæmis með þunglyndislyfj- um. Svefnvandi er einnig algengur hjá verkjasjúklingum og það er mikilvægt fyrir framhaldið að meðhöndla hann markvisst, til dæmis með lyfjum eins og þríhringja þunglyndislyfjum. Þá er beitt hugrænni atferlismeðferð (HAM) við verkjum sem er gagnreynd. Gengið er út frá að slík nálgun nýtist einnig CRPS- sjúklingum.55 Í seinni tíð hefur þróast svokölluð Acceptance and Commitment Therapy, eða ACT-meðferð, þar sem fólk lærir að gangast við verkjunum og sínum tilfinningum að vissu marki.56 Þá er mælt með að fólk reyni að greiða úr samskiptavanda ef hann er hamlandi, til dæmis innan fjölskyldu. Ofannefndar ráð- leggingar eru notaðar við verkjaendurhæfingu, en tvíblindar rannsóknir á meðferðinni og nálguninni við CRPS liggja ekki fyr- ir.57 Rannsóknir hafa verið gerðar á lífrænni endurgjöf (biofeedback), oft með viðunandi árangri.58 Sérhæfð meðferð á verkjagöngudeild Erfiðustu tilfelli staðbundins verkjaheilkennis eru oft meðhöndl- uð í sérhæfðum verkjateymum, sem hafa myndast við stærri sjúkrahús, í tengslum við svæfingarlækna og samstarfsfólk þeirra. Þar er beitt sérhæfðum meðferðarúrræðum. Ein slík leið er að gefa lyf í mænuvökva (intrathecalt) með þar til gerðum dælubúnaði; oft er hér um að ræða Baklofen, einkum ef mikil síspenna (spasticity) eða stífleiki (dystonia) er til staðar í útlim. Þessu hefur eingöngu verið lýst sem einstaka sjúkratilfelli eða örfáum tilfellum, en þessi aðferð hefur verið notuð hérlendis með nokkrum árangri. Innanbasts (intrathecal) lyfjameðferð með öðrum lyfjum, svo sem Clónidín, Marcaín, Morfín eða Metýlprednisólón, hefur einnig verið lýst.59 Talið er að í heilkenninu sé miðlæg verkjanæming tengd breyt- ingu á virkni svokallaðs NMDA-viðtaka. Þannig er mögulegt að meðhöndla CRPS með svæfingalyfinu ketamíni í æð. Í tvíblindri rannsókn dró það úr einkennum á tölfræðilega marktækan hátt. Aukaverkanir voru ásættanlegar.60 Hér á landi er ketamíngjöf tengd við gjöf á Lidocaín í æð á sama tíma. Deyfingar á semjustofni (truncus sympathicus eða ganglion stellat- um) hefur löngum verið grundvallarmeðferð við CRPS, en í rann- sóknum seinni tíma er sú meðferð ekki talin vera að skila þeim árangri sem stefnt var að.34 Endurteknar rannsóknir hafa sýnt að raförvun bakhorna mænu (dorsal column stimulation) er að gagn- ast.61 Þetta er gert með rafvirkum streng sem er lagður að aftara mænuhorni í mænugöngum. Mænuhornið er síðar örvað með rafstraumi. Búnaðurinn sem er notaður er ekki ósvipaður hjarta- gangráði, stýrihylki með rafhlöðu er sett undir húð með streng í mænugöng. Meðferðin dregur úr verkjum og eykur lífsgæði.61 Sú staða getur komið upp að gera þurfi aðgerð á útlim sem er

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.