Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 23

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 23
23LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - JÚLÍ 2021 brjóstagjafarinnar svo þær geti verið viðbúnar þegar upp koma vandamál (Alianmoghaladam o.fl., 2017; Elín Ösp Gísladóttir og Jónína Einars- dóttir, 2013; Robinson og Doane, 2017). Elín Ösp Gísladóttir og Jónína Einarsdóttir (2013) gerðu rannsókn á viðhorfi fjórtán íslenskra mæðra til fræðslu og ráðgjafar um brjóstagjöf. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að konunum þótti mjög mikilvægt að fá fræðslu um brjóstagjöf á meðgöngunni. Þær nefndu að auk þess að fá grunnfræðslu um brjósta- gjafastellingar og líffræðilega virkni brjóstanna hefðu þær einnig viljað fá vitneskju um að það gætu ekki allar konur gefið brjóst og sum börn myndu sjúga vitlaust, að brjóstagjöfin hefði áhrif á alla fjölskylduna og hún gæti valdið svefnleysi og þreytu hjá þeim. Misræmi í upplýsingum var talið vísbending um skort á áreiðanlegri þekkingu og olli konunum hugarangri og vantrú. Rannsóknir sýna að barnshafandi konur eiga erfitt með að gera sér í hugalund hvernig brjóstagjöf eftir fæðingu barnsins mundi koma til með að ganga fyrir sig. Margar telja að brjóstagjöf sé náttúrulegt ferli og komi bara að sjálfu sér en brjóstagjöfin reynist flestum konum erfiðari í byrjun en þær bjuggust við (Edwards, Jepson og McInnes, 2018; Elín Ösp Gísladóttir og Jónína Einarsdóttir, 2013; Hall, McLelland, Gilmour og Cant, 2014; Oosterhoff, Hutter og Haisma, 2014). Í eigindlegri rannsókn Kronborg, Harder og Hall (2015) meðal danskra frumbyrja á upplifun þeirra af brjóstagjöf fyrstu mánuðina upplifðu konurnar mikið álag í upphafi brjóstagjafarinnar. Samtímis voru þær að læra móðurhlutverkið og að gefa barninu brjóst. Það var þeim áskorun að læra á þarfir barnsins og þær upplifðu misvísandi skilaboð frá ljósmæðrum. Stuðningur ljósmóður á fyrstu vikum brjóstagjafarinnar getur skipt sköpum fyrir konur til að komast yfir þá erfiðleika sem koma upp og eiga farsæla brjóstagjöf með barni sínu (Hall o.fl., 2014; Edwards o.fl., 2018). Í kanadískri rannsókn voru konur sem höfðu fætt fullburða einbura beðnar að lýsa upplifun sinni af öllum stuðningi sem þær höfðu fengið fyrstu sex mánuðina í brjóstagjöfinni. Faglega færni ljósmæðra og reynslu upplifðu konurnar sem stuðning, einnig ef aðstoðin var aðgengi- leg þegar þær þurftu á að halda, hún virkaði til að leysa vandamál og að ljósmæður sýndu konunum og börnum þeirra væntumþykju (Chaput, Adair, Nettle-Aguirre, Musto og Tough, 2015). Í rannsókn Larsen og Kronborg (2013) á upplifun frumbyrja sem urðu að hætta brjóstagjöf fyrir sex vikna aldur barnsins höfðu allar konurnar ætlað sér að hafa börn sín á brjósti og það var konunum erfitt að taka þá ákvörðun að hætta brjóstagjöf. En ákvörðunin var tekin með hagsmuni barnsins í huga. Einnig þótti konunum erfitt að útskýra það að vera að gefa pela. Niðurstöður fleiri rannsókna sýna að það er konum þungbært að þurfa að hætta brjóstagjöf fyrr en þær ætluðu sér. Konum finnst þær vera að bregðast hlutverki sínu sem góðar mæður og eru litnar hornauga bæði meðal heilbrigðisstarfsfólks og annarra kvenna (Hvatum og Glavin, 2016; Sunna Símonardóttir og Helga Gottfreðsdóttir, 2019). Í eigind- legri rannsókn Khajehei, Swain og Wen (2020) meðal sextán frumbyrja kemur fram að jákvæð reynsla kvennanna af brjóstagjöf jók sjálfstraust þeirra almennt á meðan neikvæð reynsla hafði neikvæð áhrif á sjálfs- traust þeirra. Það sem virkaði jákvætt fyrir sjálfstraust kvennanna voru árangursrík samskipti við maka, ættingja og heilbrigðisstarfsfólk, þeirra eigin þekking og jákvæð sjálfsmynd þeirra. Þeir þættir sem greindir voru neikvæðir fyrir sjálfstraust kvennanna var þekkingarskortur, ef þær voru óundirbúnar og að hafa ekki stjórn á hlutum. Þessi grein byggir á meistararannsókn í heilbrigðisvísindum sem framkvæmd var við Háskólann á Akureyri en markmið hennar var að auka þekkingu og dýpka skilning á því hvernig reynsla það er fyrir konur að vera með barn á brjósti, ásamt því að kanna hvaða þættir í störfum fagfólks og umhverfi kvennanna hafa áhrif á upplifun þeirra. RANNSÓKNARAÐFERÐ Rannsóknaraðferð Vancouver-skólans í fyrirbærafræði var valin til að svara rannsóknarspurningunni. Fyrirbærafræðin er heimspekileg fræða- sýn og er spurt um merkingu til að fá fram kjarnann í reynslu fólks (Sigríður Halldórsdóttir, 2013). Með Vancouver- skólanum er leitast við að auka skilning á mannlegum fyrirbærum og er þetta mikið notuð rann- sóknaraðferð í mennta- og heilbrigðisvísindum (Halldórsdóttir, 2000). Rannsóknarferli Vancouver-skólans í fyrirbærafræði er í 12 þrepum en á hverju þrepi fer rannsakandinn í gegnum vitrænt vinnuferli aðferðar- innar sem felur í sér að vera kyrr, að ígrunda, að koma auga á, að velja, að túlka, að raða saman og að sannreyna (Sigríður Halldórsdóttir, 2013). Í upphafi rannsóknarferlisins, að fengnum leyfum frá fram- kvæmdastjóra hjúkrunar og framkvæmdastjóra lækninga hjá Heil- brigðisstofnun Norðurlands ásamt leyfi yfirhjúkrunarfræðings svæðis á Akureyri, var rannsóknin kynnt með tölvupósti fyrir deildarstjóra í ung- og smábarnavernd Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri. Ljós- mæður og hjúkrunarfræðingar í ung-og smábarnavernd voru beðnir um að kynna rannsóknina fyrir þjónustuþegum sínum sem voru með eldra en sex mánaða gamalt barn og höfðu byrjað brjóstagjöf eftir fæðingu. Á þennan hátt gáfu sautján konur kost á sér til þátttöku í rannsókninni og voru viðtöl tekin við fjórtán þeirra. Fyrir viðtölin fengu þátttakendur ítar- legt kynningarbréf á rannsókninni þar sem einnig var tekinn fram réttur þeirra til að hætta þátttöku hvenær sem er í rannsóknarferlinu, en enginn þátttakandi nýtti sér þann kost. Tekið var eitt djúpviðtal við hvern þátt- takanda sem öll byrjuðu á spurningunni: Hver er upplifun þín á því að vera með barn á brjósti? Stuðst var við opinn viðtalsramma í viðtölunum, með það fyrir augum að ná fram öllum þáttum upplifunar þátttakenda ásamt áhrifum frá heilbrigðisstarfsfólki og öðrum aðilum í nærumhverfi þeirra á upplifunina. Þemagreining var notuð við greiningu gagna og þemu fundin sem lýstu upplifun kvennanna. Gerð voru greiningarlíkön fyrir upplifun hvers þátttakanda og eitt heildargreiningarlíkan fyrir alla þátttakendur. Heildargreiningarlíkanið var síðan borið undir fimm þátt- takendur. Þátttakendur Þátttakendur í þessari rannsókn voru 14 konur sem nutu þjónustu ung- og smábarnaverndar Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri. Meðal þátt- takenda voru fjórar frumbyrjur og tíu fjölbyrjur; átta konur með annað barn og tvær með þriðja barn. Þær sögðu bæði frá nýlegri reynslu af brjóstagjöf, en einnig frá reynslu í tengslum við fyrri brjóstagjafir. Þannig var um 26 mismunandi brjóstagjafasögur að ræða. Allir þátttak- endurnir áttu það sameiginlegt að hafa ákveðið á meðgöngunni að reyna brjóstagjöf eftir fæðingu barnsins. Allar konurnar voru í hjónabandi eða sambúð með barnsföður sínum. Ein kvennanna hafði farið þrisvar sinnum í keisaraskurð og önnur í keisaraskurð með fyrsta barn en fætt seinna barnið í gegnum leggöng í þetta sinn, aðrar konur fæddu eðlilega. Konurnar voru á aldrinum 18-36 ára, meðalaldur var 29 ára. Sex konur höfðu lokið háskólanámi eða voru í námi, fimm þeirra höfðu lokið fram- haldsskóla eða voru í námi og þrjár voru með grunnskólapróf. Börnin sem konurnar voru með á brjósti í núverandi brjóstagjöf voru á aldrinum sex til 20 mánaða. Réttmæti og áreiðanleiki Til að auka réttmæti og áreiðanleika rannsóknarinnar var áhersla lögð á að fylgja nákvæmlega því rannsóknarsnið sem valið var. Leitast var eftir fjölbreytileika þátttakenda bæði hvað varðar aldur þeirra og reynslu varðandi brjóstagjöf. Þannig voru í hópnum konur á mismunandi aldri, með mismunandi fjölda brjóstagjafa að baki og einnig mislanga reynslu af brjóstagjöf. Í gagnagreiningu var lögð áhersla á að finna það sem var sameiginlegt í reynslu þátttakenda ásamt því að koma auga á þá þætti sem einkenndu upplifun hvers þeirra (Sigríður Halldórsdóttir og Sigurlína Davíðsdóttir, 2013). Siðfræði Haft var samband við Vísindasiðanefnd sem taldi ekki þurfa leyfi fyrir rannsókninni og Persónuvernd gerði ekki athugasemdir við framkvæmd rannsóknarinnar. Aflað var upplýsts samþykkis hjá konunum og rík áhersla lögð á þeirra rétt til að hafna þátttöku og að þær gætu dregið sig út úr rannsókninni ef þær óskuðu þess. Við gagnaöflun og gagnagrein- ingu var ávalt fylgt ströngustu reglum um nafnleynd og lögð rík áhersla á rétt þátttakenda varðandi val um þátttöku og heimildar til að hætta þátt- töku ef þeir óskuðu þess. NIÐURSTÖÐUR Mikill samhljómur var í frásögnum kvennanna varðandi upplifun þeirra af brjóstagjöfinni, en niðurstöður sýndu yfirþemað, löngun til að hafa barnið á brjósti þrátt fyrir ýmsar áskoranir. Þrjú aðalþemu sem voru

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.