Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 24
24 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - JÚLÍ 2021
greind; undirbúningur á meðgöngunni, með þrem undirþemu; eðli-
legt framhald af meðgöngunni, aðstæður og fyrri reynsla og að leita
sér upplýsinga; fyrstu vikurnar, með fimm undirþemu; verkir og sár,
nauðsynlegt að fá aðstoð, bindandi, ég gat ekki nært barnið mitt og
barnið sjálft. Síðasta aðalþemað nefndist svo að vera sátt við brjósta-
gjöfina eins og hún er en þar voru greind þrjú undirþemu; þá fór þetta að
verða svona einfaldara, áhrif umhverfis og að vera sátt við brjóstagjöfina
þótt eitthvað verði eftir. Heildargreiningarlíkanið má sjá á mynd 1.
Löngun til að hafa barnið á brjósti þrátt fyrir ýmsar áskoranir
Yfirþemað vísar til þess að konurnar áttu það sameiginlegt að vilja
hafa börn sín á brjósti, þrátt fyrir ýmsar áskoranir. Þær töldu brjósta-
gjöfina vera eðlilegt framhald af meðgöngunni, flestar þeirra undir-
bjuggu brjóstagjöfina því ekki sérstaklega. Fyrstu vikurnar einkenndust
af upplifun kvennanna af áskorunum sem síðar minnkuðu þegar leið á
brjóstagjöfina. Þær þurftu á stuðningi og leiðbeiningu að halda í upphafi,
bæði faglegum frá ljósmæðrum, en einnig frá maka sínum. Sumar
kvennanna komust ekki yfir erfiðleikana og hættu brjóstagjöf fyrr en þær
höfðu ætlað sér, en þær sem náðu að yfirstíga byrjunarerfiðleikana og
voru með börnin á brjósti í nokkra mánuði voru mjög þakklátar fyrir það
og þeim fannst þær hafa gert rétt að þrauka.
Undirbúningur á meðgöngunni
Fyrsta aðalþemað nefndist undirbúningur á meðgöngunni. Þar voru
greind þrjú undirþemu, eðlilegt framhald af meðgöngunni, aðstæður
og fyrri reynsla og að leita sér upplýsinga. Þetta þema lýsti því hvernig
konurnar undirbjuggu brjóstagjöfina, á hvaða hátt þær mátu aðstæður
sínar og reynslu og hvar þær leituðu sér upplýsinga.
Fyrsta undirþemað nefndist eðlilegt framhald af meðgöngunni, sem
lýsti viðhorfi kvennanna til brjóstagjafarinnar. Frumbyrjur töluðu um
hvað þeim hefði fundist ljúft og fallegt að horfa á aðrar konur, vinkonur,
systur eða mæður sínar gefa brjóst og héldu jafnvel að brjóstagjöf væri
þannig alveg frá upphafi. Þrátt fyrir það höfðu þær sjaldnast haft neinn
áhuga á umræðu um brjóstagjöf og vandamál henni tengdri í vinkvenna-
hópi fyrir sína fyrstu meðgöngu, sem hins vegar breyttist á meðgöngunni.
Sunna lýsir viðhorfi sínu þannig:
Ég hélt að þegar barnið fæðist þá bara fer það á brjóst og það
bara gengur upp, skilurðu, af því að þetta er svo náttúrulegt,
þannig lagað séð, af því að við erum gerðar fyrir þetta, þá hélt
ég að þetta væri ekkert mál.
Flestar kvennanna tóku það fram að þær vissu að brjóstagjöf gengi
ekki alltaf upp og þær ætluðu ekkert að svekkja sig á því ef það yrði
raunin hjá þeim.
Annað undirþemað var greint aðstæður og fyrri reynsla, en aðstæður
kvennanna og fyrri reynsla þeirra hafði áhrif á undirbúning þeirra
fyrir brjóstagjöfina á meðgöngunni. Gjarnan hafði erfið reynsla af
fyrri brjóstagjöf þau áhrif að konurnar undirbjuggu sig betur á þessari
meðgöngu. Þær lásu sér meira til um brjóstagjöf og vandamál henni
tengdri. Fræðsla um brjóstagjöf fékk aukið vægi í meðgönguverndinni,
einnig fengu þær oft sérstaklega góðan stuðning fyrst eftir fæðinguna.
Gjarnan höfðu þær ekki neinar væntingar um farsæla brjóstagjöf í
þetta skiptið og þær töluðu um að þær hafi reynt brjóstagjöf núna þar
sem aðstæður þeirra væru aðrar en þegar þær voru með eldra barn sitt á
brjósti. Það kom líka fyrir að þær höfðu væntingar um að önnur brjósta-
gjöf gengi betur þar sem þær höfðu verið með barn á brjósti áður.
Reynsla kvenna í nærumhverfi þeirra, mæðra, vinkvenna og systra
hafði mikil áhrif á væntingar þeirra til farsællar brjóstagjafar. Jákvæð
reynsla kvenna í nærumhverfinu hafði þau áhrif að konurnar bjuggust
frekar við farsælli brjóstagjöf og öfugt. Elva fékk sína vitneskju um
brjóstagjöf í uppeldinu og trúði því að eftir byrjunarerfiðleikana myndi
brjóstagjöfin ganga vel en hún segir svona frá: „... í rauninni bara frá
mömmu sko [...] hún var pínu belja sko [hlær við] eða þú veist einhvern
veginn henni gekk rosalega vel með okkur öll systkinin [á brjósti].“
Ein kvennanna þurfti að undirbúa sig andlega á meðgöngunni fyrir
brjóstagjöfina þar sem hún missti mikið hár í þeirri fyrri. Þetta var það
sem hún kveið mest fyrir þegar hún byrjaði brjóstagjöf í þetta skiptið.
Þriðja undirþemað nefndist að leita upplýsinga og fá stuðning en þar
er lýst reynslu kvennanna af þeirri fræðslu sem þær fengu í meðgöngu-
verndinni og hvar þær leituðu eftir viðbótarupplýsingum. Sumar
konurnar töluðu um að þær hefðu verið of uppteknar í skóla eða vinnu
til að sækja þau námskeið sem í boði voru, en stundum hafði gleymst
í meðgönguverndinni að segja þeim frá námskeiðunum. Allar konurnar
fundu fyrir því í meðgönguverndinni að lögð var áhersla á brjóstagjöf.
Fjölbyrjur fundu fyrir kærkominni viðhorfsbreytingu meðal ljósmæðra
í meðgönguvernd þar sem áður var lögð ofuráhersla á að öll börn væru
eingöngu á brjósti og ekkert annað kæmi til greina. Núna fannst þeim
þetta vera þeirra val. Þær töluðu einnig um að fyrri reynsla þeirra hafi
hjálpað þeim að meta þá þætti í fræðslunni sem þeim fundust hjálplegir.
Fræðslan sem konurnar fengu í meðgönguverndinni um brjóstagjöf
var lítil og yfirleitt í einum af síðustu tímunum og þær voru misánægðar
með hana. Helst fannst þeim vanta fræðslu um hvernig ætti að leggja
barnið rétt á brjóst og það sem þær gætu búist við í upphafi brjóstagjaf-
arinnar. Birna leitaði ekki eftir fræðslu á sinni fyrstu meðgöngu þegar
hún var 17 ára, en hefði viljað fá meiri fræðslu. „... [mér] fannst kannski
vanta þá líka í mæðraverndina að fylgja því betur eftir af því ég var
ekkert að undirbúa mig, þetta var ekkert mál, ég hafði engar áhyggjur af
þessu. Kannski fullvissa sig um að maður viti samt eitthvað.“
Þær voru ánægðar að fá að vita hvar þær gætu sótt sér fræðslu, þær
gátu þá fundið fræðslu ef þær þurftu á að halda. Ein kvennanna þjáðist
af miklum meðgöngukvíða framan af meðgöngunni sem varð til þess að
hún forðaðist allt sem kæmi eftir meðgönguna.
Fyrstu vikurnar
Annað aðalþemað nefndist fyrstu vikurnar sem einkenndust nokkuð af
erfiðleikum, þörf fyrir stuðning og leiðsögn, áhyggjum af því að barnið
fengi ekki nóg en líka af ánægjulegum samskiptum við barnið og auknu
sjálfstrausti. Öllum konunum sem tóku þátt í þessari rannsókn fannst
brjóstagjöfin erfið í upphafi og bindandi og sumar töluðu um að eftir
erfiða meðgöngu þá væri erfitt að annast nýfætt barn og stundum hefðu
þær verið að gefast upp vegna endurtekinna vandamála sem upp komu.
Öllum fannst samt þess virði að leggja þetta á sig fyrir barnið en einnig
af því að brjóstagjöfin var líka notaleg og þægileg.
Fyrsta undirþemað sem var greint verkir og sár lýsir erfiðleikum á
fyrstu dögum brjóstagjafarinnar og tengist það að einhverju leiti þeim
líkamlegu breytingum sem konurnar upplifðu eftir fæðinguna.
Það náttúrulega er ótrúlega merkilegt hvað líkami manns breyt-
ist mikið og ég man bara þegar ég var komin heim [...] þegar
allt í einu brjóstin verða bara risa stór, full af mjólk, að ég fékk
bara áfall þegar ég leit í spegil bara af því að ég hafði aldrei séð
brjóstin á mér svona stór hehehehe [...] þetta kom mjög mikið
aftan að mér (Bella).
Þær konur sem fengu sár á geirvörturnar voru í miklum erfiðleikum
með að setja börnin á brjóst. Þær grétu í hverri einustu brjóstagjöf á
meðan sárin voru, en gerðu það engu að síður svo barnið fengi brjósta-
mjólk. Í rauninni þurfti ekki sár á geirvörtum til, flestar konurnar fundu
fyrir sársauka í geirvörtunum tveimur til þremur dögum eftir fæðinguna.
Ein þeirra líkti því við að brjóstin væru stungin með hnífi, og það kom
fyrir að þær veltu fyrir sér af hverju konur legðu þetta á sig. Kata mjólk-
aði sig í fjóra mánuði eftir fyrstu fæðinguna þrátt fyrir að vera með sár á
báðum geirvörtum aðeins til að barnið fengi móðurmjólkina.
Magga fékk sár á geirvörtu strax eftir fæðinguna og í framhaldinu
sýkingu og stíflur sem hún reyndi að nudda úr en allt kom fyrir ekki og
eftir nokkurra vikna erfiðleika var henni ráðlagt að hætta brjóstagjöf og
brjóstin voru þurrkuð upp. Þetta var henni lengi virkilega erfitt þar sem
Mynd 1 Heildargreiningarlíkan