Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Side 26
26 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - JÚLÍ 2021
þær ætluðu sér í upphafi. Gegnumgangandi var að þeim fannst baráttan
við erfiðleikana í upphafi margfalt þess virði þegar upp var staðið.
Fyrsta undirþemað nefndist þá fór þetta að verða bara svona
einfaldara. Konurnar lýstu því hvernig brjóstagjöfin varð þægilegri og
einfaldari þegar á leið. Kvíðinn yfir því að hafa næga mjólk fyrir barnið
var ekki eins yfirþyrmandi. Þær lýstu því hversu notalegar stundir þær
áttu með barninu á meðan á brjóstagjöfinni stóð og nándin við barnið
var þeim mikilvæg. Margar þeirra upplifðu einnig brjóstagjöfina róandi
og þægilega. „Þetta er svo róandi [...] það er svo þægilegt ef það er eitt-
hvað að pirra þau þá sækja þau bara í brjóstið og maður getur huggað
þau þannig.“ (Sara) Sumar þeirra sögðu frá líkamlegum og andlegum
áhrifum hormóna í brjóstagjöfinni sem kölluðu fram sælutilfinningu hjá
þeim. Sunna lýsir vel líðan sinni:
Einmitt þessi tilfinning þegar maður er nýbúinn í ræktinni eða
búin að hreyfa sig þá er maður bara eitthvað aahh hvað þetta
er gott, ánægð með sjálfa mig og svona pínu vellíðan, ég fæ
svona pínu þannig tilfinningu fyrst þegar ég var að gefa brjóst.
Annað undirþema, áhrif umhverfis, lýsir þeim áhrifum sem fagað-
ilar og nærsamfélag höfðu á reynslu kvennanna af brjóstagjöf. Allar
konurnar töluðu um nauðsyn þess að fá stuðning fagaðila og í nærsam-
félaginu, hvort sem það var til þess að halda brjóstagjöfinni áfram eða
þær höfðu ákveðið að þetta væri komið gott og þær ætluðu að hætta.
Konunum fannst mikilvægt að fá hrós frá ljósmæðrum og hjúkrunar-
fræðingum í ungbarnaverndinni. Sunna sagði: „Hún meira að segja
bara klappaði mér bara sérstaklega á bakið nokkrum sinnum þegar
ég kom í skoðun með hann: „Ha, þú ert með svo frábæra mjólk,“ og
ég bara: „Já geggjað“.“ Upplifun Möggu var að í ungbarnaverndina
vantaði að hugsa um móðurina: „Það var alltaf allt svo eðlilegt. Það er
eðlilegt að gráta eftir fæðinguna, að líða illa og vera með verki og því
þarftu ekki að hafa áhyggjur.“
Vinkonur, mæður, tengdamæður og ömmur höfðu áhrif á reynslu
kvennanna af brjóstagjöfinni. Þær fundu að bæði væri í lagi með börn
sem ekki höfðu verið á brjósti, en einnig fundu þær þrýsting um að vera
með börn sín á brjósti. Oft leituðu þær ráða hjá mæðrum og vinkonum
sínum sem reyndust þeim vel. „Það er gott að geta leitað eftir ráðum
og stuðningi, en það getur líka verið jafn vont að fá alls konar ráð,
viðhorf og visku [óumbeðið].“ (Rut)
Margar konurnar nefndu að þeim hafi verið sagt að allar mæður geti
haft börn sín á brjósti og ef það gengi ekki þá þyrfti bara að reyna betur.
Þetta kom sérstaklega illa við þær konur sem gátu ekki haldið brjósta-
gjöf áfram og upplifðu þær skömm og fannst þær vera mislukkaðar.
Bella lýsir upplifun sinni:
Ég held að skömmin komi svona þegar, þú veist, það er fólk í
heilbrigðisstéttinni sem segir bara: „Það geta allar konur gefið
brjóst,“ og svo geturðu það ekki að [...] þá náttúrulega upplif-
irðu það eins og það sé eitthvað að þér, en ekki bara að það sé
kannski ekki öllum gefið.
Konurnar lýsa mismunandi viðbrögðum nærumhverfisins gagnvart
brjóstagjöf þeirra. Magga upplifði mjög blendnar tilfinningar og var
ekki sátt þegar hún þurfti að hætta brjóstagjöf og langaði hana ekki að
hitta aðrar mæður sem voru með börn á brjósti. Henni fannst óþægilegt
að taka upp pela og gefa barninu ef hún var innan um annað fólk, þar
sem hún fékk athugasemdir um að vera ekki með barnið á brjósti. Aftur
á móti fann Elva fyrir því að fólk var að setja út á það að drengurinn
hennar væri enn á brjósti þegar hann var orðin fimmtán mánaða. Henni
fannst þetta dónalegt. Þetta var bara hennar og barnsins, ekki annarra að
hafa skoðun á.
Að gefa brjóst á almannafæri var mörgum konunum erfitt. Sérstak-
lega snemma í brjóstagjöfinni, en þegar leið á voru þær ekki eins
feimnar. Þær konur sem áttu í erfiðleikum með brjóstagjöfina eða voru
með stór brjóst vildu síður gefa brjóst á almannafæri. Algengt var að
konur fóru aðeins afsíðis eða snéru sér undan þegar þær voru að gefa
brjóst. Þeim fannst að fólki fyndist óþægilegt að horfa á þær gefa barni
sínu brjóst. Einnig nefndu þær að barnið og þær sjálfar þyrftu ákveðna
ró og næði.
Síðasta undirþemað sem greint var, að vera sátt við brjóstagjöfina
þó eitthvað vanti upp á, lýsir reynslu kvenna af því hvernig þær hugsa
um brjóstagjöfina í dag. Tíu kvennanna voru enn með barn á brjósti
þegar viðtölin fóru fram, en fjórar þeirra voru nýhættar með börnin á
brjósti. Þær áttu það þó flestar sameiginlegt að vera sáttar við hvernig
sem gengið hafði. Þær vildu láta brjóstagjöfina ganga upp og höfðu sýnt
mikla þrautseigju þegar upp komu vandamál. Þær veltu hins vegar fyrir
sér hvað hægt væri að fara fram á að kona reyndi mikið á eigin geðheilsu
í viðkvæmum aðstæðum. Margar töldu að vellíðan móðurinnar væri
meira virði en hver einasti dropi af brjóstamjólk. Steinunn lýsir sinni
skoðun þannig: „Ég held að vellíðan móður og svona orkan sem öllu
fylgir á heimilinu sé mikilvægari en hver einasti dropi af brjóstamjólk.“
Þegar kom að lokum brjóstagjafar fannst konunum mikilvægt að fá
„grænt ljós“ hjá ljósmóður eða hjúkrunarfræðingi í ungbarnaverndinni.
Sumar konurnar hættu brjóstagjöf vegna aldurs barnsins, eða höfðu
upplifað að hún væri mikið basl, þær voru farnar að gefa mikla ábót
og barnið jafnvel farið að hafna brjóstinu Aðrar voru farnar að vinna
og enn aðrar voru veikar. Birna hætti brjóstagjöfinni fyrir manninn sinn
þar sem hann hafði ekki tengst barninu nægilega. Sjálf upplifði hún
ákveðinn létti þar sem henni fannst hún fá líkama sinn aftur. Þær konur
sem áttu góða brjóstagjöf eftir erfiða fyrri reynslu voru mjög þakklátar
fyrir að allt hafi gengið vel hjá þeim í þetta skiptið. „Ég var bara mjög
ánægð, þó að sex mánuðir séu kannski ekki langur tími [...] þá var þetta
langur tími fyrir mig sko.“ (Rut).
UMFJÖLLUN UM NIÐURSTÖÐUR
Niðurstöður þessarar rannsóknar eru mjög samhljóma niðurstöðum
sambærilegra rannsókna, bæði innlendra og erlendra. Þátttakendur
byrjuðu allar brjóstagjöf eftir fæðingu barnsins en rákust á margar
hindranir í upphafi. Sumar þeirra hættu brjóstagjöf á meðan aðrar
komust yfir áskoranirnar og nutu brjóstagjafarinnar í auknum mæli
eftir það. Konurnar höfðu allar ákveðið á meðgöngunni að vera
með barnið á brjósti þar sem þeim þótti það eðlilegt framhald af
meðgöngunni. Í meðgönguverndinni fundu þær fyrir meðbyr með
brjóstagjöf og þó þar væri ekki minnst á pelagjöf, upplifðu þær það
ekki sem þrýsting. Símonardóttir (2016b) kemst að því í greiningu
sinni á vinsælu upplýsinga- og fræðsluefni á netinu, sem skrifað er af
fagfólki fyrir barnshafandi konur og foreldra á Íslandi, að ákvörðun
móður um að hafa barn sitt á brjósti er algerlega gefin og sjálfsögð.
Konurnar í okkar rannsókn litu á það sem sjálfsagðan og eðlilegan
hlut að þær yrðu með barnið á brjósti og eru því í samræmi við niður-
stöður þeirrar rannsóknar. Áhugavert er að þær upplifðu ekki þrýsting
frá umhverfinu, eins og kom fram í rannsókn sem gerð var í Nýja
Sjálandi um áhrif heilbrigðisstarfsfólks á lengd brjóstagjafar hjá
konum. Mæður þar upplifðu þrýsting frá heilbrigðisstarfsfólki, varð-
andi það að börn ættu eingöngu að vera á brjósti fyrstu sex mánuðina.
Þessi þrýstingur hafði neikvæð áhrif á líðan þeirra (Alinmoghaddam
o.fl., 2017).
Fyrri reynsla kvenna af brjóstagjöf skiptir greinilega máli. Þær
konur sem upplifðu erfiða fyrri brjóstagjöf voru líklegri en konur sem
höfðu upplifað farsæla fyrri brjóstagjöf, jafnvel þótt hún hafi reynst
erfið í byrjun, til að íhuga að næra barnið sitt með öðrum leiðum en
brjóstagjöf í þetta sinn. Niðurstöður bandarískrar rannsóknar sem 174
fjölbyrjur tóku þátt í, sýna einnig að konur íhuga annan möguleika á
að næra barnið sitt ef þær hafa átt í erfiðleikum með fyrri brjóstagjöf
(Schafer o.fl., 2017).
Nærumhverfi kvennanna hafði mikil áhrif á það hvort þær bjugg-
ust við farsælli brjóstagjöf eða ekki. Ef konurnar áttu til að mynda
mömmu, systur eða vinkonur, sem höfðu átt í erfiðleikum með brjósta-
gjöf þótti þeim ekkert líklegra en að þeirra eigin brjóstagjöf myndi
mislukkast. Aftur á móti voru þær konur yfirleitt mjög bjartsýnar sem
upplifað höfðu farsæla brjóstagjöf í sínu nærumhverfi. Og þrátt fyrir
erfiðleika í upphafi voru þær bjartsýnar um að takast að yfirstíga erfið-
leikana og ná markmiðum sínum hvað varðar brjóstagjöfina. Ítölsk
rannsókn á brjóstagjafahefð innan fjölskyldna kemst að sömu niður-
stöðu. Brjóstagjafasaga fjölskyldna var skoðuð þrjár kynslóðir aftur í
tímann. Í niðurstöðunum kemur fram að ef kona var sjálf á brjósti sem
nýburi er hún fimm sinnum líklegri til að vera með sín eigin börn á
brjósti, en kona sem ekki var sjálf á brjósti (Porta o.fl., 2016).
Verkir í geirvörtum og brjóstum, sár á geirvörtum, stíflur í brjóstum
og ónóg mjólkurframleiðsla voru helstu áskoranir sem konurnar í