Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Síða 32
32 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - JÚLÍ 2021
Hvernig líður þér þegar þú til dæmis færð svona bækling í
hendurnar sem þér finnst ekki tala beint til þín, verður þú sár
eða reiður eða finnurðu þörf fyrir að leiðrétta og laga?
Ég tek svona hluti mjög sjaldan nærri mér. Ég fer frekar í áttina
að því að hugsa: já okey, ég gæti kannski aðstoðað þig við að
laga þetta þannig að það sé meira inklúsíft. Ég tók til dæmis eftir
þessu líka á heimasíðu Livio, varðandi eggjasöfnun og annað
frjósemistengt að þar er alltaf bara talað um konuna. Í því tilfelli
er til dæmis mjög einfalt að hafa þetta alveg kynlaust, ég sendi
þeim ábendingu og fékk jákvæð svör. Ég hef reyndar ekki fylgt
því eftir.
Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri til ljósmæðra sem
lesa þetta blað?
Já, ég vil benda ljósmæðrum á að spyrja trans skjólstæðinga sína
ekki bara út í hvaða nafn og fornöfn þau nota heldur líka hvaða
orð yfir líkamsparta viðkomandi vill að séu notuð. Sumum gæti
til dæmis fundist mjög fráhrindandi að tala um píku, það eru ekki
allir til í það. Ekki vera feimin við að spyrja: hvaða orð viltu að
ég að noti um þig og þitt?
Finnst þér þú oft vera minntur á stöðu þína, að þú sért öðru-
vísi eða einstakur?
Já upp að vissu marki. Stundum rekst ég á eyðublöð þar sem
þarf að fylla út móðir/faðir formið en þá þarf ég bara að pikka í
viðkomandi og láta vita að þetta sé ekki alveg samkvæmt nútím-
anum. En mér finnst þetta hafa batnað heilan helling frá því
fyrir nokkrum árum þegar ég var að byrja þetta ferli. Ég vinn
á öldrunarheimili og áður en ég byrjaði þar var ég sannfærður
um að þar væri mikil þröngsýni en það stóðst alls ekki. Ég var
búinn að vinna þarna í einhvern tíma sem Henrý og sem hann
áður en ég fór í að útskýra hver ég er. Ekki það, ég hefði ekkert
þurft að útskýra það fyrir neinum, þetta þarf ekkert að standa á
enninu á manni. Það eru margir sem vilja fá að lifa sem karl og
henda transinu út um gluggann þegar það ferli er búið en ég er
ekki þannig þenkjandi, sennilega af því að ég hef þessa þörf fyrir
að fræða. Það var einn heimilismaður sem lét mig ekki vera og
spurði á hverjum degi hvar mamma dóttur minnar væri, hvort
hún væri í einhverju rugli eða kannski látin. Á þessum tíma var
ég ekki kominn út fyrir heimilisfólkinu í vinnunni og hafði þess
vegna engin svör, þannig að þessi gamla kona hélt bara áfram
að spyrja mig. Að lokum spurði ég yfirmanninn minn hvort ég
mætti ekki koma með afrit af DV viðtali sem hafði verið tekið við
mig, svo ég rétti konunni bara viðtalið og sagði: hérna eru öll
svörin sem þig vantar. Hún las þetta og hefur ekki spurt síðan,
en hún hefur heldur ekki breytt því hvernig hún lítur á mig. Ég
hef reyndar tekið eftir einu, sem mér finnst mjög merkilegt, að
einstaklingar með heilabilun hafa mjög oft ákveðið að ég sé
kvenkyns. Ég hef velt því mikið fyrir mér hvaðan það kemur því
ég lít alls ekki kvenlega út og hef verið á hormónum í fimm ár. En
ég tek það ekki nærri mér og er ekkert endilega að leiðrétta þau
þegar það kemur upp að ég sé ávarpaður í kvenkyni.
Hvernig hefur þú kosið að tala eða útskýra fyrir dóttur þinni
hvaðan þú kemur og hver sé þinn bakgrunnur?
Hún er mjög meðvituð um að hún eigi tvo pabba og FIMM
ömmur, tekur það alltaf skýrt fram líka. Svo fylgir stundum með
að hún eigi fjóra afa. En hún kemur kvenfyrirmyndunum, sem
eru ömmurnar, alltaf á framfæri með þessu. Annars er hún að
komast á þann aldur að ég fer örugglega að opna meira á þessa
umræðu, ekki það að ég myndi loka á neina umræðu ef hún kæmi
með hana. En ég fer kannski fljótlega að ræða frekar við hana um
hvaðan hún kemur og hvernig hún varð til. Hún veit að ég ,,var
stelpa”, sem er orðalag sem hún notar og ég mun ræða við hana
síðar, það er kannski svolítið flókið fyrir fimm ára að fá útskýr-
inguna: pabbi upplifði sig ekki sem stelpu… en það er næsta
skref að útskýra fyrir henni að ég hafi alltaf verið strákur en hafi
bara ekki áttað mig á því fyrr en seinna.
Er eitthvað samfélag transforeldra á Íslandi?
Mér detta þrír hópar í hug sem eru transtengdir á einn eða
annan hátt hérna á Íslandi. Trans-Ísland er með spjallhóp sem
er frekar virkur, þar er mikið pepp og svoleiðis en kannski ekki
jafn mikið af almennri umræðu og maður hefði viljað sjá. Svo eru
það Dúddarnir sem er hópur fyrir transmenn á Íslandi og það eru
alveg furðulega margir í þeim hópi, alveg 121 meðlimur. Svo eru
það Aðstandendur transfólks sem er fyrir til dæmis foreldra trans-
barna, transfólk sem vill aðstoða við transorðalag eða gefa ráð til
þeirra sem eru að koma út og bara fyrir alla þá sem vilja styðja
við bakið á transfólki. Í þessum hópi hafa einmitt verið fullorðnir
einstaklingar sem eru að fara í gegnum transferlið eftir að hafa
eignast börn og alls konar umræður skapast í kringum það.
Nú er nýkomin út rafræn mæðraskrá og þar er bara hægt að
merkja við að fæðst hafi annað hvort drengur eða stúlka en
enginn -x- reitur. Myndi það skipta þig máli ef hægt væri að
velja -x- við kyn barns við fæðingu?
Ef þessi reitur hefði verið í boði frá byrjun þá hefði ég kannski
hugsað um það, grafið svolítið dýpra og skoðað vel hvað fælist í
því. En ef þetta væri eitthvað sem væri opnað fyrir núna í lífi mínu
og stelpunnar minnar þá myndi ég ekki nýta mér það. Stelpan mín
er mjög mikil stelpa, mjög bleik og örugglega í réttu formi eins
og hún er. Okkur finnst það eiginlega pínu fyndið þar sem við
feðurnir erum hvorugir kvenlegir og svo mætir hún bara pínulítil
bleik prinsessa, helst með kórónu og glimmer í hárinu. Þegar hún
fæddist var ég inn á þeirri línu að reyna að hafa hlutina sem næst
miðjunni, til dæmis að velja frekar hlutlaus föt og svoleiðis en svo
komu gjafirnar og þær voru allar bleikar, þannig að ég reyndi að
jafna þetta svolítið út.
Skipta ný lög um kynrænt sjálfræði miklu máli?
Já þau gera það. Þau veita einstaklingum í raun frelsi til þess að
vera eins og þeir upplifa sig sjálfir. Það gat til dæmis verið mjög
óþægilegur tími fyrir fólk sem var byrjað í kynleiðréttingarferli að
þurfa að bíða lengi eftir því að fá nafni og kyni breytt í þjóðskrá.
En heimurinn er að þróast svo hratt áfram og ég get alveg skilið
að það séu fordómar, það eru ekki allir sem meðtaka hlutina svona
hratt - okey Jón er núna Sigga. Mér finnst í raun erfitt að ætlast til
þess almennt þó að það væri auðvitað æskilegt. Þegar fólk er að
segja mér frá foreldrum sínum með fordóma þá segi ég gjarnan:
okey, en bíddu bara aðeins, gefðu þeim séns, þetta tekur tíma. En
þessi nýju lög, þau hjálpa mikið. Það er ekki oft sem ég er stoltur
af því að vera Íslendingur en í þessum efnum er ég bara mjög
ánægður og Sjúkratryggingar Íslands eru snilld. Mér finnst mjög
fyndið að grínast með það að fordómafullir skattgreiðendur borgi
aðgerðirnar mínar.
Við þökkum Henrý Steini kærlega fyrir samtalið og fyrir
þá fallegu víðsýni og umburðarlyndi sem einkennir hans lífs-
sýn. Sýn hans og vera minnir okkur sem stétt á mikilvægi þess
að veita faglega og góða þjónustu til handa öllum barnshafandi
einstaklingum. Sýn og reynsla Henrýs Steins er gott veganesti inn
í breyttan heim þar sem vonandi er tekið fagnandi á móti öllum
kynjum.
Rut Guðmundsdóttir og Steinunn Blöndal