Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Qupperneq 46
46 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - JÚLÍ 2021
HVERS VEGNA VELJA KONUR AÐ
FÆÐA ÁN AÐSTOÐAR?
INNGANGUR
Fæðing barns er einn dýrmætasti atburður í lífi hverrar móður og góð
fæðingarupplifun getur haft langvarandi jákvæð áhrif á líf og heilsu kvenna
í samfélaginu (Steinunn H. Blöndal, 2010; Helga Gottfreðsdóttir, 2016).
Barnshafandi konur hafa rétt á því að velja þá leið í barneignarferlinu sem
þær telja öruggasta og besta fyrir sig og ófætt barn sitt, samkvæmt gildismati
þeirra á hugmyndunum um öryggi og áhættu (Dahlen, Jackson og Stevens,
2011; Murphy, 2016). Að sama skapi er réttur kvenna til að hafna þeirri barn-
eignarþjónustu sem þeim stendur til boða tryggður í lögum um réttindi sjúk-
linga (nr. 74/1997).
Á ensku eru fæðingar án aðstoðar nefndar freebirth eða unassisted (child)
birth og verður notast við íslensku þýðinguna í þessari grein. Fæðing án
aðstoðar er þegar kona tekur meðvitaða og upplýsta ákvörðun um að fæða
án aðstoðar ljósmóður eða annars heilbrigðisstarfsfólks, þrátt fyrir að slík
aðstoð standi til boða. Þetta er róttæk ákvörðun sem getur haft áhrif á útkomu
fæðingar og heilsu móður og barns (Feeley og Thomson, 2016b). Ekki
er þó hægt að fullyrða með óyggjandi hætti um útkomu móður og barns í
fæðingum án aðstoðar þar sem slíkt er erfitt að rannsaka. Erfitt getur reynst
að skrá fæðingar sem þessar sökum eðlis þeirra (Feeley, 2015). Ekki má rugla
fæðingum án aðstoðar saman við meðgöngur kvenna sem haldið er leyndum
eða er afneitað, eða þegar konur hafa skert eða ekkert aðgengi að barneignar-
þjónustu og hafa því ekki raunverulegt val um aðstoð í fæðingu (Friedman,
Heneghan, Rosenthal, 2007; Feeley og Thomson, 2016b).
Sá hópur kvenna sem hefur áhuga á, eða hefur nú þegar fætt án aðstoðar,
stækkar nú jafnt og þétt (Wickham, 2016; Dahlen o.fl., 2011; Holten og de
Miranda, 2016). Erfitt er að henda reiður á hve margar tilheyra þessu samfé-
lagi kvenna en miðað við fjöldatölur í spjallhópum á netinu, líkt og Free birth
society, má áætla að hópurinn sé ört stækkandi, þó hann sé mikill minnihluti
fæðandi kvenna í heiminum (Free birth society, e.d.). Samfélagsumræður
síðustu missera og skynjaður flótti kvenna frá barneignarþjónustu víða í
heiminum gefur tilefni til nánari athugunar á ástæðum þess að konur velja
þessa leið. Mikilvægt er að veita þessari þróun athygli og leitast við að endur-
vinna traust kvenna á ljósmæðraþjónustu. Til þess að það megi verða þurfa
ljósmæður að gera sér grein fyrir hvað liggur að baki ákvörðun kvenna að
fæða án aðstoðar. Þessi grein byggir á lokaverkefni til kandídatsprófs í ljós-
móðurfræði við Háskóla Íslands vorið 2020.
BAKGRUNNUR KVENNA SEM FÆÐA ÁN AÐSTOÐAR
Rannsóknir þar sem sjónum er beint að fæðingum án aðstoðar benda til
þess að konur sem fætt hafa með slíkum hætti séu vel upplýstar og sjálf-
stæðar en mismunandi var hvort rannsóknirnar litu það jákvæðum augum
(Symon, Winter, Donnan og Kirkham, 2010) eða neikvæðum (Thompson,
2013). Rannsóknir sem fundust um efnið miðast allar við vestræn ríki og
voru allir þátttakendur þeirra vestrænar, hvítar konur. Þegar leitað var eftir
þátttakendum í rannsóknirnar var konum boðin þátttaka í gegnum spjallhópa
kvenna sem fætt höfðu án aðstoðar. Meðalaldur kvennanna var 34 ár og var
aldursbilið frá 25–42 ár. Stærstur hluti kvennanna var giftur eða í sambúð og
allar höfðu þær maka sinn viðstaddan í fæðingunni. Menntunarstig þeirra var
í langflestum tilfellum hátt (Feeley og Thomson 2016b; Lindgren, Nässén og
Lundgren, 2017; Jackson, Dahlen og Schmied, 2012). Í ástralskri rannsókn
kom í ljós að 20% þátttakenda voru starfandi ljósmæður á spítala sem stefndu
á fæðingu án aðstoðar eða á heimafæðingu með áhættuþátt (Jackson o.fl.,
2012).
Stærsti hluti þátttakenda í rannsóknunum voru fjölbyrjur eða um 85%
kvennanna, og áttu þær eitt til þrjú börn hver (Lindgren o.fl., 2017; Jackson
o.fl., 2012). Búseta þeirra var dreifð og ekki bundin við ákveðin landsvæði
(Feeley og Thomson, 2016b). Í sænskri rannsókn var tekið fram að sex af
átta konum rannsóknarinnar hefðu reynt að finna ljósmóður til að sinna sér í
heimafæðingu án árangurs en tvær tóku meðvitaða ákvörðun um að fæða án
aðstoðar ljósmóður (Lindgren o.fl, 2017).
FLÓTTI FRÁ BARNEIGNARÞJÓNUSTUNNI
Framboð á barneignarþjónustu og afstaða heilbrigðiskerfis til heimafæðinga
hafa áhrif á það val sem konum stendur til boða á meðgöngu og í fæðingu.
Afstaðan getur verið allt frá því að heilbrigðiskerfið hvetji hraustar konur
í eðlilegri meðgöngu til að fæða heima eða á ljósmæðrastýrðum einingum
(NHS, 2018) yfir í að kerfið beinlínis mæli gegn því að konur fæði annars
staðar en á spítala (Lindgren, Rådestad, Christensson og Hildingsson, 2010).
Greiðsluþátttaka ríkja er einnig með mismunandi hætti en í sumum löndum
er öll barneignarþjónusta niðurgreidd óháð fæðingarstað, líkt og á Íslandi,
í Bretlandi og Hollandi. Á meðan leggja aðrar þjóðir ekki til greiðslur til
fæðinga utan sjúkrahúsa nema að takmörkuðu leyti, líkt og í Ástralíu og
Svíþjóð (Dahlen o.fl., 2011; Hildingsson, Lindgren, Haglund og Rådestad,
2006; Holten og de Miranda, 2016; Sjúkratryggingar Íslands, e.d.; Björkin,
e.d). Ekki eru til neinar opinberar tölur varðandi tíðni eða útkomu fæðinga án
aðstoðar sökum eðlis þeirra og þeirrar staðreyndar að samskipti við heilbrigð-
iskerfið eru í lágmarki í slíkum fæðingum. Vísbendingar eru hins vegar um að
fæðingum án aðstoðar sé að fjölga bæði í Ástralíu og Bandaríkjunum en þessi
lönd eru bæði með háa inngripatíðni sem og skert aðgengi að samfelldri ljós-
mæðraþjónustu (Dahlen o.fl., 2011). Samkvæmt hollenskri rannsókn frá árinu
2013 er áætlað að um 200 konur fæði án aðstoðar í landinu á ári hverju, eða
um 0,12% allra fæðinga (Holten og de Miranda, 2016, Lars, 2020).
Sunna María Schram,
ljósmóðir á fæðingarvakt Landspítala
Berglind Hálfdánsdóttir,
ljósmóðir og dósent við námsbraut
í ljósmóðurfræði Háskóla Íslands
F R Æ Ð S L U G R E I N