Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Side 47
47LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - JÚLÍ 2021
ÁSTÆÐUR KVENNA FYRIR FÆÐINGU ÁN AÐSTOÐAR
Þær ástæður sem liggja að baki ákvörðun konu um að fæða án aðstoðar hafa
verið rannsakaðar kerfisbundið undanfarin ár, á sama tíma og sjónum hefur
verið beint að upplifun kvenna af slíkum fæðingum. Þörf fyrir rannsóknir sem
þessar hefur aukist samhliða fjölgun fæðinga með þessum hætti víða í heim-
inum, þó sér í lagi í Bandaríkjunum, Ástralíu, Bretlandi og Hollandi (Feeley
Burns, Adams og Thomson, 2015; Dahlen o.fl., 2011; Vogel, 2011; Hollander,
de Miranda, van Dillen, de Graaf, Vandenbussche og Holten, 2017). Niður-
stöður rannsóknanna benda til þess að einstaklingsbundnum þörfum fæðandi
kvenna sé ekki mætt með fullnægjandi hætti innan barneignarþjónustunnar
(Feeley, Burns, Adams og Thomson, 2015; Feeley og Thomson, 2016a).
Meginástæðan fyrir því að konur kjósa að fæða án aðstoðar er sú að þær
vilja fá að nýta sjálfræði sitt til að taka upplýsta ákvörðun um fæðingu sína
(Holten og de Miranda, 2016). Þó er hægt að skipta ákvörðuninni niður í
nokkur undirþemu en þau eru sjálfræði kvenna, höfnun á sjúkdómsvæðingu
fæðinga, ósk um lífeðlislega fæðingu og slæm fyrri fæðingarreynsla (Feeley
o.fl., 2015; Lindgren o.fl., 2017; Dahlen o.fl., 2011). Hér verða þessar fjórar
ástæður skoðaðar nánar en stuðst verður við niðurstöður rannsókna og
fræðigreinar sem skoðað hafa fæðingar án aðstoðar sem og annað efni tengt
umfjöllunarefninu.
SJÁLFRÆÐI
Sjálfræði er hugtak sem hefur sterka tengingu við fæðingar án aðstoðar, en
niðurstöður rannsókna benda til þess að hugtakið nái yfir meirihluta þeirra
ástæðna sem konur nefna fyrir vali sínu (Feeley og Thomson, 2016a; Lind-
gren o.fl., 2010; Jackson, o.fl., 2012; Miller, 2009; Freeze, 2008 ). Ein af
grunnstoðum heilbrigðiskerfis hins vestræna heims er sjálfræði einstaklinga
og yfirráðaréttur einstaklings yfir eigin líkama (McAra-Couper o.fl, 2011).
Siðferðileg afstaða til sjálfræðis er bundin í alþjóðasiðareglum heilbrigð-
isstétta, þar á meðal ljósmæðra (ICM, 2017). Raunveruleikinn er oft sá að
sjálfræði kvenna og ákvarðanir þeirra mæta siðferðilegri andstöðu ljósmæðra
sem þar af leiðandi veita konunni ófullnægjandi barneignarþjónustu (Dahlen
o.fl., 2011).
Það er mikilvægt að konum sé gert kleift að taka upplýsta ákvörðun um
þá þjónustu sem þær kjósa að þiggja eða að hafna í barneignarferlinu. Ljós-
mæður í meðgönguvernd bera ábyrgð á því að útskýra hvaða valkostir þeim
standa til boða og veita skýrar og óhlutdrægar upplýsingar um þá valkosti.
Einnig ber þeim að virða þær ákvarðanir sem konur taka. Er þetta í samræmi
við lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 (Landlæknisembættið, 2008).
Konum er einnig heimilt að taka ákvörðun um fæðingarstað og hefur sá réttur
verið staðfestur af mannréttindadómstólum (Registrar of the European Court
of Human Rights, 2010).
Konur sem fætt hafa án aðstoðar lýsa því hvernig ákvörðunin sé leið þeirra
til að viðhalda tilfinningunni um stjórn og upplifaða ábyrgð með því að verja
sitt innra sjálf og sjálfstæði (Lindgren o.fl., 2017). Konur í rannsókn Feeley
og Thomson (2016b) sem kusu að afþakka einnig meðgönguvernd lýstu því
hvernig þær fylgdust sjálfar með líkamlegu heilbrigði sínu á meðgöngunni,
svo sem með því að mæla blóðþrýsting og skima þvag. Var þetta liður í
meðvitaðri ábyrgð á eigin heilsu og þótti konunum eflandi að finna hvernig
þessi ábyrgð væri þeirra að bera en ekki heilbrigðisstarfsfólks.
HÖFNUN SJÚKDÓMSVÆÐINGAR FÆÐINGA
Eitt algengasta stefið í frásögnum kvenna sem fætt höfðu án aðstoðar var
höfnun á sjúkdómsvæðingu fæðinga. Konurnar hófu gjarnan frásagnir sínar
á því að hafna algjörlega læknisfræðilegri orðræðu um fæðingar, svo sem
tilhneigingunni til óþarfs eftirlits (Miller, 2009; Lindgren o.fl., 2010). Töldu
konurnar ríkjandi viðhorf til fæðinga vera litað ótta og gagnrýndu þær að
flestar fæðingar færu fram á spítala. Sjúkrastofnanir væru í eðli sínu óhent-
ugur staður fyrir fæðingar enda miðuðust þær við meðhöndlun veikinda og
sjúklegs ástands (Dahlen o.fl., 2011; Miller, 2009). Einnig töldu þær óvið-
eigandi að styðjast við túlkun lækna á framgangi fæðinga þar sem þeir nýttu
valdastöðu sína og hagsmuni til túlkunar í stað þess að miða við upplifun
kvennanna sjálfra. Konurnar útskýrðu hvernig ljósmóðurfræðilega líkanið í
fæðingum næði betur utan um þeirra eigin viðhorf og afstöðu til náttúrulegra
fæðinga. Þrátt fyrir muninn á læknisfræðilega og ljósmóðurfræðilega líkan-
inu væru þrátt fyrir það meiri líkindi milli þessara fagstétta en munur. Því
var niðurstaða þessara kvenna að með hagsmuni sína og ófædds barns síns
að leiðarljósi væri best að hvorug stéttin kæmi nálægt fæðingunni, ljósmóðir
myndi þrátt fyrir allt segja konu hvað hún ætti að finna og upplifa (Miller,
2009).
Sjúkdómsvæðing á sér ekki einungis stað í fæðingunni sjálfri að mati
kvenna sem velja að fæða án aðstoðar heldur einnig í annarri barneignar-
þjónustu, til dæmis í meðgönguvernd og sængurlegu (Feeley og Thomson,
2016a). Konurnar hafa upplifað að umræður ljósmæðra sem byggðar voru á
áhættuhugsun og ótta væru notaðar til að stýra vali þeirra í barneignarferl-
inu. Ef þær völdu að fara ekki eftir ráðleggingum ljósmóður og stöðlum heil-
brigðiskerfisins upplifðu þær sig vera stimplaðar sem áhættusæknar. Olli þetta
þeirri tilfinningu að þær ættu ekki samleið með hefðbundinni meðgönguvernd
og þar með væru þær útilokaðar frá barneignarþjónustunni (Plested og Kirk-
ham, 2016). Konurnar upplifðu að þær legðu aðra merkingu í hugmyndina
um áhættu og öryggi í fæðingu heldur en kerfið og starfsmenn þess (Jackson
o.fl., 2012).
Áhættuorðræða í meðgönguvernd sem leggur áherslu á dánartíðni, sjúk-
leika og áhættu eykur meðvitund kvenna um dauðann. Sú meðvitund getur
enn fremur valdið tilvistarlegum áhyggjum barnshafandi kvenna sem síðan
er ekki fylgt eftir af heilbrigðisstarfsfólki (Plested og Kirkham, 2016). Þetta
getur leitt til skorts á trausti í meðferðarsambandi ljósmóður og móður
sem sækir þá frekar í stuðning utan kerfis sem byggir á salutogenesis eða
hugmyndinni um heilbrigði í barneignarferlinu (Feeley og Thomson, 2016a).
ÓSK UM LÍFEÐLILEGA FÆÐINGU
Þriðja undirþema ástæðna þess að konur kjósa að fæða án aðstoðar er ósk
þeirra um lífeðlislega fæðingu án truflana og inngripa (Feeley o.fl., 2015;
Lindgren o.fl., 2017; Dahlen o.fl., 2011; Feeley og Thomson, 2016a). Hluti
kvennanna telur sig standa vörð um náttúrulegt ferli meðgöngu og fæðingar
án utanaðkomandi afskipta eða inngripa með því að hafna kerfisbundinni
barneignarþjónustu (Feeley og Thomson, 2016a). Þær telja störf ljósmæðra
að einhverju leyti ónauðsynleg og að mikilvægara sé að hafa trú á eigin getu
til að fæða barn en að treysta á nærveru ljósmóður. Afstaða þessara kvenna
er sú að fæðingar séu eðlilegur hluti lífsins en ekki sjúklegt ástand sem krefj-
ist aðkomu heilbrigðiskerfisins. Þær höfðu kynnt sér til hlítar lífeðlisfræði
fæðinga og bjargráð og töldu að fæðing væri náttúrulegri, sjálfstæðari og
persónulegri án ljósmóður (Miller, 2009).
Í eigindlegri viðtalsrannsókn frá Svíþjóð um upplifun kvenna af fæðingum
án aðstoðar ræddu konurnar um að nærvera ljósmóður geti verið hugsanleg
ógn við innsæi þeirra og ferli fæðingarinnar. Töldu konurnar að starf ljós-
móður væri ekki einungis fólgið í því að vera stuðningur við konur í fæðingu
heldur stæði starfið einnig fyrir læknisfræðilega hugmyndafræði varð-
andi fæðingar, sem samræmdist ekki þeirra eigin. Þessi afstaða ljósmæðra
ógnaði þar með hinni fæðandi konu sem þarfnast stuðnings frá einstaklingi
sem styður hana í að fylgja innsæi sínu í stað þess að fylgja kerfisbundnum
tilmælum heilbrigðiskerfisins fyrst og fremst (Lindgren o.fl., 2017).
SLÆM FYRRI FÆÐINGARREYNSLA
Fjórða og síðasta undirþemað í ákvörðun kvenna sem kjósa að fæða án
aðstoðar er slæm fyrri fæðingarreynsla (Feeley og Thomson, 2016b; Lindgren
o.fl., 2017; Jackson, o.fl., 2012; Hollander o.fl., 2017). Í rannsókn Lindgren
o.fl. kom í ljós að allir þátttakendurnir nema einn hafði upplifað slæma fyrri
fæðingu á spítala en fæðingarótti er fimm sinnum algengari meðal kvenna
með slæma fyrri fæðingarreynslu (Lindgren o.fl., 2017). Konur með slíka
reynslu eru líklegri til að leggja áherslu á að upplifa stjórn í næstu fæðingu
en þær fara ólíkar leiðir til þess. Þær sem kjósa að fæða heima vegna erfiðrar
fyrri fæðingarreynslu sækjast eftir því að fæða fjarri stofnanavæddu umhverfi
og forræði heilbrigðisstarfsfólks til að auka líkurnar á að stjórnin sé þeirra
(Cheyney, 2008). Konurnar sem fætt höfðu heima sögðust tengja spítalann
við áföll frá fyrri fæðingu sem og önnur áföll í lífinu, til dæmis ástvina-
missi, slys og sjúkdóma og því gátu þær ekki hugsað sér að fæða inni á þeirri
stofnun (Dahlen o.fl., 2011).
Í blaðaviðtali við einu íslensku konuna sem staðfest er að hafi fætt án
aðstoðar nefnir hún að fyrri fæðingarreynsla sín hafi ekki verið jákvæð.
Orsakaðist það af því að ljósmæður hennar í heimafæðingu hafi tekið stjórnina
af henni og sent hana á spítala í miðri fæðingu þar sem henni hafi verið gefin
mænurótardeyfing. Fæðingin hafi í sjálfu sér ekki verið slæm en upplifunin
hafi skilið eftir óbragð í munni hennar, líkt og hún orðaði það. Leggur hún
áherslu á að hún líti ekki á fæðingar sem læknisfræðilegan viðburð (Kristlín
Dís Ingilínardóttir, 2019).
Í eigindlegri viðtalsrannsókn Feeley og Thomson nefndu þrjár kvennanna
að hafa upplifað skilningsleysi ljósmóður í meðgönguvernd þegar þær ræddu
slæma fyrri fæðingarreynslu. Konurnar ræddu um að þeim hefði ekki fundist
hlustað á sig og það hefði verið gert lítið úr ákvörðunarrétti þeirra. Það hafi