Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 51

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 51
51LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - JÚLÍ 2021 H U G L E I Ð I N G L J Ó S M Ó Ð U R STOLT, KÆRLEIKUR, FRAMÞRÓUN, SAMSTAÐA Þegar vinkona mín og skólasystir úr hjúkrunar- fræði stakk upp á því við mig hvort ég væri ekki til í að sækja um í ljósmóðurfræði með henni, þótti mér það lítið spennandi. Mér þótti við fyrstu tilhugsun sem um frekar einhæfan starfsvettvang væri að ræða. Mér sem þótti svo gaman að hjúkra, bæði konum og körlum. Ég átti þá þegar fjögur börn og allar vinkon- urnar voru einnig í barneign svo mér fannst ég hafa verið beint og óbeint í samvistum við barnshafandi konur og nýbakaðar mæður í mjög langan tíma. Ég sá þá ekki alveg sjarma í því að gera það að starfsvettvangi utan heimilis, að ræða um og takast á við meðal annars hormónasveiflur, grindarverki, svefnleysi, brjóstaþoku og gyllinæð. Við vinkonurnar sömdum að lokum um að senda umsóknir í tvo háskóla í mjög ólíkar námsbrautir og fara í það nám sem við kæmumst í. Og viti menn, það fór svo að ljósmóðurfræðin valdi mig. Fyrir það er ég ævarandi þakklát. Ég sá fljótt hvað ég hafði rangt fyrir mér þegar ég hélt að ljósmóðurstarfið væri einhæft. Það er svo fjarri lagi. Starfssvið hinnar íslensku ljósmóður er víðfeðmt og sífellt að verða fjöl- breyttara. Ég finn ljósmóðurhjartað fara stækkandi og takturinn styrkist eftir því sem árunum frá útskrift fjölgar. Það eru svo sannarlega forréttindi að vera ljósmóðir, að tilheyra stétt ljósmæðra og geta starfað við sitt fag. Ég hef upplifað þróun starfsstéttarinnar ýmist sem ljósmóðir, þjónustu- þegi eða hvoru tveggja sl. þrjá áratugi og hér í hugleiðingum mínum ætla ég að tipla á stóru yfir þá sögu frá mínu sjónarhorni. Það breyttist margt á þeim 22 árum sem liðu frá því að ég átti mitt elsta barn og þar til ég átti það yngsta og enn hraðari þróun hefur mér þótt eiga sér stað eftir að sú yngsta fæddist (2013) og til dagsins í dag. Þegar elsti drengurinn minn fæddist í júní árið 1992 var Fæðingarheim- ilinu svokallaða lokað í fyrsta sinn hluta úr sumri. Það var því ekki annað í boði en að hann myndi fæðast á Landspítalanum. Á þeim tíma tíðkaðist að konur lægju sængurlegu í a.m.k. 5 daga. Ég lá þá á stofu með þremur öðrum konum, pabbarnir voru sendir heim. Börnin voru á vöggustofu fyrir miðjum ganginum og einungis komið með þau inn til mæðra sinna þegar þau áttu að fá að drekka (á 4 tíma fresti að mig minnir) og þá átti bara að gefa annað brjóstið í einu (allar konur sem sagt komnar með slagsíðu á 3ja degi). Gestir máttu sjá börnin í gegnum stóran glugga á vöggustofunni. Börnin áttu að liggja á maganum og fengu snuð um leið og komið var á deildina. Ekki tíðkaðist að konur eða börn þeirra væru í fatnaði að heiman á meðan á innlögn stóð. Ljósmæður böðuðu börnin strax og að mig minnir á hverjum degi, það var ekkert sem mæðurnar áttu að vera að vasast í. Sex árum síðar fæddi ég annan dreng, einnig á Landspítalanum. Þá var búið að loka Fæðingarheimilinu endanlega, mörgum til ævarandi söknuðar. Allt hafði breyst! Nú var engin vöggustofa lengur. Börnin áttu alls ekki að sofa á maganum, öll skyldu skorðuð á hlið. Börn áttu alls ekki að fá snuð á fyrstu dögum lífs síns. Kona og barn klæddust sínum fötum en ef ekki væri komið með föt að heiman var hægt að fá lánuð föt. Ekki átti að baða börnin því fósturfitan var svo góð. Leggja átti barnið á brjóst eins oft og það vildi og konan gat. Og, konan mátti bara leggja barnið á það brjóst sem hún vildi og hvert á eftir öðru ef henni sýndist svo. Pabbarnir máttu vera meira á staðnum og konur skyldu útskrifaðar heim eins fljótt og þær höfðu heilsu til, í mínu tilfelli eftir um 12 klst. Svona fleytti fram breytingunum á þeim tíma og kollvarpaðist flest sem unnið var eftir, aðeins sex árum síðar, yfir í mjög ólíkar leiðbeiningar. Íslenskar ljósmæður eru ekki margar en ótrú- lega öflugar. Þrátt fyrir mikla breidd í ljósmæðra- stéttinni, þá er einhver ljósleiðari sem liggur í gegnum hjörtu allra íslenskra ljósmæðra. Hann er svo öflugur að ljósmæður hafa náð að viðhalda þekkingarþorsta sínum og stöðugri leit að fram- þróun og bættu verklagi, meira vinnuhagræði og betri útkomu. Ljósmæður á Íslandi eru aðlögunarhæfar, vel menntaðar og metnaðarfullar fyrir hönd stéttar- innar og skjólstæðinga sinna. Flestar erum við duglegar að hvetja hver aðra áfram og leggjast á eitt við að standa vörð um fagið okkar. Það hefur oft reynt á samtakamáttinn, hvort sem er í baráttu okkar fyrir menntuninni, starfsvettvangi eða kjörum. Við erum kannski heldur þægar og þolinmóðar og því hafa sumar breytingar tekið langan tíma. En, við komumst þangað sem við ætlum okkur að lokum og alltaf er það samtaka- mátturinn sem skiptir öllu máli. Lyftum hver annarri upp, bæði innan vinnustaðar, í félaginu okkar og ekki síst í opinberri umræðu. Það vex sem þú veitir athygli, það á svo sannarlega við um okkur. Sýnum hver annarri athygli og hvatningu, við græðum allar á því. Gefum hver annarri svigrúm til að hafa aðrar skoð- anir og aðra nálgun og fögnum fjölbreytileikanum, þannig vöxum við og styrkjumst. Breytingarnar frá því að yngsta barnið mitt fæddist, árið 2013 eru líkt og ég tiltók hér að framan einnig ansi miklar. Ljósmæður hafa verið mjög öflugar við að útvíkka starfssvið sitt og nýta þannig betur víðtæka menntun sína og reynslu. Ljósmæður hafa tekið yfir skimanir fyrir leghálskrabba- meini, bætt við sig menntun í nýburaskoðunum, um getnaðarvarnaráðgjöf og í kjölfarið fengið réttindi til ávísana á getnaðarvarnalyfjum. Ljósmæður hafa komið að þjónustu við fólk í frjósemismeðferðum, rannsakað og látið sig varða breytingaskeið kvenna. Komið að útgáfu fræðsluefnis á mjög fjölbreyttu formi, svo sem með bókaútgáfu, bæklingum, haldið úti vefsíðum, boðið upp á hlaðvörp, öpp og greinaskrif bæði í dagblöðum og vefmiðlum þeirra. Einnig aukið úrval námskeiða fyrir verðandi foreldra. Ljósmæður hafa látið sig jaðarsetta skjólstæðinga varða með aðdáunar- verðum hætti og bætt verulega í þjónustu við þann hóp og framtíðin lofar góðu. Ljósmæður hafa unnið að því að bjóða upp á fjölbreyttari valkosti þegar kemur að fæðingarstað og náð að styrkja stoðir og ímynd heima- fæðingarþjónustu. Ljósmæður hafa með samtakamætti sínum komið af stað jákvæðri umræðu um barneignarferlið í samfélaginu og í kjölfarið vitundarvakningu á mikilvægi ljósmóðurstarfsins. Íslenskar ljósmæður hafa látið að sér kveða á erlendri grund, ljósmæðrarannsóknir eflast og þar með birtingar fræðigreina í háskólasamfélaginu. Þær hafa tekið að sér meira af stjórnunarstörfum og hafa áhrif á pólitískum vettvangi. Ljósmóðurstarfið er kvikt, það er skemmtilegt, gefandi og gríðarlega fjölbreytt. Vöndum okkur við breytingar. Höfum það ávallt hugfast að sjálfsmat okkar endurspeglast út á við. Það er okkar að vera metnaðarfullar, viðhalda menntun okkar og færni og verð- setja svo þjónustu okkar í samræmi við það. Það er auðvelt að gjaldfella starfsframlagið ef samstaða rýrnar og því ávallt mikilvægt að standa föstum fótum, allar sem ein - og vera einhuga í að hlúa að stéttinni okkar. Ást og friður. Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, ljósmóðir

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.