Sjómannablaðið Víkingur

Volume

Sjómannablaðið Víkingur - 01.04.2011, Page 18

Sjómannablaðið Víkingur - 01.04.2011, Page 18
 18 – Sjómannablaðið Víkingur Þá kom sagan frá Daða Eyjólfssyni en það var nafn manns- ins. – Ég fór á ball í Sjallanum og þar hitti ég konu sem mér leist vel á. Hún var að mér fannst til í allt, ég splæsti á hana alskonar veitingum og víni og þegar ballinu lauk bauð ég henni í bíltúr. En þegar ég vildi láta vel að henni í bílnum – ég rétt strauk á henni anað lærið – trylltist hún og skipaði bílstjóranum að stoppa. Það fauk í mig og ég rauk út og skellti bílhurðinni á eftir mér en þá vildi ekki betur til en svo að hurðin skall á nefinu á mér og þú sérð afleiðingarnar. Og minna mátti nú sjá. Stór flipi hafði rifnað laus og dingl- aði í nefinu á honum. Ég fór fram úr kojunni, náði í vatn og handklæði og þreif á honum andlitið. Síðan límdi ég niður skinnflipann á nefinu og setti í réttar skorður. Eftir þetta kallaði Daði mig alltaf elsku drenginn sinn og þegar hann ræsti mig kyssti hann mig á ennið sem mér var meinilla við því stundum lak svartur dropi framan í mig, en Daði tók mikið í nefið. En hann var indælis karl sem vildi öllum vel. Þetta sumar var mjög treg síldveiði. Síldin var dreifð um allan sjó og mikið um bomm köst. Það var kallað bomm, eða búmm, þegar kastað var og lítið kom úr kastinu, kannski fáein- ar tunnur. Það var svo sem ekki margt sem skeði minnisvert þetta sum- ar. Við Guðni Sigurðsson notuðum hvert tækifæri sem gafst þegar stoppað var og látið reka til að stinga okkur til sunds en Birni skipstjóra var ekki vel við það. Hann sagði jafnan: – Það endar með því að þið lendið í hákarlskjafti. En hákarlarnir fyrir Norðurlandi höfðu ekki lyst á okkur. Nótin brennur Eitt atvik gerðist þetta sumar sem er mér minnisstætt. Við vorum á leið til lands. Það var kaldi beint á móti. Ég var við stýrið og Björn skipstjóri á útkikki. Þá finn ég brunafýlu og segi við karlinn: – Það er eitthvað að brenna. – Þegiðu strákur og hugsaðu um stefnuna, svarar hann. En brunalyktin ágerist og ég segi: – Það er víst brunalykt. Þá opnar karlinn dyrnar og lítur aftur og segir: – Það er rétt hjá þér, grunnnótin er að brenna – en aftast á bátapallinum var gömul grunnnót sem stóð í björtu báli og stóð neistaflugið aftur af dallinum. Það var stoppað og mannskapurinn ræstur út. Það gekk vel að slökkva í því litla sem eftir var nótinni og ekkert skemmdist nema nótin. Sem betur fer var dekkið úr stáli. Strákarnir voru kampakátir og sögðu: – Þetta var bara heppni, nótin var fúin og handónýt. Handafl og ekkert nema handafl Um borð var allt gert á höndum. Nótinni var tutlað út með keflum, sem voru á borðstokkum nótabátanna, bátunum var róið í hring utan um torfuna og þegar þeir komu saman var snurpað á höndum og þá var mikill hamagangur við að loka nótinni til þess að síldin slyppi ekki. Svo var netið dregið inn í bátana – á höndum – þangað til þrengdi að síldinni og svo var skipinu lagt að bátunum, teinninn bundinn við borðstokkinn á skipinu og síldin háfuð um borð. Oft voru menn búnir að vera lengi í nótabátunum og róa langar leiðir þegar loks var kastað á torfu. Það er óhætt að segja að síldveiðarnar voru ekki teknar út með sitjandi sældinni. Við byrjuðum veiðar vestur í Húnaflóa og þegar leið á sumarið barst leikurinn austur á bóginn og við enduðum fyrir austan Langanes. Þegar við vorum á vestursvæðinu lönduðum við á Hjalteyri og stundum í salt á Siglufirði. Þar var síldinni mokað upp í körfur og þær handlangaðar upp að ílátunum sem síldar- stúlkurnar stóðu við. Þegar við vorum austurfrá lönduðum við á Raufarhöfn. Aflinn hjá okkur þetta sumar voru 5 þúsund mál. Sæfarinn fékk seinna, eða 1946, nýtt nafn og hét Ragnar eftir það. Hann sökk 31. júlí 1947 út af Melrakkasléttu þegar karl- arnir voru að háfa stórt kast. Helgi Laxdal Litli puttinn Þegar ég var til sjós fyrir um 40 árum síðan sagði glöggur og ráð- vandur félagi minn mér eftirfarandi: Það mun hafa verið á línu- veiðara sem gerður var út frá Norðurlandi, á fyrir hluta síðustu aldar, að þegar einn hásetanna var að draga bólfæri af dráttarskíf- unni þá lenti hann með vinstri höndina undir bólfærinu á dráttar- skífunni. Þeir sem á horfðu voru vissir um að hann hefði orðið fyrir verulegum áverka á höndinni, það miklum að líklega yrði að fara með hann í land. Öllum til mikils léttis hélt hásetinn bara áfram að draga bólfærið eins og ekkert hefði í skorist – deplaði tæpast auga umfram nauðsyn. Um kvöldið þegar hann var búinn að fara úr sjóvettlingunum í hálfrökkrinu í ganginum stjórnborðsmegin og var að vinda úr þeim mesta sjóinn fann hann að í öðrum þeirra var aðskotahlutur af ein- hverju tagi; fór með hægri höndina ofaní vettlinginn til að kanna hvað hér væri á ferðinni. Þegar hann dró höndina upp úr vettl- ingnum hélt hann, sér til mikillar undrunar, á mannsfingri. Í fram- haldinu brá hann af rælni vinstri höndinni í daufa skímuna á ganginum og honum til mikillar furðu vantaði þar litla puttann. Hvað segirðu, hváði ég, ertu virkilega að segja satt? Satt! át félagi minn upp, opinmynntur með spurn í rómnum og svip á andlitinu sem hver guðsmaður hefði getað verið stoltur af: Já, svona var nú bara lífið á þessum galeiðum hér áður og fyrr!

x

Sjómannablaðið Víkingur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.