Sjómannablaðið Víkingur - 01.04.2011, Side 19
Sjómannablaðið Víkingur – 19
Í aprílmánuði 1960 bauðst mér pláss
sem hálfdrættingur á b.v Þorsteini
Ingólfssyni RE – 206, sem ætlunin var
að færi til saltfiskveiða við Vestur –
Grænland í byrjun maí. Þar sem fyrir-
sjáanlegt var að öllum prófum skyldu-
námsins hjá mér yrði ekki lokið fyrir
þann tíma, þá fékk ég leyfi skólastjór-
ans til að gangast undir síðustu prófin
áður, þannig að ekkert yrði því til fyrir-
stöðu, að ég kæmist í þessa fyrstu veiði-
ferð mína á togara, sem hófst þann 6.
maí og lauk þann 7. júlí 1960. Var ég
ráðinn sem hálfdrættingur. Margir há-
setanna voru Færeyingar. Landað var úr
skipinu hér heima alls 390.350 kg. af
umstöfluðum saltfiski og að auki
14.524 kg. af lýsi, eins og stendur á
launaseðlinum mínum, en alla launa-
seðla sem ég fékk meðan ég var til sjós
hef ég ávallt varðveitt.
Viðbótarhnútar
Aðalhlutverk pontarans í saltfisktúr var
einfalt, eins og margir þekkja, þ.e að
moka með gafli hinum flatta og þvegna
fiski upp í sérútbúinn kassa og hleypa
svo úr fullum kassanum niður í lestina.
Ekki mátti gleyma að hnýta hnút á við-
hangandi snæri fyrir hverja kassafylli.
Var það gert til að geta fylgst með magn-
inu, sem fór ofan í lestina. Var maður
stundum beðinn um að hnýta einn og
einn viðbótarhnút, sérstaklega þegar leið
á túrinn. Ekki bara vegna metings um
afköst við hina vaktina, heldur ekki sízt
vegna þess, að sumir vildu trúa því, að
meira væri í lestinni en var í raun, sem
þýddi þá væntanlega um leið að túrnum
lyki fyrr. Þótti manni sjálfsagt að verða
við þessum óskum, enda mátuleg sjálfs-
blekking hverjum manni nauðsynleg
endrum og eins, ekki sízt í tveggja mán-
aða saltfisktúrum í þokunni við Græn-
land.
Hitt hlutverk pontarans var að vera í
næturkokkaríinu, sem er í sjálfu sér ekki
í frásögu færandi, en nefni hér eitt tilvik,
sem sat lengi í mér. Eitt sinn var ég að
ganga frá í eldhúsinu, en þá voru tveir,
sem flöttu saman, komnir í kaffi en aðrir
farnir. Áttu þeir það sameiginlegt að
þykja óskaplega gaman að klæmast í
tíma og ótíma og segja frá eigin afrekum
í samskiptum sínum við kvenfólk og var
þá ekkert dregið undan í lýsingunum.
Þessum sögum þeirra fylgdi mikill hlát-
ur, þessi smitandi hlátur, sem ómögulegt
var að standast, þótt maður greindi ekki
orðaskil fram í eldhús vegna skarksins
þar. Vissi maður þó vel á hvaða nótum
frásagnirnar voru. Verð ég þá allt í einu
var við það, að yfirvélstjórinn, sem var
eldri maður, stendur fyrir aftan mig, þar
sem ég er hlæjandi og segir með mikilli
hneykslan: „Það er nú meira hvað þú
hefur gaman af klámi drengur!“ Ekki
þótti mér þetta sanngjörn athugasemd
miðað við forsendur, en hvað átti yfir-
vélstjórinn að halda þarna?
Nordafar
Vinnan um borð var í föstum skorðum,
gott fiskerí og því unnið allar vaktir og
engin snöp. Eitt sinn kemur kokkurinn
fram undir spil og kallar að kaffið sé til.
Bað hann mig jafnframt að láta saltarana
í lestinni vita. Aðalsaltarinn á vaktinni
var Færeyingur, sem hét Níels. Fór ég
niður í lest, niður á steis, en Níels stóð
aftast í lestinni. Kallaði ég til hans: „Kaffi
Níels!“ Hafði ég ekki fyrr sleppt orðinu,
en Níels grýtir í mig gaflinum, sem
hann hélt á. Beygði ég mig undan og rétt
slapp, en þaut upp úr lestinni og skyldi
eðlilega ekki í því af hverju Níels ger-
samlega trompaðist, þegar ég var bara að
segja honum að komið væri kaffi. Landar
hans komu fljótt með skýringuna. Níels
var alltaf uppnefndur, Kaffi Níels vegna
elsku sinnar á kaffi og þrásetu við kaffi-
Jónas Haraldsson
St ígvélum s tampað
Pontarinn skellir góðri flyðru niður í lest. Ljósmynd: Ásgrímur Ágústsson.