Sjómannablaðið Víkingur - 01.04.2012, Síða 8
8 – Sjómannablaðið Víkingur
Löng varð biðin þeim þremur sem fram á skipinu héngu eftir
að finna í línuna kippt. Frá því að Ingólfur yfirgaf skipið höfðu
þeir ekkert til hans séð fyrir myrkri og sjóroki og vissu því
lengi vel ekki hvernig honum hafði reitt af. Eftir að hafa fest
línuna tryggilega utan um stóran stein í fjörunni gaf Ingólfur
merki með því að kippa fast í hana.
Kokkurinn lagði þá til lands eftir þessari líflínu á náttfötum
einum klæða og berfættur. Hlutverk Þorvaldar var að gæta þess
að línan væri mátulega strekkt. Með of miklum slaka færi hún í
botninn og festist þar en of strekkt gat hún slitnað. Til að hafa
stjórn á þessu brá Þorvaldur línunni um polla og aðrar festingar
um borð og slakaði henni út og dró hana inn eftir því sem skip-
ið bylti sér á flúðinni. Til að hafa einhverja stjórn á þessu og
tryggja það að hrökkva ekki fyrir borð batt hann sjálfan sig
fastan þar sem festu var að fá.
Er hér var komið sögu var skipið lagst yfir á bakborð síðuna
og virtist skorðað. Brúin var brotin frá þilfari en hékk þó enn
við skipið.
Eftir að kokkurinn var kominn í land voru þeir bræður einir
eftir um borð og þar sem skipið lá algjörlega á bakborðs síð-
unni þá héngu þeir utan á stjórnborðs kinnungi þess og héldu
sér þar.
Næstur til lands fór Gylfi en einhverra hluta vegna fór hann
ekki að ráðum Ingólfs með að losa sig við bússurnar. Hann var
einnig íklæddur sjóstakk þar sem hann taldi að loftið í honum
myndi halda sér uppi en sú varð ekki raunin.
Áður en Gylfi yfirgaf skipið var ákveðið að Þorvaldur myndi
binda líflínuna utan um sig og þeir í landi síðan draga hann til
sín. Þetta gekk eftir en í þann mund sem Þorvaldur var dreginn
frá skipinu sprakk frammastrið úr því, sleit af sér vanta og aðr-
ar festingar og skall í sjóinn aðeins örfáa sentímetra frá honum.
Á meðan á öllu þessu stóð urðu fjórmenningarnir varir við
björgunarskipið Sæbjörgu sem lónaði framan við strandstaðinn
og lýsti með kastara upp í fjöruna.
Ljóst er af þessu að mennirnir í björgunarbátnum voru fyrir
nokkru komnir um borð í Sæbjörgu áður en fjórmenningarnir
komust í fjöru.
Gengið í Reykjanesvita
Gönguferðin, sem í hönd fór, var engin skemmtiganga hund-
blautum og hröktum mönnunum. Ingólfur og Gylfi voru á
sokkaleistunum, Þorvaldur berfættur því sokkarnir yfirgáfu
fætur hans þegar hann sparkaði af sér bússunum og kokkurinn
berfættur í bússunum hans Gylfa. Næsta húsaskjól var Reykja-
nesviti en þangað var um 45 mínútna
gangur fullfrískum mönnum í góðri færð
og vel skóuðum.
Að komast úr fjöru og upp á Reykja-
nesið reyndist mönnunum auðveldara en
ætla mætti því að eftir að hafa fetað sig
eftir stórgrýttri fjörunni spottakorn fundu
þeir góða uppgönguleið.
Heim að vitanum náðu skipbrotsmenn
eftir erfiða göngu, sárfættir mjög og illa
til reika, en með aðstoð vitavarðar og
hjálparsveitarmanna síðustu metrana.
Þessi lífsreynsla hafði ekki varanleg
áhrif á ofangreinda viðmælendur því að
allir gerðu sjósókn að ævistarfi. Flestir
þeirra höfðu á orði að hugur þeirra hefði
ekki dvalið lengi við þann lífsháska, sem
þeir rötuðu í, enda hafi þeir verið 16 og
17 ára á þessum tíma, ungir, hraustir og
vitlausir.
Eftir slysið fór skipshöfnin öll til síns
heima nema Svavar og Ingólfur. Svavar fór í róður á Hrafni
Sveinbjarnarsyni tveimur dögum eftir slysið en þaðan lá leið
hans yfir á systurskip Vonar, Vörð ÞH-4, og á honum lauk
Svavar vertíðinni.
Ástæða þess að Svavar fór um borð í Vörð var sú að Áskell
Egilsson, Hléskógum, sem þar var háseti, hafði farið norður að
jarðarför Braga bróður síns sem lést í blóma lífsins, tvítugur að
aldri, í hörmulegu flugslysi á Öxnadalsheiði 29. mars 1958.
Heimildir um strandið:
Samtíma dagblöð. Svavar Gunnþórsson, Gylfi Baldvinsson, Þorvaldur
Baldvinsson og Gunnar Stefánsson.
Systurskipin og Landsmiðjubátarnir við bryggju á Akureyri.