Sjómannablaðið Víkingur - 01.04.2012, Side 31
Sjómannablaðið Víkingur – 31
Út er komið nýtt stórvirki eftir Magnús Þór Hafsteinsson,
Návígi á norðurslóðum – Íshafsskipalestirnar og ófriður-
inn 1942-1945, sem er sjálfstætt framhald bókarinnar,
Dauðinn í Dumbshafi – Íshafsskipalestirnar frá Hvalfirði og
sjóhernaður í Norður-Íshafi 1940-1942. Lítum í þessa stór-
fróðlegu bók. Herskip Breta liggja á Pollinum við Akureyri og
undirbúa hrikalegustu sjóorrustu sem háð hefur verið í norð-
urhöfum þegar þýska orrustuskipinu Scharnhorst var sökkt
við Norðurhöfða í Barentshafi.
„Gott og vel, herrar mínir. Brottför frá Akureyri klukkan
23:00. Þegar við komumst út á rúmsjó tökum við lokaæfingu á
leiðinni til aðgerðasvæðisins þar sem Jamaica verður skotmark-
ið eins og venjulega,“ sagði Fraser kankvís og leit glottandi á
skipherra beitiskipsins. Fundinum var slitið. Bruce Fraser taldi
sig nokkuð öruggan um að Duke of York gæti haft í fullu tré
við Scharnhorst í sjóorrustu. Breska orrustuskipið var aðeins
tveggja ára gamalt en áhöfn þess hafði þegar öðlast góða
reynslu í norðurhöfum. Það hafði verið tekið í notkun haustið
1941 og í desember sama ár sigldi það með Winston Churchill
forsætisráðherra á jólafund hans með Roosevelt Bandaríkja-
forseta í Washington. Eftir það hafði þetta orrustuskip verið í
sérstöku uppáhaldi hjá Churchill. Hann kallaði það gjarnan
„skipið mitt“ og gerði sér far um að koma um borð í hvert sinn
sem hann heimsótti skipalægi breska heimaflotans á Skalpaflóa
á Orkneyjum. Strax í
mars 1942 tók skipið þátt
í fyrstu aðgerðum sínum
í tengslum við siglingar
Íshafsskipalestanna. Það
var þá í viðbragðsstöðu í
hafinu austur og norð-
austur af Íslandi ásamt
öðrum skipum heima-
flotans meðan PQ12-
skipalestin sigldi frá
Hvalfirði til Rússlands.
Eftir það hafði orr-
ustuskipið verið í
kjarna fjarverndarflota
allra Íshafsskipa fram
á þennan dag. Nítján
hundruð manna
áhöfn Duke of York
var því orðin þaulvön umhverfi
Íshafsins og siglingum um það í öllum veðrum þó að skipið
hefði ekki lent í neinum beinum hernaðarátökum eða óhöppum
til þessa. Duke of York var sem fyrr segir ekki eins hraðskreitt
og Scharnhorst. Hámarkshraði þess var 29 hnútar á meðan
þýska skipið komst upp í 32 hnúta. Breska skipið
hafði þó ýmislegt fram yfir það þýska. Fallbyssustyrk-
ur var yfirþyrmandi með tíu risafallbyssur sem voru
með 14 tommu hlaupvídd. Til samanburðar voru
níu stærstu fallbyssur Scharnhorsts með 11 tommu
hlaupvídd. Duke of York var auk þess að sjálfsögðu
með mikinn fjölda af minni fallbyssum og mun fleiri
en þýska skipið. Ofan á annað var verulegur stærðar-
munur á skipunum, það breska mældist 35.000 tonn
en þýska skipið 26.000 tonn. Einn var síðan sá mun-
ur á þessum skipum sem við fyrsta augnatillit virtist
kannski ekki stórvægilegur enda bar miklu minna á
honum heldur en fallstykkjum og öðrum vopnabún-
aði. Það var tækjabúnaður á möstrum skipanna. Þetta
var ratsjáin, sem áður var nefnd, þetta dularfulla raf-
eindaundur sem gerði mönnum nú kleift að sjá í
myrkri og slæmu skyggni. Bretar vissu að sjálfsögðu
allt um það hvað skildi þessi skip að og gerðu áætl-
anir sínar í samræmi við það. Þegar ljóst var nú orðið
að Fraser vænti átaka var tækifærið notað á meðan
skipin lágu inni á Eyjafirði til að fara yfir öll dulmáls-
og merkjakerfi sem nota ætti í aðgerðinni sem fram
undan var. Innsigluð umslög með þessum kerfum
voru opnuð og innihaldið yfirfarið. Strangt til tekið
átti ekki að gera slíkt fyrr en aðgerð hæfist en Fraser
vildi að menn hans sigldu til orrustu með þessa hluti
á hreinu og heimilaði því að taka mætti dulmálslykla
og merkjakerfi fram nú, á meðan skipin lágu inni á
Eyjafirði. Allur loftskeytabúnaður var líka prófaður.
Sumir óttuðust að Þjóðverjar myndu heyra loft-
skeytasendingarnar í þessum prófunum en það var
talið ósennilegt og áhættunnar virði. Fjarskipti milli
skipa myndu hafa úrslitaþýðingu og menn urðu að Vígdrekinn Duke of York var með voldugustu herskipum í heimi. Á annan í jólum mætti skipið
þýska orrustuskipinu Scharnhorst til blóðugrar og ofsafenginnar orrustu.