Sjómannablaðið Víkingur - 01.04.2012, Side 38
38 – Sjómannablaðið Víkingur
afurðir þeirra utan. Á fyrstu árunum eftir
stríðið jukust umsvif samvinnuhreyfing-
arinnar hins vegar mikið og ekki leið á
löngu uns eitt skip gat engan veginn annað
öllum flutningum á hennar vegum. Þá var
ráðist í að láta smíða nýtt skip og árið
1949 kom annað Sambandsskipið til lands-
ins. Það hlaut nafnið Arnarfell, var smíðað
í Sölvesborg í Svíþjóð og systurskip Kötlu
Eimskipafélags Reykjavíkur.
Hraðfrysting á sjávarafurðum færðist
mjög í vöxt hér á landi á 5. og 6. áratug
20. aldar og þar var samvinnuhreyfingin
virkur þátttakandi. Hvorki Arnarfell né
Hvassafell var búið til flutninga á frystri
vöru og þegar kom fram um 1950 þótti
forystumönnum S.Í.S. nauðsynlegt að fá
sérútbúið frystiskip. Árið 1951 var nýtt
frystiskip, liðlega eitt þúsund smálestir að
stærð, smíðað fyrir Skipadeild S.Í.S. í
Oskarshamn í Svíþjóð. Þar hlaut nafnið
Jökulfell og kom hingað til lands 1951, en
hafði þá verið í bananaflutningum á milli
hafna í Ameríku um hríð. Á næstu árum flutti Jökulfell frystan
fisk til Evrópu-, og þó einkum Ameríkuhafna, og stykkjavöru
heim. Á næstu tveimur árum bættust enn tvö ný vöruflutninga-
skip í flota samvinnumanna, Dísarfell 1953 og Helgafell 1954.
Dísarfell var smíðað í Hollandi en Helgafell í Svíþjóð og var
systurskip Arnarfells.
Samvinnuhreyfingin var umsvifamikil í íslensku atvinnulífi á
því tímabili sem þessi grein nær yfir. Kaupfélög voru starfandi í
öllum landsfjórðungum, ráku margskyns atvinnu- og þjónustu-
starfsemi og þurftu jafnan á miklu magni af hverskyns olíu-
vörum að halda. Þær keyptu þau af Olíufélaginu hf. sem S.Í.S.
var stærsti hluthafi í. Á ýmsu gekk hins vegar með flutninga á
olíuvörum frá Reykjavík og út um land og árið 1953 festu
Skipadeild S.Í.S. og Olíufélagið hf. í sameiningu kaup á 865
smálesta olíuflutningaskipi til strandflutninga. Það hlaut nafnið
Litlafell. Fimm árum síðar tóku sömu aðilar aftur höndum sam-
an og keyptu stórt olíuskip til að flytja olíuvörur til landsins
frá útlöndum. Það hlaut nafnið Hamrafell, var liðlega sautján
þúsund smálestir að stærð og langstærsta skip íslenska kaup-
skipaflotans.
Siglingum Sambandsskipanna var háttað með nokkuð öðrum
hætti en skipa Eimskipafélags Reykjavíkur og Eimskipafélags
Íslands. Þau fluttu öðru fremur varning fyrir samvinnufyrirtæki
sem voru dreifð víða um land. Af þeim sökum voru þau tíðir
gestir á flestum höfnum innanlands, sigldu oft beint frá útlönd-
um til hafna „á ströndinni“ og komu mun sjaldnar til Reykja-
víkur en skip hinna félaganna. Einu Sambandsskipin sem komu
til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar í hverri ferð voru olíuskipin
Hamrafell og Litlafell. Hamrafell sigldi á þessum árum nær ein-
vörðungu á milli Íslands og Batúmí við Svartahaf og fór eina til
þrjár ferðir á ári til Aruba í Karíbahafi. Litlafell var hins vegar
að mestu í strandflutningum en fór þó stöku sinnum með lýsis-
farma til hafna í Evrópu og flutti þá stundum laust korn heim.
Jöklar hf.
Hraður vöxtur hraðfrystiiðnaðarins hér á landi á 5. og 6. áratug
20. aldar skapaði þörf fyrir sérútbúin skip til flutninga á fryst-
um afurðum. Árið 1947 stofnuðu hraðfrystihús í landinu, sem
áttu hlut að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, útgerðarfélagið
Jökla hf. og lét það sama ár smíða í Svíþjóð níu hundruð smá-
lesta frystiskip sem hlaut nafnið Vatnajökull. Árið 1952 keyptu
Jöklar annað og minna frystiskip, Foldina, af útgerðarfélaginu
Fold í Reykjavík. Það var skírt Drangajökull og gerðu Jöklar
þessi tvö skip út til loka tímabilsins, sem hér er um fjallað. Í
lok þess, 1959, bættist svo nýtt og stærra skip í flotann og
nefndist það Langjökull. „Jöklarnir“, eins og þeir voru tíðast
nefndir, fluttu frosnar sjávarafurðir til útlanda, jafnt austur og
vestur um haf, og margskyns annan varning heim.
Tímabilið 1945-1960 er tvímælalaust mesta vaxtarskeiðið í
sögu íslenskrar kaupskipaútgerðar. Í lok þess áttu Íslendingar
glæsilegan flota kaupskipa sem önnuðust nær alla flutninga til
og frá landinu. Auk þeirra fyrirtækja, sem hér hefur verið sagt
frá, störfuðu nokkur minni um skamman tíma og önnur voru
stofnuð undir lok tímabilsins. Frá þeim segir í næstu grein.
Smiðjuvegi 66 • 200 Kópavogi
Sími 580 5800 • www.landvelar.is
Sjóþolnir olíukælar
og varmaskiptar
Mánafoss og togarinn Jón Þorláksson í Reykjavíkurhöfn. Mynd: Ragnar Franzson.