Sjómannablaðið Víkingur - 01.04.2012, Blaðsíða 30
30 – Sjómannablaðið Víkingur
hvað ætti að klárast á hverjum
degi og 22. mars yrði báturinn
prufukeyrður fyrir þá og kl. 13:00,
hinn 24. mars, yrði hann prufu-
keyrður fyrir okkur og afhentur.
Fiskar enginn bara
á sjálfan sig
Þetta stóðst, því að þegar við kom-
um út í skipasmíðastöðina kl.
korter yfir eitt hinn 24. mars, en
Geir umboðsmaður hafði orðið
seinn fyrir vegna símtals frá Ham-
borg, voru þeir búnir að bíða í
korter og sýndu okkur það á
klukkunni. Þjóðverjarnir eru eng-
um líkir, því að ef áætlunin í dag
stóðst ekki var kölluð út aukavakt
og hún látin klára, svo að áætlunin
á morgun stæðist.
Ég fékk mannskapinn út með
Gullfossi, því að sumir voru hrædd-
ir við að fljúga. Þetta var nú meiri
munurinn á bátum. Að sjá allar
þessar græjur, miðað við Sæborg-
ina, vélin 400 ha. Mannheim,
25 ha. ljósavél með 110 volta
spennu, sjálfleitandi astek með
dýptarmæli og annar minni dýpt-
armælir, radar og miðunarstöð,
50 w talstöð, salerni í brúnni og
vaskar um allt.
Eftir að báturinn var afhentur,
fengum við lóðs með okkur upp
Traveá til Lubeck og þar tókum
við 7 tonn af salti í botnfestu,
minnugur ferðarinnar á Sæborg-
inni forðum, svo bæði kost og
olíu. Ferðin heim gekk mjög vel
með viðkomu í Færeyjum, en þar biðu
okkar fjórir Færingar, sem ég var búinn
að ráða áður. Nú fengum við þver öfugt
veður yfir Færeyjabankann, suðaustan
brælu og reyndist báturinn, sem fékk
nafnið Jón Guðmundsson KE 4, mjög vel
á lensinu. Þetta var þriðji bátur foreldra
minna með þessu nafni og jafnframt
síðasti báturinn, sem þau eignuðust.
Við byrjuðum á þorskanetum, mig
minnir að við legðum 6. apríl og fengum
1600 kg. í fyrsta róðrinum og það þótti
föður mínum góðs viti. En það lagaðist
og við lentum fljótlega í góðu fiskiríi.
Við byrjuðum með sex trossur og mig
minnir að við legðum ekki sjöundu
trossuna fyrr en síðustu vikuna á vertíð-
inni, komumst bara ekki yfir meira,
fengum upp í yfir 40 tonn í róðri og
vorum tíu á bátnum.
Þetta var í fyrsta skipti, sem ég sá
þorsklóðningar á dýptarmæli, og munur-
inn að geta staðsett trossurnar eftir radar,
keyrt beint í þær, í staðinn fyrir að þurfa
að leita, kannski í lengri tíma, eins og
stundum kom fyrir. Þarna sannaðist það,
eins og ég var oft búinn að segja við karl
föður minn, að það fiskaði enginn bara
á sjálfan sig, skilyrðin og fólkið væri
númer 1 og 2. Þetta þarf allt að vera fyrir
hendi. Báturinn var einn gangbesti bát-
urinn í flotanum og það hafði mikið að
segja, sérstaklega á línuveiðunum, enda
gekk okkur vel að fiska á hann, fengum
frá 740 tonnum upp í 880 tonn síðustu
vertíðina 1964. Einnig gekk okkur
þokkalega á síldveiðunum fyrir norðan
og austan. Fengum þetta frá 6000 mál og
tunnur með nótabát í togi og frá 11000
og upp í 17000 mál og tunnur síðasta
sumarið 1963 og á haustsíldinni fyrir
sunnan fengum við frá 7000 og upp í
14000 tunnur eitt haustið.
Þessi happa fleyta okkar er enn á floti,
var góður sjóbátur, mjög mjúkur á móti
og lipur, enda kraftmikil vél, miðað við
stærð. Á þessum árum var sjósóknin
hörð, enda ungir menn á flestum af
þessum nýju bátum með mikinn metnað.
Við seldum bátinn Meitlinum í Þorláks-
höfn vorið 1964, þá hættu foreldrar
mínir útgerð, faðir minn treysti sér ekki
í byggingu á stærri báti, en síldveiðarnar
fyrir austan voru að færast dýpra
og voru lengur fram á haustin,
sem kallaði á stærri báta. Síðasta
veiðiferðin á Jóni Guðmundssyni
var yfir hundrað mílur frá Dala-
tanga með fullan bát og það var
lítil sjómennska í því. Og síðasti
róðurinn á honum á haustsíldinni,
var út af Hjörleifshöfða.
Í Þorlákshöfn fékk hann nafnið
Ísleifur ÁR 4, næst hét hann Askur
ÁR 13, síðan Guðbjörg ST 17, þá
fékk hann nafnið Laufey ÍS 251,
næst fékk hann nafnið Dagur SI
66, svo hét hann Egill BA 77, þar á
eftir Stefán Rögnvaldsson EA 345
og í dag heitir hann Markús ÍS
777. Það má því segja að hann hafi
enst vel, enda sögðu Þjóðverjarnir
að þurrafúi væri óþekkt fyrirbæri
hjá þeim, því að þeir syðu úr eik-
inni öll lífræn efni og syðu svo í
hana fúavarnarefni á eftir. Eftir
þetta gat ég farið að nota úr
reynslubankanum jafnóðum og
ég bætti í hann.
Með hægri fótinn í skít
Ég má til með, svona í lokin, að
segja frá nafni bátsins Jóns Guð-
mundssonar GK 517 og seinna
KE 4, en það var nafn langafa
míns, sem faðir minn ólst upp
með, en hann var sjálfur áraskipa-
formaður suður í Höfnum og tal-
inn mjög góður stjórnari í vondum
veðrum. Dóttir hans, Marta Val-
gerður Jónsdóttir, minnist hans í
minningum sínum úr Keflavík, að
hann hafi, þá orðinn aldraður, róið sem
háseti með ungum formanni, verið
beðinn um að taka við stjórn á áraskip-
inu, þegar formaðurinn treysti sér ekki
lengur að verja það og komið skipi og
áhöfn heilu í höfn.
Pabba dreymdi oft, að ef hann færi
með hægri fótinn í skít, þá fiskaði Jón
Guðmundsson. Á meðan ég var með
Sæborgina og Jón G. Var gerður út líka,
spurði ég pabba oft, hvort hann dreymdi
aldrei vinstri fótinn líka í skít, því þá
hlyti Sæborgin líka að fiska. Faðir minn
var einnig skipstjóri og var með fyrsta
Jón Guðmundsson, 22 tonna bát frá
1931, en varð að hætta, þegar hann
veiktist af berklum 1937. Eftir það
vann hann við útgerðina eins og
heilsan leyfði og stundum umfram það
til ársins 1964, en þá hætti hann öllum
afskiptum af útgerð, en rak lítið frystihús
til 1970. Hann lést 28. júlí 1974, aðeins
rúmlega sjötugur.
Feðgarnir Ólafur Sólimann Lárusson og Arnbjörn í Kaupmannahöfn
1956.